Dregið hefur úr vexti hvað tekjur varðar. Hvað er framundan?

,,Sumarið er tíminn," söng Bubbi á sinn angurværa máta.  Það má svo sem til sannsvegar færa.  Hjá mér er sumarið oft tíminn þar sem svigrúm myndast til að... 

...kafa ofan í forsendur í rekstri Vestmannaeyjabæjar sem miklu skipta en mæta því miður afgangi þegar álagið í kringum daglegan rekstur er mikið.

Dregur úr vexti í tekjum Vestmannaeyjabæjar
Í þessum köfunarferðum hefur komið í ljós að miðað við fyrri hluta árs 2013 er nokkuð sennilegt að byrjað sé að draga verulega úr tekjuvexti Vestmannaeyjabæjar.  Í sexmánaðamilliuppgjöri árið 2010 höfðu tekjur aukist um 146 milljónir í samanburði við árið áður.  2011 var mismunurinn milli ára 99 milljónir.  Núna er mismunurinn einungis 25 milljónir.  Hangir sem sagt vart í verðbólgu.  Tekjur Vestmannaeyjabæjar eru svo náttúrulega bara meðal spegilmynd af tekjum bæjarbúa þannig að svipaða sögu er væntanlega að segja um heimilin hér í bæ.  Ástandið er sem sagt nokkuð gott en það er að hægja á vextinum.

Staða stofna
Rekstur Vestmannaeyjabæjar veltur fyrst og fremst á sjávarútvegi.   Þar eru sannarlega blikur á lofti hvað helstu nytjastofna varðar.  Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef leitað mér hjá sérfróðum aðilum er staðan um það bil þessi:

Þorskur
Talsverð aukning hefur verið á síðustu tveimur árum í úthlutunum bæði á Íslandi og annarsstaðar. Stofninn er í góðu ástandi og menn búast frekar við aukningu heldur en samdrætti. Markaðir eru erfiðir, miklar verðlækkanir hafa verið.  Þannig hafa ferskar afurðir lækkað um 10-15% á milli ára og samkeppni hefur harnað. Í frosnu eru einnig lækkanir en þó mismiklar eftir afurðaflokkum eða allt upp í 40%. Saltfiskur hefur tekið mikla dýfu en saltfiskur sem seldist á 6,8 EUR fyrir tveimur árum selst í dag á 4 EUR.

Ýsa,
Mikill samdráttur hefur verið í úthlutunum á aflaheimildum í ýsu og stofninn ekki í góðu standi samkvæmt Hafró.  Í þessari tegund hafa þó orðið einhverjar verðhækkanir  (ca. 15% á síðustu árum) og má líklega skýra það að stærstu leyti vegna minnkandi framboðs.

Ufsi
Ufsastofninn mun líklega haldast nokkuð svipaður næstu ár. Afurðaverð hafa staðið þokkalega í stað, einhverjar lækkanir (ca. 5%)
 
Lækkun í bolfiski er almenn og rök má færa fyrir því að þar ráði mestu þrengingar í Evrópu sem er stærsti markaðurinn fyrir þessar afurðir. Kostnaður fyrirtækja hefur einnig aukist mikið þar sem birgðahald hefur að stóru leyti flust yfir á framleiðandann sem þarf þar með að bera þann kostnað ásamt lækkandi afurðaverðum og tregari sölu.
 
Humar
Allir árgangar sem bera eiga uppi humarveiðina eru undir eða við meðallag. Veiðistofn hefur verið að minnka og líklegt að hann minnki eitthvað áfram á komandi árum.Talsverðar afurðalækkanir í heilum humri, um 8%. Salan er mjög hæg og fylgir honum talsverður birgðakostnaður, dýrt að geyma. Halarnir halda sér nokkuð og eru stöðugri enda annar markaður (Kanada).
 
Loðna
Mikil óvissa fyrir næstu vertíð þar sem í hefðbundnum leiðangri sl. haust þar sem tókst að skanna vel við mjög góðar aðstæður hefðbundið útbreiðslusvæði ungloðnu, fannst nánast ekkert af henni.  Þá hafa vísindamenn áhyggjur af útbreiðslunni vegna þess að sjórinn er að hlýna og óttast að hún færi sig norðar og e.t.v. vestar í kaldari sjó. Kvóti Íslendinga á síðustu vertíð var 450 þúsund tonn.

Ísl. síld
Stofninn er að rétta úr kútnum eftir slæma sýkingu en hann á einhver ár eftir í að ná fyrri styrk.  Kvóti á næsta ári er 87 þúsund tonn en var 150 þúsund 2008/2009.
 
Norsk-íslensk síld
Kvótinn í ár til Íslands er um 90 þúsund tonn en t.d. 2010 var hann yfir 180 þúsund tonn.  Útlit er fyrir áframhaldandi minnkun vegna þess að nýliðun hefur verið afar slök undanfarin ár.  Ráðgjöf fyrir næsta ár kemur ekki fyrr en í desember.
 
Kolmunni 
Þrátt fyrir að kolmunninn hafi verið að rétta úr kútnum er kvótinn er samt langt undir því sem hann var í upphafi aldarinnar og er á þessu ári 101 þúsund tonn.
 
Makríll
Ekki hefur enn verið samið um skiptingu aflaheimilda milli veiðiþjóða og því er um ofveiði að ræða.  Mikil umræðu er hjá ESB um að refsa Íslendingum og Færeyingum fyrir stjórnlausar veiðar en refsiaðgerðir eru ólöglegar við þessar kringumstæður.  Hrygningarstofninn stækkaði  fram til 2009 en hefur minnkað síðan þá en miklir óvissuþættir eru í stofnmatinu, m.a. vegna ólöglegra veiða Skota og Íra til margra ára.  Þegar við semjum mun kvóti okkar minnka en sennilega fáum við að veiða eitthvað inni í lögsögu ESB og það gæti gefið okkur verðmætari fisk.

Almennt telur Hafró að veislan, þ.e.a.s. í magni í uppsjávarfiskinum  sé á enda, þ.e.a.s. að svæðið sem þessir stofnar halda sig á þoli ekki þetta heildarmagn, t.d. hefur rauðáta snarminnkað á sl. árum, sem merkir að einhverjir af þessum stofnum munu sennilega gefa eftir í baráttunni um æti.  Þetta á þó kannski ekki við um loðnu sem heldur sig á öðrum slóðum.

Sem sagt...

Sennilegt er að nú fari að hægja verulega á uppsveiflunni í kringum veiðar og vinnslu.  Ef til vill má líkja ástandinu núna við að fjallgöngu þar sem búið er að klifra á toppinn.  Nú er að reyna að staldra sem lengst við á toppnum, njóta útsýnisins og undirbúa gönguna niður brattann.  Hluti af því er að leita allra leiða til að hámarka verðmæti úr hverju kílói og mynda sátt um sjávarútveginn.

Previous
Previous

Söluvagnar og stjórnsýsla

Next
Next

Það er fjör í Eyjum þegar fiskast vel. 5692 milljónir fluttar í burtu vegna skatta á sjávaútveginn, þar af 3792 í sértækt gjald