"Hvenær opnar Landeyjahöfn?"

Nú þegar líða fer að vori erum við Eyjamenn farnir að horfa til þess hvenær Landeyjahöfn opni aftur og eðlilegar samgöngur komist á.  Sigling í Þorlákshöfn er jú hjáleið sem einungis ætti að nota í undantekningartilvikum.  Margir hafa haft samband við mig og leitað eftir upplýsingum um það hvenær höfnin opni.  Hið sanna svar við því er: "Ég veit það ekki?".  Eftir sem áður langar mig að gera grein fyrir þeim upplýsingum sem ég bý yfir, svo takmarkaðar sem þær þó eru.

Þannig er að vonir standa til að endurbótum á dýpkunarskipinu Dísu ljúki í dag og ef allt gengur að óskum... 

...geti það skip lagt af stað í Landeyjahöfn núna seinnipartinn í dag.

Nú þegar hefur dýpkuknarskipið Perlan hafið dýpkun og mun nýta aðstæður núna til að vinna í haginn.  Vonast er til að Dísa verði komin til verksins á morgun en þá er hinsvegar hætt við að veður verði orðið slíkt að ekki verði hægt að vinna við dýpkun svo nokkru nemi. Langtímaspáin er hinsvegargóð frá og með laugardeginum næsta, en það getur breyst eins og Eyjamenn þekkja.

Nýjustu mælingar benda til þess að sandburður í og við höfnina sé að dragast verulega saman og nálgast nú að verða það sem upphaflega var búist við.  Þar skiptir miklu að áhrif gosins í Eyjafjallajökli eru nú minni. 

Þessar mælingar benda til þess að einungis þurfi að dýpka um 27 þ.m3. á rifinu.  Miðað við afköst dýpkunarskipsins Sóleyjar þá tekur það innan við 3 daga við góðar aðstæður.

Innan hafnar þarf að taka ca. 50 þ.m3. til að hægt sé að nýta Herjólf til siglingar í Landeyjahöfn.  Það tekur að lámarki um 5 daga við góðar aðstæður.  Eftir það verður svo sennilega haldið áfram með dýpkun innan hafnar til að draga úr "hreyfingu" skipsins þegar það liggur við bryggju.

Staðan nú er sem sagt sú að það þarf að lámarki 5 góða daga til að þessi þrjú skip geti opnað höfnina fyrir Herjólf.  Veður og sjólag stjórnar svo hvenær þessi 5 dagar gefast.

Til upplýsinga get ég sagt frá því að hér í Ráðhúsinu er veðmál í gangi um það hvenær höfnin opnar.  Í bjartsýni minni spáði ég að hún opnaði 8. mars og var þá að vonast til að veður yrði gott þar til.  Svo verður hinsvegar ekki og ef ég ætti að spá núna þá myndi ég vera varfærnari og segja: "fyrir páska".  Allt ræðst þetta þó fyrst og fremst af veðri.

Previous
Previous

Það er fjör í Eyjum þegar fiskast vel. 5692 milljónir fluttar í burtu vegna skatta á sjávaútveginn, þar af 3792 í sértækt gjald

Next
Next

Ég er á móti því að svipta landsbyggðina embættum sýslumanna