Eyjamaður ársins og annað fólk sem skaraði framúr í Eyjum árið 2011
Nú fyrir skömmu völdu Eyjasýn mann ársins og um leið veittu þeir viðurkenningu til þeirra sem skarað hafa framúr í samfélagi okkar Eyjamanna árið 2011.
Við það tækifæri flutti ég þessa ræðu:
Ágætu fulltrúar Eyjasýnar, handhafar fréttapíramídans og aðrir Eyjamenn
Mig langar að byrja á að óska glæsilegum verðlaunahöfum til hamingju með þá vegsemd sem því fylgir að hreppa Fréttapíramídann og færa Eyjasýn þakkir fyrir að vekja á ný athygli á þeim einstaklingum, fyrirtækjum og félögum sem skara framúr vegna elju og dugnaðar.
Það er aðdáunarvert hversu næmt auga...
...Eyjasýn og flaggskip þeirra Fréttir hafa fyrir bæjarlífinu enda hafa þeir á að skipa fólki sem varið hefur lunganum úr starfsævi sinni í að greina og fjalla um bæjarlífið bæði í blíðu og stríðu. Mér þykir hér ástæða til að minnast sérstaklega á þá félaga Ómar Garðars og Gísla Valla.
Ómar hóf störf á Fréttum árið 1986 og Gísli fjórum árum áður eða árið 1982. Þeira samanlögð starfsævi við Fréttir eru því rúmlega hálf öld og ástæða til að þakka þeim sérstaklega fyrir sitt framlag til samfélagsins.
Enn á ný hefur þeim Gísla og Ómari ásamt þeirra góða fólki tekist að velja handhafa Fréttapíramídans sem allir eiga það sammerkt að vera fremst meðal okkar Eyjamanna. Einstaklinga og hópa sem setja vindinn í þau segl sem við hin siglum undir. Þetta fólk er okkur hinum hvatning til að standa okkur áfram í uppbyggingu á okkar gæðasamfélagi þar sem einstaklingurinn nýtur sín og allir njóta góðs af. Verum þess minnug að á bak við árangur þeirra er ómæld vinna, kraftur, dugnaður og skýr vilji til að skara framúr.
Eitt af lykilatriðum búsetuþróunar er einmitt að kraftur og frumkvæði íbúa finni sér farveg í atvinnulífi, menningu og starfsemi frjálsra félagasamtaka. Slíka farvegi er víða að finna hér í Eyjum.
Eyjamaður ársins er skýrt dæmi um hvað fært fólk getur afrekað hér í Vestmannaeyjum. Hann hefur ekki bara verið frumkvöðull, uppfinningamaður, listamaður og lífskúnstner – um leið og allt þetta þá tók hann að sér að vera samviska þjóðarinnar og fórst það vel úr hendi.
Verðlaunahafar hér í dag kristalla það að Vestmannaeyjar eru útgerðarbær. Þar skörum við fram úr á öllum sviðum. Fyrirtæki eins og Grímur kokkur er í fremstu röð á heimsvísu þegar kemur að gæðum fulluninnar sjávarafurða. Sjómenn okkar, landvinnufólk og útgerðarmenn hafa fyrir löngu skipað sér sess í huga landsmanna allra fyrir útsjónarsemi, dugnað og þor á sviði sjávarútvegs. Það er staða sem við eigum að verja og vera stolt af. Það eru mikil forréttindi fyrir okkur Eyjamenn að eiga jafn öfluga starfsmenn í sjávarútvegi og hér eru. Keðjan þarf jú að virka með alla hlekki sterka. Slíkt er ekki sjálfgefið og mörgum byggðarlögum hefur beinlíns blætt vegna þess að atvinnulífið hefur ekki náð að laga sig að breyttum aðstæðum. Hér í Eyjum spila menn hinsvegar sókn þegar færi er á og vörn þegar hennar er þörf.
