Söluvagnar og stjórnsýsla
Eins og glöggir bæjarbúar hafa rekið augun í hafa „Bæjarins bestu“ sett upp pulsuvagn á Vigtartorginu. Sitt sýnist væntanlega hverjum um það þegar rekstraraðilar ofan af landi koma til Eyja yfir þjóðhátíð til að bjóða upp á þjónustu rétt þennan tíma en eftirláta samkeppnisaðilum sínum harkið á ársgrundvelli.
Ég hef fullan skilning á því að þjónustuaðilar í Vestmannaeyjum sé í nöp við þetta fyrirkomulag. Ég hef líkan fullan skilning á því þegar fólk velur að sniðganga aðkomufyrirtæki og versla við þá sem þjónusta þá á ársgrundvelli. Ég vil hinsvegar leiðrétta þann leiða misskilning að...
...Vestmannaeyjabær hafi úrslitavald um það hvort fyrirtæki veiti þjónustu í Vestmannaeyjum eður ei og að bæjarfélagið geti mismunað þjónustuaðilum eftir því hvort að þeir eru með lögheimili í Vestmannaeyjum eða ekki.
Hólmgeir vinur minn á þeim eðal veitingastað „900 grill“ sendi mér bréf á Fésbókarsíðu sinni fyrr í dag vegna þessa máls. Ég kann því afar vel þegar menn leita svona beint eftir svörum frekar en að vera í einhverju baknagi og hnútukasti. Hólmgeir er sem sagt ekki bara öflugur þegar kemur að matseld og mér því bæði ljúft og skylt að bregðast við skrifum hans sem ég geri hér með:
Sæll Hólmgeir
Í umfjöllun gerist það oft að fólk telur að sveitarfélög geti tekið sér geðþóttavald þegar kemur að umfjöllun um skipulagsmál eða annað sem tengist stjórnsýslu þeirra. Svo er ekki. Persónulegar skoðanir okkar sem tímabundið gegnum stöðum embættismanna mega aldrei hafa áhrif á slíkt. Allar tilraunir til að hafa áhrif á samkeppnisrekstur myndu eðlilega mæta hörðum viðbrögðum eftirlitsaðila.
Það er heldur ekki svo að hægt sé að fjalla um umsagnir um rekstrarleyfi eftir því hvar viðkomandi aðili er með lögheimili. Slíkt væri alvarlegt brot á jafnræði.
Ég skil hinsvegar áhyggjur þínar og vangaveltur vel. Sem Eyjamaður sem sæki hér þjónustu allt árið get ég meira að segja tekið undir sumar þeirra.
Það er alltaf gott að fólk leiti svara við spurningum og kanni forsendur mála. Því skal ég með glöðu geði reyna að svara spurningum þínum eins ærlega og ég get. Ég bið þig samt um að virða mér það til vorkunar að ég er ekki sérfræðingur á þessu sviði og hafði ekki tök á því að láta mér fróðara fólk eins og framkvæmdastjóra stjórnsýslusviðs og/eða byggingafulltrúa lesa þetta yfir. Þessi svör eru því þau bestu sem ég get veitt að svo stöddu.
1. Þarf ekki leyfi til að stunda svona sölu eins og BB ætlar að vera með nú fyrir þjóðhátíð ?
Jú, það þarf leyfi. Ég er nú ekki sérfræðingur í svona umsóknum en mér skylst að aðalega sé þetta umfjöllunarmál heilbrigðiseftirlits. Það er sú stjórnsýslustofnun sem veitir rekstrarleyfi. Vek athygli á því að Vestmannaeyjabær fer ekki með stjórnun þeirrar stofnunar. Síðan held ég að það þurfi heimild frá vinnueftirliti. Vestmannaeyjabær fer heldur ekki með stjórn þeirrar stjórnsýslustofnunar. Ef um er að ræða vínveitingaleyfi þá er það sýslumaður sem gefur slíkt út. Vestmannaeyjabær fer heldur ekki með stjórn þeirrar stjórnsýslustofnunar en veitir þó umsögn. Ef um er að ræða húsnæði sem verið er að breyta til verslunar, veitingareksturs eða annars þarf síðan heimild skipulagsyfirvalda sveitarfélagsins.
