Fjölþjóðlegu verkefni ýtt af stað í Ölfusi

Ölfusið er í stórsókn þegar litið er til atvinnuuppbyggingar. Verkefni er fjölbreytt en eiga það sammerkt að leggja áherslu á umhverfisvæna verðmætasköpun.

Fulltrúar fyrirtæjanna komu saman í morgun til að hefja þetta áhugaverða verkefni

 

Risavaxið fjölþjóðaverkefni

Núna í morgun var haldinn upphafsfundur (kick off) verkefnisins Terraformin LIFE sem hlaut fyrir skömmu styrk upp á tæpan milljarð króna frá Umhverfis- og loftslagsáætlun Evrópusambandsins. Um er að ræða samstarfsverkefni First Water, Ölfus Cluster, Bændasamtakanna, Orkídeu, og SMJ frá Færeyjum með stuðningi frá Blue Ocean Technology í Noregi.

 

Hringrás til framleiðslu áburðar

Verkefnið sem gengur út á að þróa nýja aðferð til að framleiða áburð og lífgas úr þeim lífræna úrgangi sem fellur til við fiskeldi á landi og úr landbúnaði, er fyrsta íslenska verkefnið sem hlýtur þennan styrk. Stjórnandi verkefnisins er Rúnar Þór Þórarinsson og Páll Marvin hjá Ölfus Cluster leiðir aðkomu okkar heimamanna í þessu risavaxna verkefni.

 

Bæta umhverfisáhrif fiskeldis

Í því felast gríðarlega spennandi tækifæri til að skerpa enn á umhverfisvænum áherslum fyrirtækja í sveitarfélaginu þar sem unnið er að nýtingu lífrænna hliðarstrauma frá fiskeldi á landi. Afurðirnar verða til hagsbóta fyrir íslenska hringrásarkerfið og bæta umhverfisáhrif fiskeldis með því að framleiða ekki aðeins áburð til landbúnaðarframleiðslu heldur líka kolefnishlutlaust eldsneyti, raforku og hita.

 

Einn af hornsteinum grænna iðngarða

Ljóst er að þetta verkefni er þegar orðið einn af hornsteinum grænna iðngarða sem nú er unnið að því að móta og fellur sem slíkt vel að áherslum sveitarfélagsins Ölfus er kemur að atvinnuuppbyggingu á svæðinu og skipulagi Grænna Iðngarða. Áherslan er sem fyrr á hringrásarhagkerfið og að allir straumar séu endurnýttir eins og kostur er.

 

Áfram verður velferðin hér varin með verðmætasköpun í sátt við umhverfið og fólkið sem hér býr.

Previous
Previous

Nýtt hótel á einstökum stað.

Next
Next

Þegar draumur verður að veruleika