Þessi litla stúlka markar tímamót í Ölfusi
Það var merkilegur dagur í sögu Ölfuss þegar íbúafjöldi sveitarfélagsins fór í fyrsta skipti yfir töluna 3.000. Af því tilefni heimsótti ég ásamt Grétari Inga Erlendssyni formanni bæjarráðs stúlkubarnið Atladóttur, nýfæddan íbúa númer 3000, og foreldra hennar, þau Aníku og Atla á heimili þeirra. Var það gleðirík stund sem minnti á hina raunverulegu merkingu allrar þeirrar uppbyggingar sem átt hefur sér stað undanfarin ár, að skapa gott, öruggt og kraftmikið samfélag þar sem ungafólkið okkar vill setjast að og bera áfram keflið.
Óskýrð Atladóttir, markar tímamót sem íbúi númer 3000 í Sveitarfélaginu Ölfusi. Þetta bjarta og fallega stúlkubarn er áminning til okkar allra um mikilvægi þess að skapa nýrri kynslóð þroskavænleg tækifæri til framtíðar.
Heimsóknin markaði tímamót, ekki aðeins fyrir unga fjölskyldu heldur fyrir allt sveitarfélagið. Í björtu andliti þessarar litlu stúlku, Atladóttur sem enn hefur ekki fengið nafn, má sjá tákn nýrrar framtíðar og áminningu um hvers vegna lagt hefur verið í miklar framkvæmdir og stefnumótun: til að tryggja að hvert barn og hver fjölskylda eigi hér gott heimili, góða þjónustu og jákvætt umhverfi til að dafna í.
Markviss uppbygging sem skilar raunverulegum árangri
Aukin fjölgun íbúa hefur ekki komið af sjálfu sér. Hún er afrakstur áralangrar vinnu við að efla innviði, skapa ný tækifæri og tryggja farsælt samfélag. Til að ná þessum áfanga hefur sveitarfélagið reynt að nálgast framtíðina af festu:
Leikskólinn Hraunheimar, sem opnaði í haust, er ein af skýrustu birtingarmyndunum af framtíðarsýn Ölfuss – að börnin og fjölskyldurnar eigi alltaf fyrsta sæti.
Efling velferðarþjónustu, nýtt velferðarsvið og bætt stoðþjónusta tryggja að fólk fái raunverulegan stuðning, þegar á þarf að halda.
Aukin þjónusta við eldri borgara með nýjum íbúðum, dagþjónustu og öflugra félags- og heilsueflingarstarfi.
Framúrskarandi fræðsluumhverfi, þar sem lokahönnun nýrrar álmu Grunnskólans í Þorlákshöfn er nú á lokametrunum til að mæta ört vaxandi nemendafjölda.
Íbúðauppbygging í takt við vaxtarhraða, þar sem 270 íbúðir eru nú í byggingu og skipulag tryggir rými fyrir meira en þúsund til viðbótar.
Bætt íþrótta- og tómstundaaðstaða, þar á meðal nýtt fimleikahús, endurbætur við sundlaug og fjölgun spennandi afþreyingarkosta – þar sem nýjar vatnsrennibrautir líta brátt dagsins ljós.
Nýr miðbær í hjarta Þorlákshafnar, sem mun styrkja menningu, verslun, þjónustu og mannlíf.
Efling hafnarinnar, sem skapar okkur tækifæri til verðmæta sköpunar til framtíðar.
…listinn er langur.
Þessi vöxtur hefur náðst án aukinna skulda, án þjónustuskerðinga og án þess að auka álögur á íbúa, þvert á móti hafa fasteignagjöld lækkað, frístundastyrkir hækkað og stuðningur við fjölskyldur og einstaklinga verið stóraukinn.
Atladóttir, fulltrúi framtíðarinnar
Í heimsókninni til litlu stúlkunnar Atladóttur og foreldra hennar speglaðist hamingja og von. Hún er nýr íbúi í sveitarfélagi sem er að vaxa, dafna og taka sífellt skýrari stefnu í átt að því að vera eitt fjölskylduvænasta, kraftmesta og manneskjumiðaðasta samfélag landsins.
Að hitta stúlkuna var áminning um kjarna starfa okkar. Allt sem við gerum, frá skipulagsvinnu og stækkun hafnarinnar til uppbyggingar leikskóla og velferðarþjónustu snýst um að skapa samfélag þar sem börn fá að vaxa, fjölskyldur fá rými og öryggi og fólk finnur sitt heimili. Heimsókn sem þessi minnir okkur á að vaxtarmarkmið, framkvæmdir og þróunarverkefni eru ekki tölur og mannvirki heldur framtíð þeirra sem fæðast, flytja hingað og velja Ölfus sem sitt heimili.
Þess vegna er hamingjan hér.
Framtíðin björt í Ölfusi
Bæjarstjórn Ölfuss er einbeitt í því markmiði sýnu að sækja fram af festu og ábyrgð. Hún ætlar áfram að bæta þjónustu og skapa samfélag þar sem lífsgæði eru í forgrunni.
Við óskum fjölskyldunni innilega til hamingju með litlu stúlkuna og hlökkum til að fylgjast með henni vaxa og dafna í þessu góða samfélagi.