Þetta hefur aldrei gerst áður! – Stærsta skipið sem siglt hefur inn í Þorlákshöfn kemur í dag!
Síðdegis í dag kemur stærsta skip sem nokkru sinni hefur siglt inn í Þorlákshöfn. Um er að ræða skipið MV Lista, sem Smyril Line mun hér eftir nota til þjónustu á siglingaleiðinni Rotterdam, Þórshöfn og Þorlákshöfn.
MV Lista var byggt árið 2011 í skipasmíðastöðinni Staalskibsværft A/S í Odinse í Danmörku. Skipið er 193 metra langt og 26 metra breitt og mun marka nýtt tímabil siglinga til Þorlákshafnar.
MV Lista, skip Smyril line er engin smá smíði. 193 metra langt og 26 metra breitt.
Hingað til hefur reynst örðugt að taka inn skip sem eru stærri en 130 til 140 metra löng þar sem snúningsrými hafnarinnar var takmarkandi þáttur. Á þessu hefur nú orðið breyting þökk sé framsýni hafnaryfirvalda í Þorlákshöfn, sem ákvað fyrir fáeinum árum að ráðast í framkvæmdir við suðurhluta hafnarinnar. Stækkað snúningsrými og aukin kyrrð innan hafnar gera nú mögulegt að taka á móti stærri skipum og efla þannig hlutverk hafnarinnar sem lykilvöruhafnar landsins.
Gríðaleg breyting hefur orðið á Þorlákshöfn á seinustu árum sem gerir nú mögulegt að taka á móti stærri skipum en áður.
Þorlákshöfn er þegar orðin ein mikilvægasta vöruhöfn landsins, en enn er mikil uppbygging fram undan. Til að mæta vaxandi starfsemi er sveitarfélagið þegar að vinna að endurskoðun þjónustusvæða og skipulagi byggingarlóða til að styðja við frekari vöxt og þróun hafnarinnar.
Það er magnað að hugsa til þess að fyrir 80 árum var vart hægt að lenda litlum mótorbát í Þorlákshöfn. Núna er hér ein öflugasta höfn á Íslandi.
Svona voru aðstæðurnar á fyrrihluta seinustu aldar. Nú sigla þarna um stærstu skip íslenska flotans.
Næsta skref í þróun hafnarinnar er svo væntanlega stækkun til norðurs sem við höfum þegar byrjað að undirbúa.
Þegar er hafinn grunn undirbúningur að næsta áfanga í stækkun Þorlákshafnar.
Allt er þetta gert af sama markmiði; verðmætaskapandi verkefni skapa íbúum velferð.