Fjárlögin boða 41 þúsund milljóna halla á næsta ári.
Það var hvasst í sveitinni síðdegis í gær. Svo hvasst að ég nennti ekki út að dytta að húsinu. Þess í stað settist ég yfir fjárlagafrumvarp ríkisins. Þeim þar sem stjórn okkar sameiginlega fyrirtækisins boðar 41 milljarða halla á okkar sameiginlega rekstri á næsta ári. Það er reyndar áður en þingmenn kalla á kosningakaramellur. Þessi tala á því eingöngu eftir að hækka. Fer sennilega vel yfir 50 milljarða.
Ryk í augun
Til að slá ryki í augu okkar er því flaggað að þessi 41 þúsundmilljóna halli sé minni en sá 51 þúsundmilljóna halli sem boðaður var í fyrri áætlunum. Því jafnvel haldið fram að þar sé um að þakka skynsömum rekstri og aðhaldi. Þar fer fjarri. Sennilegast er að þar sé um að ræða verkefni sem ekki var ráðist í.
Ekkert hókus pókus.
Það er ekkert hókuspókus í rekstri. Hvorki í rekstri heimila né í rekstri hins opinbera. Ef þú eyðir um efni fram þá myndast skuld sem þarf að borga seinna. Tap dagsins í dag eru skuldir barna okkar. Þeir sem bera ábyrgð á rekstri -heimila og hins opinbera- ber ætíð sú skylda að haga málum þannig að ekki sé eytt um efni fram. Ef það er skuldasöfnun þá þarf að bregðast við.
Getur þú lagað risa tap af þínu heimili með að hætta við að kaupa heitan pott?
Gefum okkur að þú værir búin að reka þitt heimili með halla í langan tíma. Dytti þér í hug að stæra þig af því í rekstri þíns heimilis ef þú myndir reka það með 4,1 milljóna halla á næsta ári, bara af því að þú fórst ekki í að kaupa heitan pott eins og þú ætlaðir? Þá hefði hallinn jú orðið en meiri. Allt skynsamt fólk veit að þú situr uppi með 4,1 milljóna halla sem þú þarft einhvern tímann að greiða.
Staðreyndin er sú að ríkisreksturinn er ósjálfbær. Í stað þess að takast á við vandann halda ráðherrar glærukynningar og kynna ófjármagnaðar draumsýnir.