Slökkvilið Vestmannaeyja 100 ára
Fyrir skömmu átti Slökkvilið Vestmannaeyja aldarafmæli. Nánar tiltekið þá var það 3. September 1913 sem Eyjamenn stofnuðu slökkvisveit hér í bæ. Slökkviliðsstjóri þá var kosinn Brynjúlfur Sigfússon sem hin svokallaða Brynjólfsbúð – þar sem nú er veitingastaðurinn
... Lundinn- er nefnd eftir .
Ekki er söguþekking mín næg til að rekja hver tók við af Bryjólfi. Nægilega vel þekki ég þó til að nefna að frá því að ég fæddist árið 1969 hafa einungis verið þrír slökkviliðsstjórar hér í Eyjum, þ.e.a.s. Kiddi á Skjaldbreið, Addi Bald og nú Raggi Bald. Það er í mínum huga ein af gæfum slökkviliðsins hversu trúir menn eru í þessum störfum og nær það bæði til yfirmanna sem og annarra. Fyrir vikið er lið okkar reynslumeira og öflugra en annars væri.
Slökkviliðsmenn vinna óeigingjarnt og erfitt starf. Það er óumdeilt. Því miður hef ég þurft að njóta aðstoðar slökkviliðs Vestmannaeyja þegar fjölskylda mín mátti hlaupa út úr heimili okkar þegar eldur frá kamínu hafði læst sig í þakið. Á undraverða skömmum tíma var fjölmennt lið slökkviðilsmanna komið til bjargar. Þekjan rofin og eldur slökktur. Hafi ég verið vafa um mikilvægi þess að eiga öflugt og velþjálfað slökkvilið áður þá hefði það breyst við þessa annars leiðu reynslu.
Á þeim hundrað árum sem liðið hafa frá stofnun Slökkviliðs Vestmannaeyja hefur það verið mikilvægur þáttur í öryggismálum okkar Eyjamanna. Það kann að koma einhverjum á óvart en samt er það nú svo að Slökkvilið Vestmannaeyja gegnir ríku hlutverki í sjóslysum (sbr. strand Belgíska togarans Pelagus), flugslysum, og margt fl. Það er í raun hornsteinn í öryggisviðbragði okkar. Það sannaði til að mynda eldgosið 1973.
Með þessum fáu línum þakka ég öllum þeim fjölmörgu sem starfað hafa að þessum mikilvæga öryggisþætti í samfélagi okkar Eyjamanna á umliðnu árhundraði Megi starfsmenn Slökkviliðs Vestmannaeyja áfram njóta farsældar í störfum sínum um ókomin ár.