Þjóðhátíðin er ein af gersemum Eyjanna - hugleiðingar í aðdraganda
Þjóðhátíð okkar Eyjamanna á sér lengri og sterkari hefð en aðrar skemmtanir og hátíðir á Íslandi. Uppskriftin er ekki flókin en þrátt fyrir ríkan vilja hefur engu öðru bæjarfélagi eða skemmtanahöldurum tekist að leika þennan leik eftir. Þjóðhátíðin er því...
...einstök. “Brekkusöngur, bálkösturinn allt á sínum stað, blíðar meyjar vaskir sveinar saman fylgjast að” segir í einu af þjóðhátíðarlögunum okkar en það þarf meira til. Þjóðhátíðin er sameign okkar Eyjamanna allra. Hún er ein af gersemum Eyjanna og endurspeglar töfra samfélagsins og því erum við öll ábyrg fyrir henni í nútíð og framtíð.
Samheldni, hefðir og gestrisni
Samheldni okkar Eyjamanna er fyrir löngu orðin landsþekkt. Það er ekki síst á þjóðhátíð sem reynir á þessa samheldni og ár eftir ár stöndumst við prófið. Þá komum við Eyjamenn saman sem ein fjölskylda og kappkostum að skemmta hvert öðru með söng og hverskonar samveru. Fjölskyldur eru tryggar sínum eigin hefðum og ganga þær í arf frá kynslóð til kynslóðar. Kjötsúpuboð, lundaveislur, rjómatertur og söngveislur eru meðal þess sem gerir hátíðina okkar öðruvísi. Eftir að hafa verið á rúmlega 40 þjóðhátíðum þá er það mín tilfinning að gestir okkar séu ætíð að verða betri í að taka þátt í þjóðhátíð. Virðing fyrir hefðum okkar heimamanna hefur aukist og gestir taka þátt í hátíðinni á okkar forsendum. Það er líka afar ánægjulegt að sjá hversu reiðubúnir Eyjamenn eru að opna heimili sín og tjöld fyrir gestum og veita þeim innsýn í þau forréttindi sem það er að vera Eyjamaður. Þar að auki eru gestir margfalt betur búnir og tilbúnari til að bjarga sér sjálfir ef veður setur strik í reikninginn. Ástæða er til að hafa sérstaklega orð á myndugleika þeirra ungmenna sem hingað koma ár eftir ár. Þau eru almennt sjálfum sér til mikils sóma. Þá verður seint of lofuð sú mikla fórnfýsi sem mótshaldrarar og velunnarar þjóðhátíðarinnar sýna ár eftir ár.
Sátt kynslóða
Á þjóðhátíð skemmta kynslóðirnar sér saman. Ömmur og afar, mömmur og pabbar, börn og barnabörn taka sér hlé frá amstri dagsins til að njóta samvista. Samveran í dalnum er kjörin til að miðla til æskunnar menningu Vestmannaeyja. Virðingu fyrir hefðum og lífvenjum Eyjamanna frá örófi alda. Þessi samvera þarf þó að vera af ábyrgð og á forsendum barna og unglinga. Þarfir þeirra eru þær sömu þessa helgi og aðrar. Þau þurfa öryggi og hlýan aga. Skýrar reglur og fyrirmyndir sem hægt er að treysta á. Þannig gerum við þjóðhátíð að gleðistund fjölskyldunnar.
Góða skemmtun
Um leið og ég óska öllum góðrar skemmtunar á Þjóðhátíð 2013, minni ég á mikilvægi þess að við göngum vel um Eyjuna okkar og hjálpumst að við að halda henni hreinni, öruggri og fallegri. Verum tillitsöm og þolinmóð hvert við annað og að látum gleðina ráða ríkjum að Eyjamanna sið. Sérstaklega bið ég Eyjamenn um að sýna nú sem endranær gott fordæmi og aðstoða gesti okkar eins og við Eyjamenn erum landsfrægir fyrir. Góða skemmtun á Þjóðhátið 2013.
Og þá mun allt verða eins og var
sko áður en þú veist, þú veist
og þetta eina sem út af bar
okkar á milli í friði leyst