Yfirlit yfir frátafir í siglingum í Þorlákshöfn

Yfirstandandi vetur hefur verið umhleypingasamur.  Það hefur eðlilega áhrif á sálartetrið og þyngir lund. Hornin verða hvassari og tannsteinarnir harðari.  Í Vestmannaeyjum hvílir flest á samgöngum.  Undir þeim eigum við bæði árangur í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja, árangur íþróttaliða og allt þar á milli.  Allir þekkja þá erfiðu stöðu sem samgöngur um Landeyjahöfn eru og flestum er ljós sú góða þjónusta sem flugfélagið Ernir veitir okkur.  Verst af öllu er þegar ferðir Herjólfs falla með öllu niður.  Slíkt hefur í hvert einasta skipti gríðarleg áhrif á samfélagið, skaðar fyrirtækin og skerðir lífsgæði hins almenna bæjarbúa.

Margir hafa eðlilega velt vöngum yfir því hvort frátafir hafi aukist.  Ég óskaði því eftir upplýsingum þar að lútandi.  Svarið er að finna...

...í þessari töflu:

Í vetur hafa sem sagt verið felldar niður 17 ferðir.  Það lætur nærri vetrinum 2006 – 2007 en þá voru 14 ferðir felldar niður.  Síðan 2006 hafa 86 ferðir verið felldar niður.  Minnstar voru frátafirnar 2006 eða 1 ferð.  Oftast eru ferðir felldar niður í janúar og hafa 27 ferðir verið felldar niður í janúar síðan 2006.

Í umræðu um samgöngur þarf að hafa hugfast að allra leiða þarf að leita til þess að eins sjaldan og mögulegt er séu ferðir algerlega felldar niður.  Þá daga sem ekki er siglt í Landeyjahöfn verður einfaldlega að sigla í Þorlákshöfn – jafnvel þótt það kalli á umstang og fyrirhöfn.  Sjóveiki eða óþægindi fyrir farþega má ekki vera ástæða fyrir því að ferð sé felld niður.  Það er eðlilegt að vara við því að ferð geti orðið óþægileg en ferðina verður að fara.  Það eina sem réttlætir að ferðir séu felldar niður er að skipi, farmi, áhöfn og/eða farþegum stafi hætta af.  Annars þarf að sigla.  Þetta hefur rekstraraðili skipsins og áhöfn Herjólfs haft að leiðarljósi og svo mun vafalaust verða áfram. 

Eftir svona vetur er svo bara að vona að íslenska sumarið hitti á helgi – það væri frábært.

Previous
Previous

Aldrei fleiri ferðir felldar niður

Next
Next

Fullyrðingar sem ekki standast skoðun