Vinstri popúlismi
Uppgangur Trump og annarra popúlista sem tengdir hafa verið hægristefnu hefur sett svokallaðan hægri popúlisma í brennidepil. Það er vel enda margt þar sem ber að varast, eins og dæmin sanna. Af einhverjum ástæðum hefur vinstri popúlisminn hins vegar siglt undir radar. Hér á landi er minna um hann fjallað en víðast hvar. Ekki er þó að efa að hann er, eins og annar popúlismi, vaxandi.
Popúlismi er að vaxa í Evrópu.
Í Evrópu hefur popúlismi illu heilli vaxið á seinustu árum. Breska hugveitan DEMOS hefur skilgreint fjórar mismunandi tegundir af popúlisma í okkar heimsálfu og þar á bæ telja þeir 17 virkar stjórnmálahreyfingar falla undir það að vera popúlískar. Enn oftar eru þó lýðskrumspopúlistar eingöngu laustengdir við formlega stjórnmálaflokka. Taka ef til vill þátt í sveitarstjórnum, verða talsmenn grasróta og fl. Finna sér þar fjöl til að standa á.
„Við þjóðin“
Með vinstri popúlisma er vísað til hugmyndafræði og stjórnmálalegrar nálgunar sem byggir á arfleið sósíalisma og vinstri hugmyndafræði. Ofan á þann grunn stilla vinstri popúlistar og lýðskrumsleiðtogar sér upp sem talsmanni „almennings“ gegn hinu illa, kapítalisma. Gegn fyrirtækjunum, gegn atvinnulífinu, gegn bönkum, gegn lífeyrissjóðum (svo ótrúlegt sem það er), gegn hagkerfinu, gegn hægrinu. Þar hika þeir ekki við að taka sér í munn orð eins „við þjóðin“. Stilla sér þannig upp sem varðmenn almennings, jafnvel þótt enginn hafi kallað eftir því né séð þörf fyrir það. Skrattinn er málaður á vegginn, og málarinn sjálfur býðst til að verja almenning gegn málverkinu.
Hrópræði umfram lýðræði
Meðal vinstri popúlista gildir hrópræði en ekki lýðræði. Sá sem öskrar hæst og leggur fram sterkustu sleggjudómana ræður. Sá sem dregur upp neiðkvæðustu myndina af andstæðingum sínum sigrar. Hefðbundar reglur lýðræðisins svo sem að meirihlutin ráði eru léttvægar meðal þeirra. Í því á hugmyndafræði þeirra meira skilt við trúarhreyfingar en stjórnmál. Sannleikurinn er þeirra og rök mega sín lítils. Að vera ósammála þeim er svik við æðri málstað. Málstað sem er í þeirra huga óskeikulur og hafinn yfir gagnrýni og rökræður. Gagnrýnin sjálf er svik við það sem gott er.
Við gegn kerfinu
Ólíkt hefðbundnum stjórnmálahreyfingum snýr orðræða popúlista sem sagt oft að því þeir sjá sem mikilvæga hagsmunagæslu gegn „kerfinu“. Þeir sjá ógnir við almenning víða svo sem í starfi stjórnmálaflokka, meðal fyrirtækja, hjá félagasamtökum og víðar. Þessi kerfi telja þeir kúga og bæla „venjulegt fólk“. Orðræðan dregur upp mynd af spillingu og málar sterka mynd af ákveðnum hópum eða stofnunum sem elur á ótta og reynir að kalla fram tilfinningu fyrir spillingu til að virkja stuðning og upphafningu á lýðskrumspopúlistunum.
Endurdreifing auðs og réttindi hinna kúguðu
Vinstri popúlistar tala gjarnan fyrir stefnu eins og endurdreifingu auðs, aukinni samneyslu, réttindum hinna kúguðu og skattlagningu. Þau gagnrýna grimmt það sem þau sjá sem samþjöppun valds og auðs í höndum lítillar elítu og kallar í orði kveðnu eftir aukinni lýðræðislegri þátttöku, þar sem almenningur tekur völdin og stjórn á ákvarðanatöku. Kunnuglegt stef frá tíma þar sem kallað var eftir sameiningu öreiga allra landa.
