Afmæli dóttur minnar og fæðingaþjónusta í Vestmannaeyjum
Dóttir mín á afmæli í dag. Hún fæddist fyrir 12 árum eftir keisaraskurð á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja. Sá dagur var annar tveggja stærstu daga í lífi mínu og minnar fjölskyldu. Hinn er að sjálfsögðu fæðing sonar míns. Við vorum svo gæfurík að geta notið þessa viðburðar á heimaslóðum með fjölskyldu, vinum og vandamönnum. Ég sagði henni að í afmælisgjöf ætlaði ég að gefa henni...
...það að berjast fyrir rétti verðandi foreldra í Eyjum að geta eignast sín börn í Vestmannaeyjum. Hún sagðist frekar vilja ipad, vonandi skilur hún mikilvægið betur seinna.
Miðstýring
Eins og víðast á vesturlöndum hefur fæðingarstöðum fækkað hér á landi undanfarin 15-20 ár. Síðastliðna áratugi hefur lausnarorðið í stjórnsýslu verið „miðstýring“. Öllu skal þjappað sem mest saman og þá auðvitað inn á höfuðborgarsvæðið. Illu heilli hefur þessi tilhneiging náð til þjónustu við fæðandi konur eins og allt annað. Fæðingarstöðum hefur þannig fækkað mikið og lengra skal gengið og þeim fækkað enn frekar. Fyrir um 20 árum voru 24 fæðingarstaðir á landinu en nú eru þeir 9.
Í útihúsi
Það er ekki víst að allir geri sér grein fyrir hve mikil skerðing og röskun er fólgin í þessu.
Nú er svo komið að verðandi foreldrar víðast hvar á landsbyggðinni þurfa að ferðast úr heimabyggð sinni til þess að fæða börn sín. Öllum skal stefnt í borgina rétt eins og þegar Ágústus keisari hugðist skrásetja heimsbyggðina fyrir 2013 árum. Það skyldi þó ekki bíða fólks á landsbyggðinni að fæðast í útihúsum – rétt eins og frelsarinn forðum.
Áhugavert lokaverkefni
Ég hef á seinustu dögum verið að glugga í lokaverkefni Arneyjar Þórarinsdóttur og Hrafnhildar Halldórsdóttur til embættisprófs í ljósmæðrafræði. Þar kemur fram að erlendar rannsóknir hafa sýnt að skerðing á fæðingarþjónustu í dreifðum byggðum hefur ýmiskonar skaðleg áhrif fyrir bæði foreldra og hinar dreifðu byggðir. Í þessari ágætis rigerð eru ýmsar mikilvægar upplýsingar fyrir þá sem vilja kynna sér þessi mál.
Álag og kvíði
Í ritgerð þeirra kemur fram að það fylgi því gríðarlegt álag fyrir barnshafandi konur og fjölskyldur þeirra að þurfa að fæða fjarri heimilum sínum. Oft er um langan veg að fara, óþægindi við ferðalög og ófærð. Það getur verið erfitt að koma sér á staðinn og jafnframt að ferðast til baka með nýfætt barn. Erfitt er að fara burt frá eldri börnum og þurfa að fá pössun fyrir þau jafnframt sem þær kviðu fyrir aðskilnaði. Þessi óvissa veldur streitu og kvíða á annars stærstu og gleðilegustu stund á ævi hvers einstaklings.
Tilflutningur á kostnaði
Tilgangurinn á bak við breytingar á fæðingaþjónustu er ekki hvað síst að ná niður kostnaði hins opinbera. Það vill þá e.t.v. gleymast að í raun er bara um tilflutning á kostnaði að ræða frá ríki til verðandi foreldra. Kostnaður við ferðalög og biðina á fæðingarstaðnum er oft verulegur. Ekki er ólíklegt að kostnaður við fæðingu, ferðalög, vinnutap og fl. hlaupi á hundruðum þúsunda og þaðan af meira. Sér er nú hver gjöfin til verðandi foreldra. Þar við bætast áhyggjur af ferðalaginu aftur heim og aðlögun fjölskyldunnar, sérstaklega eldri barna að eðlilegu lífi eftir heimkomuna tekur á. Hvað sem líður öllum Excelskjölum og flæðiritum þá er ljóst að fæðing fjarri heimabyggð valdur kvíða og streitu hjá barnshafandi konum auk töluverðrar röskunar á lífi fjölskyldunnar og mikils kostnaðar.
Samfélagslegt mikilvægi
Áhrifin eru þó víðtækari. Fram hefur komið að skortur á þjónustu við konur í barneignaferlinu hefur almenn áhrif á dreifbýli. Gildi þess að hafa fæðingarþjónustu eru sennilega meiri fyrir samfélagið sjálft en margir gera sér grein fyrir. Það skiptir að mati þeirra sem best þekkja til miklu fyrir samfélagið að fæðingar séu hluti af lífinu þar. Að samfélagið sé samfella frá vöggu til grafar.
Manneskjusýn
Svo mikið er víst að það er ekki í samræmi við manneskjusýn Eyjamanna að þessi mikilvægi þáttur lífsins verði frá þeim tekinn og í staðinn sett á fót læknisfræðilegt kassalagað kerfi sem aðskilur verðandi foreldra frá fjölskyldum sínum.
Af þessum ástæðum og mörgum öðrum verða Eyjamenn og aðrir á landsbyggðinni að verja fæðingaþjónustu.