Fjárlögin 2013 og Vestmannaeyjar - Betur má ef duga skal
Sjaldan eða aldrei hefur verið jafn mikil spenna í kringum fjárlögin. Um tíma stóð útgáfu á tölvuleiknum „Grand theft auto“ ógn af áhuganum á fjörlögunum. Leikurinn féll hreinlega í skuggann í umfjöllun. Öðru vísi mér áður brá. Það er því ekki úr vegi að...
...fjalla aðeins um hvað í frumvarpinu er að finna og áhrifin fyrir Vestmannaeyjar
Engin æðubunugangur
Þeir sem helst voru áhugasamir í aðdraganda birtingu þeirra hafa vafalaust átt von á miklum tíðindum. Nánast umbyltingu. Þeir hafa orðið fyrir vonbrigðum. Fjármálaráðherra hefur greinilega lært á æðubunuganginum á fyrrverandi ríkisstjórn og veit sem er að sígandi lukka er best. Eftir sem áður þykja mér fjárlögin benda til þess að það á að forgangsraða. Skera niður góðærisverkefni og sinna betur grunnþáttum í rekstri. Sjálfur hefði ég viljað að langtum brattara hefði verið farið í það verkefni. Þrjúhundruð þúsund manna þjóð getur án vafa verið með öfluga heilbrigðisþjónustu, menntun, löggæslu og annað slíkt. Það er hinsvegar ekki víst að hægt sé að sinna öllum þeim verkefnum sem nú er að finna í fjárlögum.
„Helvítis fokking fokk“
Staða ríkisins er sú að heildar skuldir og skuldbindingar eru um 2000 milljarðar eða 119% af vergri þjóðarframleiðslu. Vaxtagreiðslur á ári eru um 88 milljarðar. Ef það tekst að ná 2% hagvexti og hallalausum rekstri í 15 verða skuldir enn um 108,5% af landsframleiðslu. Jafnvel ef okkar ágæta þjóð nær því að vera með 4% hagvöxt í 15 (hefur reyndar aldrei gerst í þróuðu hagkerfi) þá verða skuldir ekki komnar niður í 60% af vergri landframleiðslu fyrr en eftir 13 ár. Ekki er því laust við að manni verði hugsað til orðanna: „Helvítis fokking fokk“ sem að mínu mati er einhver besta hagfræðigreining sem sett hefur verið fram eftir hrun.
Forgangsröðun
Ég er því ánægður með að í fyrsta skipti í afar langan tíma ber á viðleitni til forgangsröðunar. Byggingu Stofnunar íslenskra fræða við Suðurgötu í Reykjavík er slegið á ótilgreindan frest og sama á við um byggingu nýs Landspítala. Framlög til Talsmanns neytenda í Reykjavík er fært niður í 0 og ráð gert fyrir því að Neytendastofa yfirtaki hlutverk hans og sama hátt verður „Bankasýsla ríksins“ lögð niður. Fóðursjóður verður lagður niður og þar sparast um 1400 milljónir hið sama á við um Verðmiðlun á landbúnaðarvörum og þar sparast 405 milljónir. Jöfnun flutningskostnaðar er ekki í fjárlögum og þar nást 200 milljónir. Framlög til sóknaáætlunar eru nánast alveg skorin niður en þar var gert ráð fyrir 400 milljónum. Undir hnífinn fara einnig „Græn skref og vistvæn innkaup“ (150 milljónir), „Græna hagkerfið“ (280 milljónir), „Sérstakur saksóknari“ (290 milljónir), „Fjármálaeftirlit“ (236 milljónir), „Umboðsmaður skuldara“ (229 milljónir) og „Kvikmyndamiðstöð“ lækkar um 412 milljónir. Áfram er hægt að telja.
Staða Vestmannaeyja í fjárlagafrumvarpinu
Heilt yfir sýnist mér við geta nokkuð vel við unað í ljósi þess hvernig staðan er.
Þessi tafla sýnir mismuninn á frumvarpinu eins og það var samþykkt fyrir árið 2013 og því sem nú hefur verið lagt fram:
Stærsta fréttin þykir mér að 910 milljónir verða settar í Landeyjahöfn, nýsmíði Herjólfs og lausn á vandanum þangað til. Þegar þessu er bætt við niðurgreiðslu ríkisins á Herjólfi liggur fyrir að samtals er verið að verja 1648 milljónum í Herjólf og Landeyjahöfn á næsta ári. Það gera um 390 þúsund á hvern íbúa. Það þykir mér skýrt skilaboð til Eyjamanna um að ráðamenn sjá og skilja vandann og ætla sér að leysa hann í samvinnu við okkur heimamenn. Eins og komið hefur fram hef ég gríðalegar áhyggjur af Heilbrigðisstofnuninni og ekki minnkuðu þær við lestur fjárlaga. Framlög til hennar lækka um 42,9 milljónir eða úr 708 milljónum í 665. Sá niðurskurður bætist við þá staðreynd að núverandi framlög duga ekki fyrir rekstrinum. Í mínum huga er þetta bráðasti vandi okkar í dag og því miður sé ég hann ekki verða leystan án aðkomu Vestmannaeyjabæjar. Við munum að minnsta kosti ekki láta okkar eftir liggja ef slíkt getur orðið til að vernda og efla þessa mikilvægu þjónustu. Hraunbúðir fá ákveðna leiðréttingu sem er vel og aðrir þættir eru nokkurn veginn í jafnvægi.
Séð í þessu ljósi held ég að við megum nokkuð vel við una.
Betur má ef duga skal
Stærsta fréttin í fjárlögunum eru þau að nú skuli stefnt að hallalausum ríkisrekstri. Honum skal náð með auknu aðhaldi hvað útgjöld varðar frekar en skattpíningu. Hagræðing og aukið frelsi til að skapa verðmæti og þannig koma skattstofnum í betra horf verður vindurinn í segl þjóðarskútunnar. Framkomið frumvarp dugar ekki til að fylla seglin vindi. Seglin hafa hinsvegar verið dregin upp og kúrsinn settur. Vonandi er þetta vísir að því sem koma skal. Betur má ef duga skal.