Meint vinstrislagsíða á fjölmiðlum og í skemmtanaiðnaðnum
Íslenskum fjölmiðlamönnum er stundum legið á hálsi að vera vinstrisinnaðir. Á seinustu dögum hefur fastast kveðið að slíkum röddum varðandi þá þeirra sem starfa hjá Ríkisútvarpinu. Vera kann að það sé vegna þess að landsmenn geri auknar kröfur til þeirra blaðamanna sem starfa hjá ríkismiðli sem fyrst og fremst er rekinn fyrir skattfé. Ásakanir sem þessar eru þó langt frá því að vera bundnar við Ísland. Ítrekað hefur slík umræða blossað upp í Bandaríkjunum og víðar. Ástæða er einnig til að velta fyrir sér hvort skemmtanaiðnaðurinn sé...
...einnig vinstrisinnaður og nýti sér óumdeild áhrif til að breiða út boðaskapinn.
Lítið traust til fjölmiðla
Gallup könnun í Bandaríkjunum frá árinu 2011 sýndi að 63% aðspurðra töldu fjölmiðla ganga pólitískra erinda í fréttafluttningi. 47% töldu miðlana of halla undir vinstri stefnu og 13% taldi þá halla undir hægri stefnu. Svo mikið er víst að þar í landi eiga fjölmiðlar ekki traust landsmanna hvað þetta varðar. Traust Íslendinga til fjölmiðla er langtum meira.
Almenn vinstrislagsíða í fjölmiðlum vestanhafs
Einn af þeim sem skoðað hafa þessa þætti í fjölmiðlum er Dr. Tim Groseclose, prófessor í stjórnmálafræði og hagfræði við UCLA. Hann hefur gert heiðarlega –og að mínu mati nokkuð árangursríka- tilraun til að mæla á megindalegan hátt hvort að um pólitíska slagsíðu sé að ræða í fölmiðlum vestanhafs. Niðurstaða hans er sú að fjölmiðlar þar í landi hafi almennt vinstrislagsíðu. Merkilegt þótti mér að jafnvel þeir miðlar sem hallir eru undir hægri stefnu svo sem Washington Times og Fox eru með minni hægrislagsíðu en vinstri slagsíða„mainstream“ miðla.
Vinstriöflin í skemmtanaiðnaðnum
Vestanhafs hefur einnig verið mikið fjallað um vinstrislagsíðu í skemmtanaiðnaðnum. Það er svið sem áhugavert væri að kanna hér á landi. Ben Shapiro er einn af þeim sem farið hefur framarlega í slíkum stúdíum. Í bók hans „Primetime propaganda“ fjallar hann um það hvernig öflugustu skoðunarmótunarvél í sögunni –Hollywood- hefur verið beitt til að dreifa vinstrisinnuðum áherslum, eða minnsta kosti því sem vestanhafs flokkast sem vinstrisinnað.
Kunnglegt stef
Bókin byggir á viðtölum við áhrifafólk og eitt af því sem höfundinum þótti sláandi var hversu viljugir áhrifamenn voru til að viðurkenna slagsíðuna. Sama fólkið og gekk fram undir fánum umburðalyndis, fjölbreytileika og frelsis hafði í raun enga þolinmæði gagnvart pólitískum fjölbreytileika. Vinstrisinnað áhrifafólk í fjölmiðlum kallaði eftir slíku en brást illa við svo fremi sem slíkt hafði ekki vinstrislagsíðu. Hljómar kunnuglega?
Hjólað í manninn
Eftir útgáfu bókarinnar tóku sumir vinstrimenn í Bandríkjunum upp þjóðaríþrótt Íslendinga og hjóluðu í manninn í stað þess að ræða og kanna það sem hann hafði fram að færa. Shapiro var legið á hálsi að vera málpípa Repúblikana og annað slíkt. Eftir stóðu þó upptökur með viðtölum við áhrifafólk sem erfitt var að hrekja.
Áhrifafólk í skemmtanaiðnaði viðurkenndi að beita sér fyrir vinstri áróðri
Aðspurður um þá gagnrýni sem komið hefur fram um að skemmtanageirinn sé vinstrisinnaður sagði Di Bona (framleiðandi t.d. MacGyver og Entertainment Tonight) að sú gagnrýni væri væri sennilega rétt eða hann vonaði það að minnsta kosti. Leonard Goldberg (framleiðandi t.d. Blue Bloods, Charlies Angel og fl.) sagði að þeir sem neita því að vinstri sjónarmið séu ráðandi hljóti annaðhvort að vera að grínast eða ljúga. Hann fullyrti ennfremur að það að vera yfirlýstur hægrimaður myndi hindra frama í Hollywood. Undir þetta tók Fred Pierce forseti ABC og áhrifamaður í Disney og ESPN en hann sagði: „Þeir sem ekki halla sér til vinstri og halda þeim skoðunum á lofti er haldið neðanjarðar“. Gary David Goldberg höfundur „Family Ties“ segir að þetta nái til allra þátta. Þannig hafi hann til dæmi gert allt sem hann gat til að gera hægrikarakterinn „Alex Keaton“ að vonda kallinum. Lengi má áfram telja.
Vangaveltur
Eftir standa vangaveltur um það hvernig þessu sé hagað hér á landi. Er skemmtanaiðnaðurinn vinstrisinnaður? Hafa efnistök Spaugstofunnar verið vinstrisinnuð? Gæti hópur frjálslyndra skemmtikrafta og listamanna sett saman framboð og náð árangri í kosningum út á vinsældir sínar frekar en það sem þau standa fyrir á stjórnmálasviðinu? Hefur áramótaskaup RÚV einkennst af áróðri gegn Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki? Beita höfundar skopefnis sér fyrir vinstriflokka? Er háði beitt markvisst gegn þeim sem ekki dansa í takt við vinstisinnaðan pólitískan rétttrúnað? Gott væri að hafa rannsókn hér á en hyggjuvitið hjálpar þó hverjum og einum að svara fyrir sig.