Við verðum að framleiða okkur út kreppunni sem er að koma
Í gær fór fram örþing í Ölfusi undir nafninu „Matvælaframleiðsla á krossgötum“. Þar kynntu forsvarsmenn matvælafyrirtækja í Ölfusi stöðu sinna fyrirtækja og vörpuðu ljósi á þau miklu tækifæri sem Ísland á, þegar kemur að matvælaframleiðslu. Með framtakinu vilja Sveitarfélagið Ölfus og Þekkingarsetur Ölfus horfa til þess að matvælaframleiðsla verði nýtt sem ein helsta leiðin út úr þeirri kreppu sem fylgir COVID faraldrinum.
Fullbókað var á fundinn en vegna sóttvarna þurfti að takmarka gestafjölda við 60 manns. Til viðbótar við gesti í sal hafa nú þegar rúmlega 1200 manns horft og hlutstað á fundinn í gegnum beinaútsendingu og vefupptöku á netinu. Hægt er að nálgast upptöku hér: "Örþing í Ölfusi"
Fundurinn fór afar vel fram. Áhugi var mikill og einlægur, virk þátttaka gesta í umræðu og efnisleg yfirferð frummælenda áhugaverð.
Sérstakir gestir fundarins voru ráðherrarnir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þeir fluttu báðir stutt erindi þar sem þeir meðal annars ítrekuðu ríkan vilja ríkisstjórnar til eflingar matvælaframleiðslu.
Í máli frummælenda kom fram að Íslendingar eiga gríðaleg tækifæri til stórsóknar á sviði matvælaframleiðslu. Á skömmum tíma má skapa mikið af verðmætum og fjölga störfum hratt. Voru þar nefnd ómælt tækifæri í Laxeldi bæði á landi og í sjó, framleiðsla grænmetis og ávaxta í stórum gróðurhúsum, framleiðsla á kornmeti, útflutningur á vatni, smáþörungarækt og margt fl. Þá var bent á mikilvægi þess að halda áfram að þróa hefðbundinn sjávarútveg og landbúnað.
Athygli vakti að forsvarsmenn fyrirtækja nefndu sérstaklega að reglugerðarumhverfi á Íslandi væri ein helsta ógn við fyrirtæki þeirra. Þannig benti Jens Garðar Helgason forstjóri Laxa td. á að hjá hans fyrirtæki væri dæmi þess að leyfisferli hafi tekið 400 vikur hjá ríkisstofnun.
Á fundinum kom fram að heimurinn breytist hratt og mannkyninu fjölgar í veldisvís. Þannig er talið að á næstu 40 árum þurfi að framleiða jafn mikið af mat og gert hefur verið seinustu 8000 ár. Helsta ógn matvælaframleiðslu á komandi árum er takmarkað aðgengi að vatni, landi og orku. Ísland og þá ekki síst Sveitarfélagið Ölfus sem stóð að fundinum eiga þvi sögulega mikil tækifæri hvað þetta varðar.
Til að nýta þessi tækifæri og efla stuðning hefur Sveitarfélagið Ölfus í samstarfi við ýmis fyrirtæki stofnað Þekkingarsetur sem vinnur að kortlagningu tækifæra og stuðningi við fyrirtæki. Hægt er að kynna sér nánar starfsemi Þekkingarsetursins á vefsíðunni: www.olfuscluster.is
Segja má að niðurstaða fundarins hafi verið sú að tækifæri til stórsóknar í matvælaframleiðslu séu rík, fjölbreytt og nærtæk. Þannig megi færa sterk rök fyrir því að ein helstu viðbrögð við þeim efnahagslegu þrengingum sem Íslendingar standa frammi fyrir ættu að vera á forsendum matvælaframleiðslu. Það sem til þarf er fyrst og fremst að ríkið taki ákvörðun um slíka sókn og fylgi henni svo eftir í samstarfi við fyrirtækin og hagsmunaðila.