Ekkert urðað, ekkert fer til spillis, umhverfisáhrif eru lágmörkuð.

Nú fyrir skömmu undirritaði ég fyrir hönd Ölfuss samning við Íslenska Gámafélagið sem tryggir að allt sorp frá heimilum í sveitarfélaginu fer nú til endurvinnslu. Ekkert er urðað, ekkert fer til spillis, umhverfisáhrif eru lágmörkuð. 

Í nokkur misseri höfum við unnið að innleiðingu á 4 þrepa flokkun þar sem í sundur er flokkað: „pappi“, „plast“, „lífrænefni“ og síðan það sem við köllum „óflokkað sorp“.  Pappinn og plastið hafa í dágóðan tíma farið í endurvinnslu og lífræna efnið til jarðgerðar.  Út af borðinu hefur staðið það sem snýr að „óflokkaða sorpinu“.  Með undirrituninni nú tryggjum við að „óflokkaða sorpið“ fer í kjölfarið til sorporkuvera erlendis sem nýta það til að búa til rafmagn og varma til húshitunnar og dregur þar með úr skaða vegna brennslu á kolum og hættu sem fylgir kjarnorku sem annars  er þörf á.  Þar með leggjum við einnig alfarið af urðun á sorpi, í bili að minnsta kosti.

Sveitarfélög bera mikla ábyrgð í umhverfismálum.  Einn veigamesti liðurinn hvað þann málaflokk varðar er meðferð sorps.  Með undirrituninni í dag tökum við ákveðin skref til að skoða nýjar leiðir.  Framtíðin leiðir svo í ljós hvort að um framhald verður eða hvort að enn betri leiðir finnist.  Á meðan geta heimili í Hollandi lýst upp skammdegið og ornað sér við varmann af óflokkuðu sorpi úr Ölfusinu.

Previous
Previous

Lóðir fyrir 32 íbúðir fóru á tveimur dögum

Next
Next

Situr Sjálfstæðisflokkurinn uppi með Svarta Pétur?