Gef kost á mér til að leiða lista Sjálfstæðismanna í vor
Ágætu Eyjamenn
Undanfarið hef ég eytt talsverðum tíma í að líta yfir farinn veg og hugsa um framtíðina, vitandi hversu dýrmætur lærdómur það hefur verið mér að hafa gegnt þeirri stöðu sem ég hef gert nú í hartnær 12 ár.
Ég er stoltur af því verki sem unnið hefur verið á þessum árum. Ég er stoltur af því að við búum í samfélagi sem er rekið á ábyrgan hátt. Samfélagi sem hugsar vel um íbúa sína, unga sem aldna. Samfélagi þar sem sóknarfæri eru óþrjótandi og leiða er leitað til að nýta þau. Samfélagi sem gleðst saman þegar sigrar eru og sýnir samkennd þegar harmleikir eiga sér stað. Umfram allt í samfélagi með stórkostlegum íbúum sem ætíð eru tilbúnir til að leggja lykkju á leið sína fyrir samfélagið. Það traust sem mér hefur verið sýnt bæði í kosningum og í störfum mínum og sú vinátta sem ég hef fengið svo ríkulega verður mér um alla tíð afar hjartfólgin.
En ég veit líka að við búum í samfélagi þar sem stundum er tekist á. Sannarlega er margt hægt er að bæta og auðvitað má ætíð gera betur. Á sumum sviðum vildi ég að árangurinn hefði verið meiri, eða í það minnsta að breytingar hefðu verið hraðari. Sumu stjórnum við einfaldlega ekki ein og það getur sannast sagna verið hundfúlt að fá ekki að bera ábyrgð á grunnþáttum samfélags okkar. Í þeim málum hef ég eins og kostur er reynt að leggja mig fram um að niðurstaðan verði ætíð sem hagstæðust fyrir sveitarfélagið og íbúa þess.
Á síðastliðnum mánuðum hafa fjölmargir spurt mig hvort að ég muni sækjast eftir endurkjöri á næsta kjörtímabili. Eðlilega velta vinir, fjölskylda og samstarfsfólk því fyrir sér og vænt hefur mér þótt um stuðning sem ég hef fundið frá hinum almenna bæjarbúa varðandi þetta.
Lok kjörtímabils er tími uppgjöra. Þá eru verk lögð í dóm kjósenda. Eftir að hafa farið yfir málin með fjölskyldu minni, vinum og samstarfsfólki hef ég tekið ákvörðun um að láta reyna á hvort ég hafi áfram traust Eyjamanna til að vinna sveitarfélaginu gagn. Ég hef því tekið ákvörðun um að gefa kost á mér til að leiða lista Sjálfstæðismanna í kosningum í vor.
Með þetta í huga hef ég þegar sent bréf til stjórnar fulltrúarráðs Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum þar sem ég geri grein fyrir áhuga mínum á að leiða lista Sjálfstæðismanna í kosningum sem fram fara 31. maí næstkomandi. Velji fulltrúaráðið að ganga frá lista með uppstillingu mun ég óska eftir samtali þar að lútandi en verði prókjör fyrir valinu mun ég ganga til slíks óhræddur og fullur af eldmóð.
Ég þakka þeim fjölmörgu sem vikið hafa að mér hvatningu til áframhaldandi starfa á seinustu vikum og óska þess af heilum hug að leiðir okkar liggi áfram saman næstu 4 ár, Vestmannaeyjum til heilla.
Elliði Vignisson