Orlofstíminn er mikilvægur

Nú standa yfir sumarorlof víða og þau ná hámarki á næstu vikum. Það eru meðal forréttinda okkar Íslendinga hversu langt orlof við eigum. Óvíða -ef einhverstaðar- fá starfsmenn jafn marga launaða orlofsdaga og hér á okkar góða landi. Það er afar vel. Það skiptir miklu hvernig við verjum þeim tíma.

Orlof eru nefnilega langtum meira en bara sandur, sól og að koma brún til baka í vinnu. Sem betur fer, enda hverfur brúnkan jafn hratt og kaldur bjór á standbar. Orlofin hafa nefnilega umtalsvert sálfræðilegt mikilvægi fyrir okkur.

Í orlofsferð vestur á firði -fyrir allmörgur árum- með vinafólki og barnaskaranum. Þarna urðu til minningar sem lifa með mér æfina út.

Andleg endurnýjun

Hversdagslífið í dag er flókið. Álagið af því að takast á við skilafresti, kröfur um skilvirkni, arðsemi, ábyrgð og allt hitt er í senn yfirþyrmandi og þreytandi. Að komast af vinnustaðnum er tækifæri til að endurhlaða sig og endurnýja andlegu hliðina. Fjölmargar rannsóknir sýna að það að taka sér orlof eykur sköpunarkraft, bætir getu til þrautalausnar, eflir frumkvæði, hvetur til nýsköpunar og svo margt fleira sem gerir okkur í senn að betri starfsmönnum og eykur vellíðan okkar sem einstaklinga.

Streitustjórnun

Líkamar okkar eru ótrúlega flóknir og magnaðir. Þeir eru hannaðir til að bregðast við streituástandi sem fylgja umhverfi sem við lifum ekki lengur við. Umhverfi sem kallaði á það að bregðast þurfti við streituástandi -eins og að standa frammi fyrir villtu dýri- með því að annaðhvort ráðast á það [fight] eða flýja [flight]. Við þetta flæddi t.d. cortisolhormónið um líkama okkar en féll svo hratt þegar hættan var liðin hjá. Í dag er það ekki þannig áreiti sem veldur streitu. Í dag eru það áhyggjur af börnunum okkar, af næstu afborgun af himin háum lánum, áhyggjur af loftslagsmálum, stýrivöxtum eða jafnvel í hvernig hlýrabol Gummi kíró verður næstu helgi.  Allt áreiti sem við leysum ekki með okkar náttúrulegu „fight or flight“ viðbrögðum. Orlof er hvíld frá þessum áreitum sem skapar vellíðan. Sé heilbrigðri hreyfingu og andlegri iðkun svo sem yoga bætt við verður orlofið enn betri streitustjórnun.

Sterkari tengsl við þá sem eru okkur kærust

Það er af sem áður var þegar fjölskyldur hittust í ró og næði reglulega yfir daginn. Þar sem kynslóðir deildu húsnæði og foreldrar voru í kallfæri við börn sín megnið af deginum. Nú eru samskiptin í gegnum símana, á hlaupum um húsið þar sem allir eru að verða of seinir og tækifræði til að fylgjast hvert með öðru er í fólgið í því að fletta upp á Instagram. Orlof með maka, börnum, vinum og öðrum ástvinum hvetur til sterkari tengsla en hversdagurinn gefur. Það fóstrar tækifæri til að skapa sælar minningar sem geta í raun haft meiri áhrif en nákvæmlega upplifunin af þeim. Sameiginleg reynsla á orlofstímanum hvetur til uppbyggjandi samskipta, gagnkvæmum skilningi og tilfinningu fyrir samstöðu. Allt skilar þetta okkur upplifun sem skilar okkur inn í hversdaginn og til vinnunnar endurnærð, sterkari og tilbúnari í verkefni haustsins.

Bættur svefn

Of oft mætir svefn afgangi fyrir öðrum kröfum lífsins. Í dag efast fáir um hversu slæmt það er. Svefninn hvílir ekki bara líkamann og endurnærir hann. Hann gegnir lykilhlutverki fyrir sálarlífið og andlega getu okkar. Vel heppnað orlof getur gefið okkur færi á að ná tökum á svefninum. Svigrúmið til að sinna hugarefnum okkar svo sem hreyfingu, lestri eða hverju því öðru sem við höfum almennt ekki tíma til knýr fram vellíðan sem styður við bættan svefn og aukna reglu á svefni.

Orlof er öllum mikilvægt. Ég held samt að það sé oft okkur hér á norðurhjara nauðsynlegra en mörgum öðrum. Veðurlagið gefur okkur sjaldnar tækifæri til að slaka á. Í því samhengi er áhugavert að skoða að við eigum vart almennilegt hugtak yfir það sem Danirnir kalla „hygge sig“ sem er beinlínis sú einbeitta aðgerð að njóta þess að gera ekkert annað en að líða vel.

Þannig að... pössum upp á nota orlofið okkar rétt ef við erum í þeim forréttindahópi að hafa tök á því. Stígum þakklát út af vinnustaðnum, njótum orlofstímans og snúum aftur endurnærð.

Previous
Previous

Ferskara en ferskt

Next
Next

Kjaftasögur og slúður