Vestmannaeyjabær hefur metnað til að halda stöðu sinni sem leiðandi aðili í þjónustu við íslenskan sjávarútveg. Milli bæjarfélagsins, íbúa og atvinnulífsins er þráður sem aldrei má slitna ef ekki á illa að fara. Það hefur verið hábölvað að fylgjast með því hvernig ákveðnir aðilar -opinberir sem einakaðilar- hafa rembst eins og rjúpan við staurinn við að tortryggja undirstöðu atvinnugein okkar. Lögð hefur verið áhersla á að viðhalda ógeðfeldri mynd og nýta síðan þá mynd til að skattleggja okkur á landsbyggðinni umfram það sem gerist í skjóli borgarinnar. Skýrasta dæmið um þessa ósanngirni er sennilega að 35% íbúa landsins greiða 85% skattsins sem kallaður er auðlindagjald.
Á þessum peningi eru svo tvær hliðar. Það dugar ekki að samfélagið standi bara með atvinnulífinu því atvinnulífið þarf einnig að styðja samfélagið. Annars slitnar þráðurinn. Aðilar í sjávarútvegi eins og aðrir aðilar í atvinnulífi okkar Eyjamanna hafa haft í heiðri slíkt þegjandi samkomulag og engum hefur dulist hversu mikil samfélagsleg vitund almennt er meðal atvinnulífsins í Eyjum. Þannig eru framlög til menningar, íþrótta og lista ómæld, svo ekki sé nú minnst á aðkomu þeirra að hverskonar líknarmálum og uppbyggingu á innviðum samfélagsins svo sem aðkoma að sjúkrahúsinu hefur sýnt
En maðurinn lifir jú ekki á brauðinu einu.
Við öll sem hér erum eigum það sammerkt að hafa veðjað á Vestmannaeyjar sem framtíð okkar. Hér vilum við ala upp börnin okkar og njóta þeirra forréttinda sem það er að búa í Vestmannaeyjum. Við viljum skapa okkur öllum bjarta framtíð.
Hér í Eyjum höfum við átt því láni að fagna að íþrótta- og menningarlífið hefur verið borið uppi af vinnufúsum eldhugum. Ég fagna því sérstaklega að sjá Kristínu Jóhannsdóttur menningar- og markaðsfulltrúa Vestmannaeyjabæjar heiðraða hér í dag en hún fer eins og allir vita fyrir aðkomu Vestmannaeyjabæjar að menningarmálum og þar með bæjarhátíðum. Þá vil ég einnig óska þeim aðilum sem hér voru heiðraðir fyrir aðkomu að samgöngumálum til hamingju og færa þeim þakkir. Í þetta skipti ætla ég þó ekki að hafa fleiri orð um samgöngumál en vona og bið þess að innan skamms geti ég loks orðið boðberi betri tíðinda hvað þau mál varðar en undanfarið hefur verið.
Ég get líka ekki látið hjá líða án þess að óska vinkonu minni og fyrrverandi nemanda – Margréti Láru Viðarsdóttur knattspyrnukonu hjá Turbina Potsdam innilega til hamingju með kjör sitt sem íþróttamaður ársins. Þar fer sannarlega Eyjakona sem nær að kristalla allt það sem samfélagið vill standa fyrir. Dugnað, þor, kraft og óbilandi trú á að það sé eftirsóknavert að skara fram úr.
Ég beini nú orðum mínum til ykkar allra og segi “Stöndum saman um að gera það eftirsóknarvert að skara fram úr á öllum sviðum samfélagsins. Látum ekki á neinum tímapunkti öfund eða afbrýðisemi spilla okkar góða samfélagi og halda íbúunum í helsi meðalmennskunnar. Fögnum árangri hvers annars og veltum fólki ekki upp úr mistökum þeirra því eina leiðin til að gera ekki mistök er að gera ekki neitt."
Gandhi orði þetta vel þegar hann sagði Frelsi er ekki til neins ef það felur ekki í sér frelsi til að gera mistök. Fólkið sem hér var heiðrað óttaðist ekki að gera mistök. Eins og allir sem skara fram úr þá gerðu þau vafalaust mistök, þau héldu hinsvegar áfram með óbilandi vilja og persónustyrk. Þau náðu árangri, þau sköruðu framúr og það er það sem skiptir máli. Því eigum við að fagna, enda njótum við öll ávaxtanna.
Ég óska glæsilegum handhöfum fréttapíramídans til hamingju með að hafa skarað fram úr á árinu.
Elliði Vignisson
bæjarstjóri í Vestmannaeyjum