Göngugöng undir Löngu - Við eigum öll Vestmannaeyjar

Fram er komin hugmynd um að bora göng í gegnum neðri Kleifar í Heimakletti (Kleifaberg) og hafa þar göngugöng sem opna myndu aðgengi undir Löngu.  Hugmyndin er skemmtileg og sannarlega er þar hugsað út fyrir boxið.  Mjög eðlilega eru hinsvegar skiptar skoðanir um þetta mál enda um að ræða inngrip í hinn heilaga Heimaklett.  Um minna er nú deilt í okkar annars góða bæjarfélagi.

Sögufrægur staður

Langa er undir Heimakletti, ofan við nyrðri hafnargarðinn, stundum nefnd Stóra-Langa til aðgreiningar frá Litlu-Löngu, sem liggur vestan við Kleifnaberg. Áður fyrr var þurrt land undir berginu allt fram að Klemenseyri, og sandbrekkur, Stóra- og Litla-Langa sem náðu saman undir Kleifnabergi.  Langan er bæði fallegur, skjólsæll og sögufrægur staður á Eyjunni.  Í dag er hún einangruð nema á blússandi fjöru en forna mun hún hafa verið ein og saman hagnadi brekka (Langabrekka) og náð frá Hörgeyrargarði í austri til þess staðar sem við nú þekkjum sem Eiðið.  Sögur herma að við Hörgaeyri hafi þeir Gissur hvíti og Hjalti Skeggjason lent með kirkjuvið Ólafs Konungs árið 1000.  Þar hafi fyrsta kirkjan á Íslandi verið byggð í samræmi við þau fyrirmæli konungs að henni yrði fundin staður þar sem þeir kæmu fyrst að landi á Íslandi.

Var útivistarsvæði 

Á fyrrihluta síðustu aldar var Langan nokkuð notuð til útivistar meðal Eyjamanna, sérstaklega eftir að byggð var stálbita og timburbrú  utan í Löngunefi til að auðvelda byggingu Hörgaeyrargarðisins sem var að fullubyggður haustið 1929.  Með henni fengu Eyjamenn aðgengi að þessu skemmtilega svæði.  Undir Löngu er nokkuð skjólsælt og snýr hún móts sólu með útsýni yfir bæinn og fellin tvö, Helgafell og Eldfell.  Til viðbótar skapar það óneitanlega sérstöðu hafa tök á því að vera með baðströnd innan hafnar, eins og þarna hagar til.

Mikil tækifæri

Ekki þarf að efast um að með því að opna greiða leið undir Löngu myndu skapast skemmtileg tækifæri til útivistar og náttúruskoðunar bæði fyrir heimamenn og gesti.  Hægt væri að koma upp aðstöðu fyrir sjósund, látlausum trépöllum, stólum bekkjum og borðum.  Jafnvel mætti kanna möguleika á lítilli ylströnd enda liggur borhola með 16° heitum sjó þarna nærri.

Mikil inngrip

Á móti kemur að hvort sem um væri að ræða göng eða brú þá eru þarna óneitanlega nokkur inngrip í svæði sem í dag er nánast alveg einangrað.  Gróður og dýralíf yrðu etv.  fyrir röskun ef ekki væri mjög varlega farið.  Þá er einnig eðlilegt að Eyjamenn hafi mjög sterkar skoðanir á því ef gera á gat í gegnum okkar heilaga Heimaklett. 

Persónulegt mat

Þegar svona hagar til er úr vöndu að ráða.  Hin skipulagslega ákvörðun um þetta mál liggur hjá pólitísktkjörnum fulltrúum.  Fólki sem ekki hafði nokkrar forsendur til að gera grein fyrir afstöðu til svona mála þegar það var kjörið til starfa.  Stefnuskrár flokkanna segja ekkert um mál sem þetta.  Það er á engan hátt hefðbundið vinstri- eða hægrimál, meiri- eða minnihlutamál né nokkurs annars sem stundum mótar afstöðu.  Málið tengist ekki rekstri, fellur ekki innan fjárhagsáætlunar og hefur ekki nokkur áhrif á ársreikninga.  Málið tengist okkur bara sem Eyjamönnum.  Þegar svo er þá er ekkert rétt og ekkert rangt.  Bara ólíkt mat.

Íbúakosning

Göng undir löngu eru varanleg breyting.  Áhrifa þeirra gætir um aldur og æfi og verða vitnisburður framtíðar um það fólk sem núna býr í Vestmannaeyjum.  Um framtakssemi þess, hugdirfsku, viðhorf til náttúru eða hvers annars samhengis sem framkvæmdin verður sett í.  Í málum sem þessu kann því að vera eðlilegast að bæjarbúar ákveði sjálfir hvort veita á heimild eða ekki. Það er hægt að gera á aðgengilegan máta með einfaldri atkvæðagreiðslu meðal bæjarbúa. Ég tel að það sé einnar messu virði að skoða hvort ekki sé rétt að fara þá leið.  Við eigum öll Vestmannaeyjar.

Previous
Previous

Fyrirtæki frá Vestmannaeyjum á lista yfir framúrskarandi fyrirtæki. Með betri samgöngum fjölgar þeim

Next
Next

Heilbrigðisþjónusta í Vestmannaeyjum er ekki í samræmi við það sem faghópur ráðherra telur að þurfi