Vestmannaeyjabær gefur ekki út nein rekstrarleyfi fyrir svona vagna en hefur aðkomu að þessu sem landeigandi og fulltrúi skipulagsyfirvalda. BB sótti um að fá vera með söluvagn í námunda við Herjólfsdal (við Þórsheimili). Því hafnaði Vestmannaeyjabær enda engin fordæmi um söluvagna þar. Þá óskaði BB eftir því að vera innan þess svæði sem skipulagt er fyrir slíka starfsemi (Vigtatorg). Það var samþykkt m.a. á grundvelli jafnræðis enda þar verið söluvagn í sumar.
Nú bendir margt til þess að ásókn í rekstur söluvagna eigi sennilega eftir að aukast á næstu árum. Vestmannaeyjabær stendur því núna frami fyrir því að móta sér sérstakar reglur þar að lútandi. Eins og áður er vikið að verður þar eitt yfir alla að ganga.
2. Hver gefur leyfi fyrir þessa aðila ?
Sjá svar við spurningu 1
3.Telja viðkomandi leyfisgjafar að hér sé ekki nóg af stöðum til að selja mat ?
Mér er til efs að leyfisgjafar geti tekið sér geðþóttarvald til að meta hvað sé rétt magn af matsölustöðum. Á sama hátt eru ekki neinar hömlur á fjölda bílaverkstæða, þvottarhúsa, fataverslanna eða annars.
4. Hvað telja viðkomandi leyfisgjafar að þeir fái í tekjur frá þessum söluaðilum ?
Vestmannaeyjabær er ekki „leyfisgjafi“ og ég get ekki svarað fyrir þá. Þeirra tekjur eru sennilega einhver lágmarks leyfisgjöld. Vestmannaeyjabær hefur engar tekjur af fyrirtækjum aðrar en útsvar af launum starfsmanna og fasteignagjöld. Ef til dæmis væri starfrækt hér smíðaverkstæði í leiguhúsnæði sem væri eingöngu mannað aðkomumönnum þá hefur sveitarfélagið engar tekjur af viðkomandi fyrirtæki, jafnvel þótt það skilaði hundruðum milljóna í arð. Tekjur Vestmannaeyjabæjar eru nánast eingöngu útsvar.
5. Getum við átt von á að hér verði gefin leyfi fyrir annarskonar verslun fyrir þjóðhátíð, eins og t.d fataverslun ?
Ef viðkomandi fyrirtæki uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru þá má eiga von á því. Ítreka þó að Vestmannaeyjabær veitir ekki slík leyfi. Hér eins og víðar hefur þetta reyndar gerst ítrekað. Ég man til að mynda eftir fatamarkaði í Alþýðuhúsinu, verkfærasölu í gamla slipphúsinu og fl. Það er neytenda að velja hvert þeir snúa sínum viðskiptum – það fylgir því ábyrgð að kaupa þjónustu.
6. Hver er stefna yfirvalda í þessum málum?
Stefnan er að virða þau lög og þær reglugerðir sem gilda um þessi mál.
7. Er kannski best að atvinnurekendur í Vestmannaeyjum loki sínum fyrirtækjum yfir þjóðhátíð og láti aðkomufólk sjá alfarið um þetta ?
Það verða atvinnurekendur sjálfir að vega og meta. Flestir sem reka þjónustufyriræki sjá sér hag í því að hafa opið yfir þjóðhátíð.
8. Er það vilji yfirvalda að atvinnurekendur í Vestmannaeyjum loki sínum fyrirtækjum yfir þjóðhátíð svo aðkomufólk geti séð um alla verslun ?
Sjá svar við spurningu 7
9. Getur verið að yfirvöld fái engin launatengd gjöld og aðra skatta frá viðkomandi aðilum ?
Öll fyrirtæki greiða sömu launatengd gjöld og aðra skatta. Eina leiðin til að komast hjá slíku er að stunda ólöglega starfsemi eins og að greiða svört laun. Útsvarið rennur síðan til þess sveitarfélags þar sem starfmenn eru með skráð lögheimili.
Ég vona að þú og aðrir lesendur virði það við mig að þessi svör séu ekki ítarlegri en raun ber vitni. . Viljir þú mína persónulegu afstöu er mér ljúft að hitta þig og ræða málin og vel má vera að í þessu eins og svo mörgu öðru myndi ég gera hlutina öðruvísi ef ég mætti hafa þetta bara eins og mér dettur í hug.
Með þjóðhátíðarkveðju
Elliði Vignisson
bæjarstjóri