Lóðir fyrir 32 íbúðir fóru á tveimur dögum

Fáum dylst að Ölfus er í vexti.  Uppgangur atvinnulífsins, nálægð við höfuðborgina, hátt þjónustustig og óviðjafnanleg náttúra eru meðal þeirra þátta sem orðið hafa til þess að augu sífellt fleiri hafa beinst að þessu vaxtarsvæði.

Um 80 íbúðir á 2 árum

Á seinustu árum hefur mikið verið byggt í Ölfusi, og þá sérstaklega í Þorlákshöfn.  Lætur nærri að undanfarin 2 ár hafi framkvæmdir hafist við um 80 íbúðir og þar af eru framkvæmdir í gangi við um 40 íbúðir núna, haust 2019.

Lóðir fyrir 32 íbúðir fóru á tveimur dögum

Stefna bæjaryfirvalda er að leggja kapp á að aðgengi að lóðum sé ekki takmarkandi þáttur þegar kemur að vexti samfélagsins.  Meðal annars með það fyrir augum auglýsti sveitarfélagið lóðir fyrir 32 íbúðir í svokölluðu Norðurhraunshverfi.  Lóðirnar fóru í auglýsingu á þriðjudegi og er skemmst frá því að segja að á fimmtudeginum, tveimur dögum seinna, voru komnar umsóknir um allar lóðirnar.  Um sumar lóðirnar komu nokkrar umsóknir og þurfti því að draga á milli umsókna. 

Byggingaframkvæmdir hefjast snemma á nýju ári

Öllum lóðunum hefur nú verið úthlutað með fyrirvara um afhendingu 1. janúar en gatnagerð á að ljúka um miðjan desember.  Byggingaframkvæmdir á lóðunum eiga því að geta hafist snemma á næsta ári.

Næsti áfangi væntanlegur

Í ljósi þessarar miklu eftirspurnar þarf nú að skoða vandlega hvort ekki sé rökrétt að ráðast í beinu framhaldi í gatna- og lóðagerð við næsta áfanga í þessu hverfi en þar hefur þegar verið skipulagt hverfi með bæði rað- og einbýlishúsalóðum. Á meðfylgjandi mynd má sjá bæðir lóðirnar sem þegar eru farnar sem og 2. áfanga sem er væntanlegur.

Ölfusið er sannarlega öflugt og hafi það farið fram hjá einhverjum er rétt að ítreka aftur að….

….Hamingjan er hér.

Previous
Previous

Íslandsbanki gegn karlmönnum og plasti

Next
Next

Ekkert urðað, ekkert fer til spillis, umhverfisáhrif eru lágmörkuð.