Heimamaður við stjórnvölinn

Á næstu dögum hefst starfsemi frumkvöðla fyrirtækis hér í Þorlákshöfn. Er þar um ræða nýja starfsstöð nýsköpunarfyrirtækisins VAXA technologies. Ég var svo lukkulegur að vera boðið, ásamt formanni bæjarráðs, í heimsókn til að kynna mér undirbúningin.

Ingmar Rafn ásamt Grétari Inga formanni bæjarráðs fyrir framan einn af vinnsluofnum Vaxa í Þorlákshöfn.

 

Ný starfsstöð nýsköpunarfyrirtækisins VAXA technologies í Þorlákshöfn

Hin nýja starfsstöð nýsköpunarfyrirtækisins VAXA technologies er við Óseyrarbraut í sögufrægu húsi sem meðal heimamanna er oftast kallað „Auðbjargarhúsið“ enda var þar um árabil starfsemi útgerðarfyrirtækisins Auðbjargar. Það er við hæfi að aftan við þá mögnuðu sögu verði skrifaður nýr kafli um ný tækifæri sem þó byggja á sömu gildum; verðmætasköpun til að tryggja velferð.

 

Ekki tjaldað til einnar nætur.

Miklar framkvæmdir standa nú yfir við undirbúning og ljóst að þar er ekki tjaldað til einnar nætur. Í senn er þar hugað að aðbúnaði starfsmanna og vinnslulínu sem tryggja á gæði framleiðslunnar. Í starfstöðinni hér í Þorlákshöfn koma til með að starfa 10 til 15 starfsmenn við nýsköpun þessarar afurðar.

 

Heimamaður við stjórnvölinn

Hin nýja starfsstöð sem er undir stjórn heimamannsins Ingimars Rafns Ágússonar mun á næstu dögum hefja vinnslu á spirulina þörungum sem eru ræktaðir í framleiðslu VAXA í auðlindagarðinum á Hellisheiði í Ölfusi.  Það er einstaklega ánægjulegt að sjá ungafólkið okkar finna orku sinni, þekkingu og menntun farveg hér heima. Þá þekki ég einnig vel það orð sem fer af heimamönnum hjá þeim fyrirtækjum sem hér eru að staðsetja sig. Það orð er allt á einn veg; harðduglegt og heiðarlegt gæðafólk. Ekkert sem kemur mér á óvart þar.

 

Tveir vöruflokkar

Í dag framleiðir VAXA technologies tvo vöruflokka úr áðurnefndum smáþörungum. Omega­3 töflur og svo Immunity Boost munnsprey. Það er þó bara byrjunin. Möguleikar tengdir framleiðslu á forsendum smáþörunga eru nánast endalausir og ánægjulegt fyrir okkur að Ölfusið sé ein af þungamiðjum þessarar framleiðslu og að heimamenn séu í ábyrgðarstöðum.

 

Ölfusið í séstöðu

Ölfusið er í sérstöðu hér á landi. Auðlindir eru margar; vatn, orka, land, mannauður og svo margt fl. Þá er höfnin lykilatriði ásamt staðsetningu í nágrenni borgarinnar. Hér er sérstök áhersla lögð á ræktun umhverfisvænna matvæla og sú. Það eru forréttindi að sjá vöxtinn sem þessu fylgir.

 

Fylgt úr hlaði

Vel flestum er ljóst að verðmætasköpun er undirstaða velferðar. Hér í þessu magnaða samfélagi í Ölfusi hefur þetta í langan tíma verið haft í heiðri. Íbúar hér, eins og annars staðar, hafa enda fundið á eigin skinni hve mikilvægt það er fyrir velferðina að störf séu mörg og þau fjölbreytt.

 

Previous
Previous

Íbúafundi Heidelberg frestað að beiðni heimamanna.

Next
Next

Ferskara en ferskt