Þar er erfitt að spá, og sérstaklega um framtíðina
Almenn lífsgæði á Íslandi velta mikið á stöðu íslensku krónunnar gagnvart erlendum myntum. Slíkt hið sama á við um rekstrarumhverfi fyrirtækja og hins opinbera. Þótt það sé erfitt að spá, og sérstaklega um framtíðina er æskilegt að reyna að fylgjast náið með stöðu krónunnar og meta í hvað stefnir. Fyrir einu ári (í júlí 2012) tókum við hjá Vestmannaeyjabæ saman minnisblað um stöðuna og reyndum að spá í spilin. Þá var staðan sú...
að krónan hafði verið að styrkjast.
Tarrot og lófalestur
Þessi vinna okkar var ekki hvað síst unnin til að færa frekari stoðir undir fjárhagsáætlunarvinnu sem þá var í gangi. Fljótlega sáum við að sennilega yrði spáin aldrei mikið umfram tarrotspá eða lófalestur. En gott og vel á það skyldi látið reyna. Það er því athyglisvert að glugga núna í sýn okkar þá. Grunur okkar þá var að styrking krónunnar væri tímabundin og myndi væntanlega ekki vara lengur en fram í október að mesta lagi. Eftir að hafa gruflað í spár trúverðugra greiningardeilda töldum við að krónan myndi að öllum líkindum halda áfram að veikjast næsta árið og sennilega lengur. Allavega á meðan svona miklar þáttatekjur væru að fara af landi brott. Í minnisblaðinu koma þó fram vangaveltur um það hvort krónan gæti verið eitthvað lengur í styrkingarferli gagnvart EUR þar sem evrusvæðið væri að takast á við mikinn vanda, en slílkt væri þó fjarri því að hægt væri að taka sem gefinni stærð. Ákveðin merki voru uppi um að einhver Evruríki myndu á næstunni ganga út úr samstarfinu og mat okkar var að mögulegt væri að Evran gæti verið að veikjast þangað til en jafnframt væri líklegt að Evran færi aftur að styrkjast þegar að þessi lönd ganga út úr samstarfinu. Eftir stóð spá um veikingu íslensku krónunnar.
Hvernig gekk spáin eftir?
Þessi spá gekk nokkurn veginn eftir það sem af lifði ársins 2012, en ekki ef árið 2013 er tekið líka inn í myndina. Reynslan leiddi í ljós að krónan fór að veikjast í ágúst 2012 og var í veikingarferli til ársbyrjunar 2013. Frá 23. júlí 2012 til 23. janúar 2013 veiktist krónan gagnvart USD um 3,5% og gagnvart EUR veiktist krónan á sama tíma um 13,7%. Það bar hins vegar svo við núna í febrúar að krónan fór í styrkingarferli fram í maímánuð þegar að hún fór að veikjast aftur. Sú styrking hefur þó ekki náð að vega upp veikingu fyrri hluta tímabilsins. Frá 23. janúar 2013 hefur krónan gagnvart USD styrkst um 6,3% og er hún sterkari en hún var á sama tíma í fyrra (120,76 á móti 124,53). Gagnvart EUR hefur krónan styrkst um 7,4% frá janúar á þessu ári, þó er hún veikari en hún var á sama tíma í fyrra (159,1 á móti 151.0). Þessa ,,óvæntu“ styrkingu á þessu ári má sennilega að langmestu leyti rekja til inngrips Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði.
Framtíðarhorfur 2013
Vegna anna hefur okkur ekki tekist að fullgera spá fyrir næsta ár. Við teljum þó að það sé jafnvel enn erfiðara að spá núna en áður. Veikur grunur okkar um að það væru árstíðasveiflur í genginu vegna ferðaþjónustu reyndist sennilega ekki réttur. Líklegra er að geðþáttaákvarðanir séu stærri áhrifavaldur á gengið en æskilegt er. Stærsta óvissan núna er tengd gjaldeyrishöftunum og hvernig ný ríkisstjórn ætlar að snúa sér í afnámi þeirra. Skásta ágiskun okkar nú fela ekki í sér mikil tíðindi. Gengið á sennilega eftir að lækka heilt yfir. Staðan í sjávarútvegi og áliðnaði er erfið. Markaðir hafa verið að gefa eftir og staða margra nytjastofna er þung. Við þetta bætist undirliggjandi þrýstingur á veikingu krónunnar. Meðan að vöruskiptajöfnuður plús þáttatekjur er samtals í mínus hlýtur slíkt að vera. Þar sem ég er nú á leið í orlof með konunni má vel vera að ég fylgi þessum vangaveltum eftir með færslu um þrýstinginn á okkar ágætu krónu á næstu dögum.