Nýtt hverfi, ný heimili, fjölgun íbúða styður öflugt og mannvænt samfélag.
Þorlákshöfn er að vaxa og dafna. Í hverjum mánuði fjölgar þeim sem vilja veðja á Þorlákshöfn sem framtíð fjölskyldu sinnar. Að skipuleggja íbúðarhverfi er ekki gert af viðskiptalegum ástæðum, það er gert til að skapa fólki heimili. Á hverri íbúðalóð sem hér er skipulögð verður til vettvangur fyrir einstaklinga og fólk til að vaxa og dafna, deila gleði og sorgum. Fyrir mig eru það forréttindi að fá að koma að því að skapa slíkan jarðveg í takti við vilja bæjarstjórnar.
Gott að fá málefnalegar umsagnir og athugasemdir
Eitt af því sem nú er unnið að er breyting á aðalskipulagi sem felur í sér fjölgun íbúða á sunnanverðri Óseyrarbraut – úr 60 í allt að 155 íbúðir. Núverandi vinna er þó aðeins fyrsta skrefið í langri göngu og hefur ekki áhrif á loka útfærslu byggðarinnar sem síðar verður ákveðin í gegnum hefðbundið deiliskipulagsferli. Þar munu íbúar aftur fá tækifæri til að leggja fram athugasemdir og sjónarmið, líkt og nú. Öllum athugasemdum er fagnað og eins og ætíð verður reynt að mæta ábendingum. Enn er ekkert klappað í stein og því afar gott að fólk styðji við ferlið með umsögnum og ábendingum. Bæði núna við breytingu aðalskipulags og svo aftur við gerð deiliskipulags.
Hvað felur þessi breyting í sér?
Aðalskipulagsbreytingin sem nú er til kynningar snýst fyrst og fremst um að opna möguleika fyrir fjölbreyttari og fleiri íbúðir á svæðinu. Það hefur ekki verið tekin ákvörðun um nákvæma skiptingu í lóðir, fjölda hæða, bílastæði eða önnur útfærsluatriði – það kemur síðar. Þá verður meðal annars tekið tillit nákvæmari hönnunar á útliti húsa, hæðar, leik- og opins svæðis og annarra þátta sem skipta íbúa máli. Það sem þó er sérstakt við þetta skipulag er að til grundvallar þess liggur ákveðin heildstæð hugmyndafræði og hönnun sem var farið í með góðu samstarfi allra flokka í gegnum opna hönnunarsamkeppni
Hverjar eru helstu áhyggjur íbúa – og hvernig er þeim mætt?
Íbúar hafa vakið máls á ýmsum mikilvægum þáttum sem vert er að hlusta á. Þar má nefna ákall um ítarlegri upplýsingar um byggingarmagn og framkvæmdahraða. Við tökum þetta til okkar og teljum sjálfsagt að auka upplýsingagjöf. Þá hafa íbúar bent á mikilvægi þess að skýrt komi fram hvernig umferð og bílastæðamál verða leyst, sérstaklega í ljósi nálægðar við höfn og starfsemi hennar. Allt eru þetta, og aðrar ábendingar, mikilvægur liður í að vel takist til og mun þegar upp er staðið gera verkefnið þroskaðra og betra.
Til hvaða svæðis nær breytingin
Þótt heildarskipulagsreiturinn sem hér um ræðir nái frá Selvogsbraut, yfir hluta af Reykjabraut, Oddabraut, Egilsbraut, Óseyrarbraut og Hafnarskeiðs þá er núna eingöngu verið að gera breytingar á því sem snýr að hluta af Selvogsbraut. Einhvers misskilnings virðist gæta um að hér sé verið að gera breytingar á Hafnarskeiði og þar með talið gamla Meitilshúsinu. Að verið sé að fara inn á athafnasvæði hafnarinnar. Svo er ekki.
Á þessari mynd má sjá þá reiti sem verið er að skipuleggja fyrir heimili. Reitirnir við vestanverða Óseyrarbraut (næst gömlu byggðinni) verða með lágreistri byggð sem hækkar svo til austurs þannig að þeim megin við Óseyrarbrautina verða hærri hús.
Hugmyndafræðin sem lagt er upp með.
Útfærðar tillögur um húsagerð og heildarhugmyndafræði liggur sjaldan fyrir þegar ráðist er í breytingu á aðalskipulagi. Í ljósi þess að á þeim byggingareitum sem hér um ræðir er verið að byggja afar nærri eldri byggð þótti umhverfis- og skipulagsnefnd ástæða til að vanda sérstaklega til verka og því var ráðist í opna hönnunarsamkeppni. Í kjölfarið var farið í samstarf við þá sem áttu bestu tillögurnar. Af þeim ástæðum liggur nú fyrir heildstæð hugmyndafræði, strax við breytingu á aðalskipulagi. Í fyrirliggjandi hönnun hefur verið lögð áhersla á að ný byggð falli vel að núverandi umhverfi. Horft er til þess að mænishæðin næst gamla hverfinu fari ekki upp fyrir það sem það er núna. Íbúðarhúsin hækka síðan til austurs án þess að fara yfir mænishæð þeirra húsa sem hafa verið skipulögð og standa við Hafnarskeið. Ekki er gerð nein breyting á hinu eiginlega hafnarsvæði.
