Miðað við mælistiku RÚV þá leggst byggð af í Vestmannaeyjum á þessari öld
Í fréttum á RÚV í gær kom fram ágætis umfjöllun um stöðu Vestfjarða. Þar var sýnt fram á að ef línulegt framhald yrði á þeirri íbúaþróun sem verið hefur á Vestfjörðum seinustu ár þá myndi byggð leggjast þar af á 30 árum, nánar tiltekið í ágúst árið 2075. Það er hrollvekjandi tilhugsun...
... enda eru Vestfirðir í mínum huga ekki bara eitt fallegasta svæði landsins, heldur býr þar gott og öflugt fólk sem sannarlega á ótvíræðan rétt á því að málum sé þannig hagað að þau geti fundið atorku sinni og vilja farveg sem nýtist til eflingar byggða á þessu atvinnusvæði sem í gegnum árhundruðin hefur lagt drjúgt til þjóðarbúsins.
Hvað þarf að gera til að bjarga Vestfjörðum
Í fréttinni sagði Þóroddur Bjarnason stjórnarformaður Byggðastofnunar að ef bjarga ætti byggðinni þá yrði að bregðast skjótt við. „Þetta fer að verða mjög erfitt ef ekki verður brugðist við núna“ sagði Þóroddur og ekki er ástæða til að efast um þá faglegu greiningu. Þær leiðir sem hann taldi að grípa þyrfti til var að tryggja stöðugleika í sjávarútvegi og auka fjölbreytni atvinnulífsins. Fyrst og fremst taldi hann þó að bæta þyrfti samgöngur á svæðinu.
Byggðarfræðileg greining á sérstökum vanda
Á umfjölluninni að skilja mætti halda að hér væri búið að greina Vestfirði byggðarfræðilega. Einangra þann sérstaka vanda sem þar er og finna lausnir. Á þessu tiltekna svæði þarf að tryggja stöðugleika í sjávarútvegi, auka fjölbreytni atvinnulífsins og bæta samgöngur. Annars myndi byggð leggjast af á Vestfjörðum á þessari öld.
Hvenær leggst þá byggð af í Vestmannaeyjum
Ég tók mig því til og setti Vestmannaeyjar inn í þessa fræðilegu úttekt. Það er nefnilega svo að 1991 voru rétt tæplega 5000 (4923) íbúar í Vestmannaeyjum. Árið 2006 voru þeir rétt rúmlega 4000 (4075). Þeim fækkaði sem sagt um næstum 20% á þessum árum. Eftir það hefur þeim fjölgað og í dag eru þeir rétt rúmlega 4200. Ef sama línulega þróun íbúafjölda á sér áfram stað þá mun byggð leggjast af í Vestmannaeyjum árið 2099. Sem sagt ef línulegt framhald verður á íbúaþróun í Vestmannaeyjum og Vestfjörðum þá leggst byggð af á báðum stöðum á þessari öld.
Þetta er sameiginleg barátta
Ég mun því heilshugar berjast við hlið vina minna á Vestfjörðum fyrir því að á báðum stöðum, í Vestmannaeyjum og á Vestfjörðum, verði stöðugleiki í sjávarútvegi tryggður. Við munum líka vinna ötulega að því að fjölbreyttni atvinnulífs verði aukið á báðum stöðum og að samgöngur við bæði svæði verði bættar. Í þessari baráttu eigum við svo samherja á Vesturlandi, Norðurlandi, Norðausturlandi, Austurlandi og reyndar á landsbyggðinni allri. Staðreyndin er enda sú að þótt að vandinn sé að sumu leyti stærstur á Vestfjörðum þá er landsbyggðin öll að glíma við þennan sama vanda. Ríkisstjórn, alþingi, Byggðastofnun, RÚV og allir aðrir verða að horfa til þess í umfjöllun sem þeirri sem átti sér stað í kvöldfréttum í gær.