Situr Sjálfstæðisflokkurinn uppi með Svarta Pétur?
Í morgunblaðinu í dag er áhugaverð grein eftir vin minn Jón Björn Hákonarson, ritara Framsóknarflokksins. Þar leggur hann til að OP3 verði vísað til sameiginlegu EES nefndarinnar. Þetta gerir hann ekki án samráðs við annað forystufólk Framsóknar.
Flestum er nú ljóst að umtalsverð andstaða er við OP3 meðal allra þriggja stjórnarflokkanna.
Það kann að vera að forysta Framsóknarflokksins sjái nú að þau geti á aðgengilegan máta skapað sér sérstöðu og orðið stjórnarflokkurinn sem rís upp. Líklegt verður að telja að með því myndi Framsókn ná til sín -þótt ekki væri nema hluta þess straums- sem annars færi yfir á væng erkifjenda þeirra í Miðflokknum. Jafnvel má leiða líkur að því að þau myndu verulega ná vopnum sínum verði farið að tillögum Jóns Björns.
Forysta VG hefur lítið tjáð sig og getur á einfaldan máta friðað sitt fólk með að taka undir þetta sjónarmið. Það er enda í fullkomnu samræmi við þann rétt sem við sannarlega höfum skv. EES samningnum. Ekki þarf að efast um að á vinstri vængnum myndu margir fagna því að eignast málssvara í þessu umdeilda máli.
Sjálfstæðisflokkurinn er sá flokkur sem helst hefur talað fyrir OP3. Að mínu mati hefur hann ekki gert það af einlægri sannfæringu heldur frekar til að axla ábyrgð í stjórnarsamstarfi. Það gæti því farið svo að Sjálfstæðisflokkurinn sitji uppi með Svarta Pétur í þessu máli. En er þó ekki of seint að standa upp og taka forystu í málinu í samræmi við það sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur ætíð gert í utanríkismálum þjóðarinnar.