Er réttlætanlegt að líkja starfsemi Kaupfélags Skagfirðinga við glæpasamtök sem meðal annars eru þekkt fyrir morð, vændi og mannsal?
Það er alvarlegt þegar formaður stjórnmálaflokks lýsir því yfir að eitt byggðarlag umfram önnur einkennist af spillingu og yfirgangi. Það gerði Birgitta Jónsdóttir kapteinn Pírata þegar hún sagði að Skagafjörður væri „Sikiley Íslands“ og vísaði þar til þess að þar þrifist mafíustarf. Vörnin hjá henni -þegar bent var á alvarleikann- var sú að hún væri í raun ekki að tala um íbúana. Helgi Hrafn þingmaður Pírata sagði í því samhengi „[það] ætti að vera augljóst, að hún er að tala um...
...Kaupfélag Skagfirðinga“.
Sér er nú hver siðbótin
Þar með ganga Píratar skrefinu lengra. Það er nefnilega einnig alvarlegt þegar stjórnmálaflokkur líkir fyrirtæki á Íslandi við mafíustarf. Segir að Kaupfélag Skagfirðinga sé líkast því sem gerist hjá glæpasamtökum sem meðal annars stunda morð, limlestingar og mannsal. Slíkt er ekki boðlegt og alls ekki hjá stjórnmálaflokki sem í hinu orðinu segist vilja standa fyrir siðbót í stjórnmálaumræðu.
Morð, mannsal og vændi í Skafirðinum
Sikileyska mafían eru viðurstyggileg glæpasamtök. Kaupfélag Skagfirðinga er íslenskt fyrirtæki með höfuðstöðvar á Ártorgi í Skagafirði. Sikileyska mafían er laustengt net glæpahópa sem margar þjóðir hafa sameinast í baráttunni gegn. Kaupfélag Skagfirðinga er samvinnufélag í dreifðri eign og blönduðum rekstri. Sikileyska mafían stundar morð, mansal, vændi, nauðganir og marga þá hryllilegustu glæpi sem hægt er að hugsa sér. Helstu rekstrareiningarnar Kaupfélags Skagfirðinga eru mjólkurafurðarstöð, kjötafurðastöð, Kjarninn þjónustuverkstæði, dagvöru- og ferðamannaverslun í Skagafirði og Verslunin Eyri.
Aukin fjölbreytni myndi vafalaust styrkja Skagafjörðinn en....
Ekki verður hjá því horft að það er slæmt fyrir atvinnulíf í landsbyggðunum þegar eitt (eða fá) fyrirtæki verða allt umlykjandi. Það er eðlilegt að stjórnmálamenn hafi af því áhyggjur. Ég efast ekki um að aukin fjölbreytni í atvinnulífi og eignarhaldi myndi styrkja Skagafjörðinn og myndi fagna því ef Píratar vildu koma að slíkri uppbyggingu. Svipaða sögu má reyndar allt eins segja um Vestmannaeyjar, Fjarðabyggð, Dalvík og svo mörg önnur sveitarfélög. Það er réttlætir samt ekki að þessum fyrirtækjum og stjórnendum sé stillt upp við hlið glæpamanna sem uppvísir hafa orðið af hryllilegum glæpum.
Morð á stjórnmálamönnum
Ekki verður hjá því horft að verði stór fyrirtæki uppvís af því að hafa þvingandi eða óeðlileg afskipti af löggjafa-, dóms- eða framkvæmdavaldinu þá er það alvarlegt og í flestum tilvikum saknæmt. Ásakanir um slíkt eru ekki léttvægar. Það er eðlilegt að stjórnmálamenn hafi áhyggjur af slíku og vilji gæta þess að svo verði ekki. Það réttlætir samt ekki að ákveðnum fyrirtækjum eða stjórnendum sé líkt við mafíósa sem óhikað hafa staðið fyrir morðum á fjöldanum öllum af stjórnmálamönnum.
Alvarleikinn er sá sami
Alvarleiki þess að ganga á þennan máta fram gegn fyrirtæki er sá hinn sami, hver sem stjórnmálamaðurinn er og sama fyrir hvaða flokk hann situr. Það skiptir heldur ekki máli hvert fyrirtækið er. Ætlar einhver þeirra fjölmörgu sem réttlætt hafa orð Birgittu Jóndóttur að játa því að þeir hefðu einnig verði sáttir ef t.d. Bjarni Benediktsson eða Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefðu talað svona um t.d. Plain Vanilla, Össur, Samherja eða Grím Kokk? Skyldu fjölmiðlar og samfélagsmiðlungar hafa brugðist öðruvísi við því?