Þegar draumur verður að veruleika
Ég var staddur erlendis, viku áður en ég tók við sem bæjarstjóri í Ölfusi 2018. Þá fékk ég símtal þar sem áhugasamir aðilar vildu hitta mig á fyrstu dögum í nýrri vinnu. Þeir sögðust hafa óbilandi trú á Ölfusinu og tryðu því að þar væru mestu tækifæri á landinu til atvinnusköpunar og atvinnuuppbyggingar. Ég deildi þessari sýn með þeim og við hittumst á fyrstu dögunum mínum í vinnu fyrir 5 árum. Þar var í fyrsta skipti rætt um hvort möguleiki væri að ráðast í risavaxið fasteignaverkefni í Þorlákshöfn, Móabyggð.
Með metnaðinn og trúna að vopni
Vilji þeirra var að ráðast í stærsta fasteignaverkefni á landsbyggðinni. Byggja þar blöndu af fjölbýlishúsum og sérbýli. Allt að 450 íbúðir. Undir leiðsögn bæjarstjórnar var dreginn upp samningur og þegar ráðist í skipulag í Móanum, sem þar til hafði verið lítið nýtt svæði við innkomuna í Þorlákshöfn. Allir deildu þeirri sýn að framundan væri vaxtartími. Veganestið var fyrst og fremst metnaður og trú á gæði svæðisins.
Hálfnað verk þá hafið er
Núna 5 árum seinna eru risin fyrstu 5 fjölbýlishúsin og tugir fjölskyldna eiga þar sín heimili. Það er eitthvað ótrúlega fallegt að sjá fólk stefna að því að vinna sér framtíð á forsendum þeirra drauma sem lagt var upp með. Engan bilbug er enda að finna á þeim sem að þessu verkefni koma enda gengur sala afar vel, þrátt fyrir stöðuna á fasteignamarkaði víðast hvar. Nú þegar er búið að selja 26 íbúðir og eingöngu 4 lausar á þessum tímapunkti. Eins og gefur að skilja verður frekari uppbyggingu hraðað.
Áfram skal haldið
Utanum skipulag heldur skipulagsnefnd sveitarfélagsins. Hún vinnur nú að því að skipuleggja næstu áfanga verkefnisins (Sjá hér neðst á síðunni). Þar verður dálítil áherslubreyting þar sem sérbýlum fjölgar, raðhúsum og parhúsum. Þegar upp verður staðið er stefnt að því að á þessu skipulagssvæði verði allt að 450 íbúðir og miðað við 3 íbúa í hverri íbúð gætu íbúar, bara í þessu hverfi, verið orðnir 1350. Þar við bætast svo íbúar í öllum þeim fjölmörgu hverfum sem unnið er að í Þorlákshöfn og þá er dreifbýli ótalið.
Það eru forréttindi að fá að vinna með kröftugum frumkvöðlum, einbeittum kjörnum fulltrúum, sterkum fagnefndum og síðast en ekki síst íbúum sem hafa áhuga á að byggja upp sitt samfélag.
Hamingjan er hér, einmitt á þessum forsendum.
Elliði Vignisson
bæjarstjóri