Það má ferðast drjúgt fyrir 1600 milljónir. Það væri líka hægt að nýta fjármagnið í annað og ef til vill þarfa

Íslendingar eru tæplega 320 þúsund.  Á þingi sitja 63 fulltrúar þessarar fámennu þjóðar.  40 þeirra nýttu 64 milljónir til að ferðast til útlanda á seinasta ári.  Ráðherrar og starfsmenn ráðuneyta telja hér ekki með enda kostnaður vegna ferða þeirra skráður á viðkomandi ráðuneyti.  Burtséð frá því hvar kostnaður er skráður þá...

...greiðum við þetta allt með sköttunum okkar.

Til Azoreyja, Panama og Arkhangelsk
Alþjóðasamstarf skiptir okkur sem þjóð verulegu máli.  Á Azoreyjum búa um 239 þúsund manns.  Það fór þingmaður frá Íslandi í heimsókn þangað.  Það fór líka þingmaður frá okkur til Panama til að gæta hagsmuna okkar innan Alþjóðaþingmannasambandsins.  Þá sendum við einn af okkar þingmönnum til Víetnam, einn til Pskov, einn til Syktyvkar og einn til Arkhangelsk.  Sá sem fór oftast var Árni Þór Sigurðsson þingmaður VG.  Hann fór sextán sinnum.  Helgi Hjörvar þingmaður Samfylkingar fór í ellefu skipti.

1600 milljónir eru mikill peningur

Þingmenn okkar eru þó léttir á fóðrum ef horft er til ferðalaga starfsmanna í ráðuneytum.  Fargjöld og dagpeningar þeirra námu alls 1200 milljónum á fyrstu 9 mánuðum síðasta árs.  Því má gera ráð fyrir að kostnaðurinn fyrir allt árið hafi verið um 1600 milljónir.

Hvernig eigum við að nýta fjármagnið?
Fyrir kostnaðinn við þessi ferðalög og dagpeninga væri hægt að reka í heilt ár: Heilbrigðisstofnunina í Vestmannaeyjum (696 milljónir), þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda og sjónskerta (279 milljónir), Heyrnar og talmeinastöð Íslands (133 milljónir), framlög til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna (121 milljón), Þekkingarnet Suðurlands (14,5 milljónir), Þekkingarsetur Suðurnesja (15 milljónir), Menntaskólann á Laugarvatni (162 milljónir), Fullorðinsfræðslu fatlaðra (223 milljónir).  Að auki væri svo smá afgangur. 

Svo dettur kannski einhverjum í hug að það megi fjármagna þessar dagpeningagreiðslur þingmanna og ríkisstarfsmanna með því að fella niður sjómannaafsláttinn!

Previous
Previous

Miðað við mælistiku RÚV þá leggst byggð af í Vestmannaeyjum á þessari öld

Next
Next

"Sumir ættu að þegja"