Ferskara en ferskt

Ég heimsótti í morgun eitt hinna fjölmörgu nýsköpunarfyrirtækja hér í Þorlákshöfn sem orðið hafa til á seinustu árum. Þar tók á móti mér Hrafnhildur Árnadóttir frumkvöðull sem stofnaði ásamt eiginmanni sínum Sigurði Steinari Ásgeirssyn fyrirtækið Fersk þurrkun ehf.  Þar fara hugdjarfir og framsæknir frumkvöðlar sem völdu að leggja allt í sölurnar til að skapa sín eigin tækifæri.

Hrafnhildur Árnadóttir, frumkvöðull og annar eiganda nýsköpunarfyrirtækisins Fersk þurkun ehf.

 

Einn allsherjar grænn iðngarður

Ölfusið allt, og þá ekki síst Þorlákshöfn, er reyndar orðið að einum allsherjar grænum iðngarði þar sem áhersla er lögð á framleiðslu umhverfisvænna matvæla. Verkefnin eru gríðarlega fjölbreytt og spanna allt frá spírulínuvinnslu úr smáþörungum yfir í laxeldi á landi. Frá rófuræktun yfir sæbjúgu. Frá áburðarframleiðslu yfir í harðfisk – og allt þar á milli.

 

Óviðjafnanleg bragðgæði

Fyrirtæki þeirra Hrafnhildar og Sigurðar hefur forsþurkun matvæla að meginviðfangsefni. Frostþurrkun er magnað fyrirbæri. Sú vinnsluaðferð viðheldur bragðgæðum og lögun matvæla mun betur en hefðbundinn þurrkun.  Í heimsókninni í morgun smakkaði ég frostþurkuð jarðarber og þau voru sannarlega ein allsherjar bragðbomba. Í raun eins og þau væru ferskari en fersk, svo furðulega sem það hljómar.

Jarðarberin urðu að magnaðri bragðbombu við þurkunina.

 

Fjölbreytt framleiðsla

Þau hjónin byrjuðu á því að koma sér upp frostþurrkara í tilraunaskyni í bílskúrnum hjá sér hér í Þorlákshöfn. Þar unnu þau með tilraunir á frostþurrkun á ýmsu góðgæti t.d. kryddi, bóluþangi, ávöxtum tómötum og síðast en ekki síst skittles og annað sælgæti.  



Fyrirtæki í miklum vexti

Þau færðu sig svo yfir í atvinnuhúsnæði og efldu tækjabúnað. Þar starfa nú 4 til 5 starfsmenn við vöruþróun og framleiðslu. Á næstu dögum flytja þau svo í eigið húsnæði með enn frekari landvinninga í huga. Ætlunin er að skala upp afkastagetuna með stærri frostþurrkara og bæta við frekari vinnsluaðferðum.

 

 Fylgt úr hlaði

Það er ótrúlega gaman að fylgjast með vextinum og kraftinum í þessu magnaða samfélagi. Tækifærin eru hér mörg og forréttindi að fá að fylgjast með dugnaðarforkum eins og Hrafnhildi og Sigurði. Í þeim -og mörgum öðrum- sannast að mikilvægasta auðlind hvers samfélags eru íbúarnir.

Previous
Previous

Heimamaður við stjórnvölinn

Next
Next

Orlofstíminn er mikilvægur