Tortryggni í garð fyrirtækja
Vinstrisinnaðir lýðskrumsleiðtogar og -hreyfingar- nota oft orðræðu sem stillir þeim upp sem málsvara „fólksins“ á móti „elítunni“ eða „fyrirtækjunum“. Þau setja álitamál upp sem baráttu milli kúgaðs meirihluta og fárra spilltra forréttindapésa. Þeir gera út á tortryggni í garð fyrirtækja og saka þau oft um illan hug gagnvart íbúum, samfélaginu og náttúrunni. Málsvörn fyrirtækja eða útskýringar þeirra eru gaslýstar eða því jafnvel haldið fram að þau hreinlega ljúgi. Máluð er mynd af hræðilegri framtíð verði vilji fyrirtækjanna að veruleika. Sú mynd ber gjarnan með sér ásakanir um mengun, misskiptingu og fullyrðingar um að heimurinn verði verri staður, nái vilji fyrirtækja fram að ganga.
Dæmin eru víða
Dæmi um vinstri popúlista eru víða. Hér á landi eigum við sannarlega vinstri popúlista, bæði á þingi, meðal álitsgjafa, í sveitarstjórnum og víðar. Ég gæti nefnt nöfn einstaklinga en ætla ekki að gera það. Ef þú ert að hugsa hvort einhver sé vinstri lýðskrumspopúlisti þá gæti þessi listi hjálpað:
1. Telur sig tala fyrir hönd hóps fólks. Notar „við fólkið“, „við íbúar“ og „við þjóðin“.
2. Talar fyrir því að það þurfi að endurdreifa auðnum með því að taka af þeim sem eiga og færa þeim sem eiga minna.
3. Tala stöðugt um ójöfnuð á Íslandi þrátt fyrir að Ísland sé meðal þeirra landa þar sem jöfnuður er mestur.
4. Talar um elítu sem heldur „venjulegu fólki“ niðri.
5. Tíðrætt um spillingu.
6. Hefur ofurtrú á „faglegum ferlum“, „hlutlausum ráðgjöfum“, „utanaðkomandi rágjöfum“ og slíku.
7. Sér fyrirtæki sem andstæðinga almennings. Sérstaklega stór fyrirtæki.
8. Leggur áherslu á jafna útkomu umfram jöfn tækifæri.
9. Vill beita löggjöfinni til að stjórna því hvaða orðfæri fólk notar.
10. Notar orð eins og „feðraveldið“, „kerfið“, „fyrirtækin“ og fl. til að skapa ímynd um djúpstæða samvinnu óvina til að klekkja á „venjulegu fólki“
Fylgt úr hlaði
Listinn hér að ofan dregur að mínu mati nokkuð skýra línu í sandinn milli vinstrimanna og vinstri popúlista, sérstaklega lýðskrumspopúlista úr þeirri átt. Auðvitað deila þessir hópar nokkrum einkennum, rétt eins og hægripopúlistar og hægrimenn almennt. Til einföldunar á að segja að lýðskrumspopúlistarnir og vinstrimennirnir almennt greini sig hvor frá öðrum í leiðum að markmiðum frekar en markmiðunum sjálfum. Vinstriflokkarnir hér eins og Samfylking og VG eru í eðli sínu klassískir stjórnmálaflokkar og þannig hluti af kerfinu sem vinstri popúlistarnir sjá sem rotið spillingarkerfi sem vinnur gegn „fólkinu“. Báðir hópar tala fyrir auknum jöfnuði en vinstri lýðskrumspopúlistarnir leggja ríkari áherslu á byltingu sem endurdreifir auðnum, jafnar laun óháð menntun/ábyrgð og fl. Andúðin gegn fyrirtækjum og fjármagni er einnig mjög ólíkt milli þessara hópa. Margt fleira úr þessari átt mætti telja til.
Sem sagt, hugmyndafræði vinstrimanna er mikilvæg fyrir jafnvægi í hinni pólitískri umræðu. Vinstri lýðsskrumspopúlismi er hinsvegar skaðlegur. Rétt eins og að hugmyndfræði hægrimanna er mikilvæg en hægri popúlismi skaðlegur.