Það er fjör í Eyjum þegar fiskast vel. 5692 milljónir fluttar í burtu vegna skatta á sjávaútveginn, þar af 3792 í sértækt gjald
Það er ekki víst að allir geri sér grein fyrir því hversu mikil búbót makríllinn er fyrir okkur Eyjamenn og þjóðarbúið í heild. Það er heldur ekki víst að fólk sé meðvitað um þá miklu verðmætasköpun sem á sér stað hér í Eyjum og hversu...
...mikið við leggjum til ríkisins.
Áætla má að útflutningsverðmæti makríls verði milli 30 og 40 milljarðar
Það er erfitt að giska á útflutningsverðmæti óselds afla. Þó er ekki fráleitt að reikna með því að útflutningsverðmæti makríls verði milli 30 og 40 milljarðar í ár. Makrílvertíðin fór reyndar seinna af stað í samanburði við seinustu ár en nú er allt komið á fullan slátt. Hjá VSV eru þrjú uppsjávarskip á makrílveiðum, þ.e.a.s. Ísleifur, Kap og Sighvatur Bjarnason, auk þess sem togararnir Gullberg og Drangavíki eru við að klára sínar aflaheimildir. Hjá Ísfélaginu eru Álsey, Heimaey og Þorsteinn á makríl. Hér við bætist svo að Huginn er með um 8800 tonna kvóta og hafa þeir nú þegar landað um 2500 tonnum. Í svipinn man ég svo eftir Vestmannaey, Smáey, Áskatli og Verði sem hafa landað makríl til vinnslu hér í Eyjum.
Margir að vinna í makríl núna
Í Eyjafréttum er sagt frá því að í síðustu viku fengu 334 útborgað hjá Vinnsló og eru sjómenn þá ekki taldir með. Í Godthaab er unnið allan sólarhringinn og ganga þar um 130 manns vaktir. Hjá Ísfélaginu eru milli 65 og 70 manns í makríl í landi en hátt í 100 manns starfa í heildina í landi hjá félaginu. Eins og ætíð iðar bærinn af lífi þegar vel gengur í sjávarútveginum. Eða eins og segir í textanum „Það er fjör í Eyjum þegar fiskast vel“.
3792 milljónir fluttar frá Eyjum vegna sértækra skatta sjávarútveginn
Aflaverðmæti skipa í Eyjum var 22,4 milljarðar árið 2011 og verðmætasköpun í sjávarútvegi (veiðar og vinnsla var 49 milljarðar það ár. Það eru 831 einstaklingar starfandi í sjávarútvegi hér í Eyjum og þar af 463 sjómenn. Af heildar vinnuafli í Eyjum starfa um 44,9% í sjávarútvegi. Áætlað veiðigjald fyrir Vestmannaeyjar á næsta fiskveiðiári eru rúmar 2300 milljónir . Áætluð verðmæti sem flutt verða úr byggðarlaginu í potta eru allt að 1320 milljónir. Samtals gera það um 3620 milljónir bara það árið. Þessi sértæku gjöld bætast svo við þær 172 milljónir sem þessar útgerðir greiða í sértækt kolefnisgjald og þær 1900 milljónir sem útgerðir í Vestmannaeyjum greiða í tekjuskatt. Samtals eru því 5692 milljónir á ári fluttar frá Vestmannaeyjum bara vegna þessara gjalda.
Með fullri reisn
Þar við bætist svo allur sá skattur sem Eyjamenn greiða af annarri atvinnustarfsemi. Það er því alveg ljóst að við Eyjamenn drögum ekki af okkur við árasláttinn þegar kemur að ríkisfjármálum og getum með fullri reisn krafist sómasamlegrar þjónustu úr þeirri áttinni.