Unnið er út frá hugmyndafræði með höfuð áherslu á lágreista byggð með hófsömu byggingamagni næst gömlu byggðinni. Að auki er áhersla á græn svæði, leiksvæði og góða aðkomu fjölskyldubílsins.
Þung umferð og höfnin – samhliða íbúabyggð?
Sumir hafa lýst áhyggjum af samlífi íbúðarbyggðar og atvinnustarfsemi við höfnina. Það er fullkomlega skiljanlegt. Flest okkar deila þeirri skoðun að þegar að slíku kemur skiptir miklu að vanda til verka ef vel á til að takast. Með það í huga hefur nú þegar verið gripið til umfangsmikilla aðgerða til að létta umferðarálagi og beina þungaumferð frá íbúasvæðum. Nýr vegur meðfram hafnarsvæðinu gerir kleift að keyra milli syðsta og nyrsta hluta hafnarinnar án þess að fara um íbúðargötur. Sá vegur er svo til algerlega aðskilin frá annarri umferð og mun í framtíðinni bera nánast alla þungaumferð um höfnina svo sem gáma, efnisflutninga, seiðaflutninga og fl.
Hinn nýji hafnarvegur sem liggur meðfram höfninni frá suðri til norðurs mun bera nánast alla þungaumferð.
Þá hefur verið fjárfest fyrir rúmlega hálfan milljarð í endurbótum á Laxabraut til að draga úr umferð um byggðina sjálfa. Um þann veg mun nánast öll þjónusta við fiskeldin fara fram.
Ný endurgerð Laxabraut (rauðlituð) mun létta verulega allri þungaumferð í gegnum íbúðabyggð og tvinna athafnasvæði við nýjan hafnarveg (gulmerkt) og Hafnarskeið. Þannig er horft til áframhaldandi uppbyggingarhafnarinnar án þess að það komi verulega niður á íbúabyggð.
Eftir sem áður mun Hafnarskeiðið bera almenna umferð svo sem vegna hafnarstarfsemi og þess iðnaðar sem þar er. Ekki er gert ráð fyrir því að þungaumferð fari um Óseyrarbraut nema í undantekningartilfellum.
Vill einhver búa nálægt höfn?
Skiljanlega hentar ekki það sama öllum þegar kemur að vali á staðsetningu heimilis. Sumir kjósa að búa nærri skólum, aðrir í miðbæ, enn aðrir í dreifbýli og svo framvegis. Ekkert eitt hentar öllum hvað þetta varaðar. Dæmi víða af landinu sýna að fjölmargir sjá það sem eftirsóknarvert að búa nálægt höfn. Á það ekki síst við um stærstu hafnir landsins eins og í Reykjavík, á Akureyri, á Reyðarfirði, í Vestmannaeyjum og víðar. Á mörgum stöðum er sérstaklega vandað til þessara íbúða og þær meðal þeirra glæsilegustu í viðkomandi bæjum. Eins og víða annars staðar á landinu – þar sem hafnir og íbúabyggð hafa vaxið saman – má búa til jafnvægi milli atvinnu og búsetu hér í Þorlákshöfn, svo lengi sem hugað er að skipulagi og samræmingu.
Verslun, þjónusta og ný tækifæri
Í skipulagsgögnum kemur fram að svæðið sé skilgreint fyrir verslun og þjónustu – en það þýðir ekki að þar verði um iðnaðarstarfsemi eða hávaðasamar verksmiðjur að ræða. Þvert á móti er hér verið að breyta þessu svæði þannig að samhliða íbúðarhúsnæði geti þar þrifist hárgreiðslustofur, litlar verslanir og önnur þjónusta sem nýtist íbúum og fellur vel að íbúabyggð.
Við hönnun svæðisins er lögð áhersla á manneskjulegt og milt umhverfi.
Bent hefur verið á að endurnýjun gatna og lagna í eldra hverfinu sé löngu tímabær. Það er sannarlega rétt og hafa starfsmenn sveitarfélagsins fylgst vel með ástandi og til að mynda látið mynda lagnir og fl. Ekkert stenst tímans tönn og hefur sveitarfélagið þegar ráðgert slíkar framkvæmdir á götum eins og Reykjabraut og Oddabraut. Fjármagn til þeirra framkvæmda hefur verið tekið frá. Þó ný byggð kalli á innviði, er ekki verið að gleyma eldri hverfunum. Það þarf enda að vanda til verka í heild.
Að lokum
Það er ljóst að uppbygging sem þessi kallar á víðtækt samtal. Það er ekki aðeins verkefni sveitarfélagsins heldur okkar allra – íbúa, hagsmunaaðila og þeirra sem hyggjast setjast hér að í framtíðinni. Hús er ekki bara bygging heldur heimili. Þegar við skipuleggjum lóðir erum við að opna faðminn á móti nýjum íbúum sem hingað vilja koma og bera uppi þetta góða samfélag með þeim sem eru hér fyrir. Ég skora því á íbúa að fylgjast vel með því skipulagsferli sem nú er að hefjast. Betur sjá augu en auga.
Markmið okkar allra er hið sama. Við viljum tryggja að Þorlákshöfn haldi áfram að vaxa sem mannvænt, öruggt og fjölbreytt samfélag þar sem bæði unga fólkið og eldri kynslóðir finna sitt pláss – hvort sem það er í rólegu einbýli, í fjöruga miðbænum sem nú er unnið að, við hliða skólanna, eða í nálægð við iðandi höfnina.