Heilbrigðisþjónusta í Vestmannaeyjum er ekki í samræmi við það sem faghópur ráðherra telur að þurfi
Heilbrigðisþjónusta í Vestmannaeyjum er í dag langt frá því sem hægt er að sætta sig við. Sú þjónusta sem nú er í boði er meira að segja fjarri því sem faghópur skipaður af ráðherra taldi að bjóða ætti upp á. Ábygðin á þessu liggur hjá þingmönnum og ráðherra. Úrbóta er þörf og það strax.
Einróma niðurstaða að hér eigi að vera C1 fæðingarþjónusta
Það er full ástæða til að hafa miklar áhyggjur af því að enn sé ekki búið að bregðast við niðurstöðu faghóps sem ráðherra skipaði um heilbrigðismál 2013. Hópurinn sem m.a. var skipaður yfirlækni LSH og yfirljósmóður LSH komst að þeirri samhljóma niðurstöðu að vegna landfræðilegra aðstæðna þyrfti að halda uppi færni og þekkingu í fæðingarhjálp í Vestmannaeyjum. Einróma niðurstaða var að Vestmannaeyjar skuli vera C1 fæðingarstaður með bráðaaðgang að skurðstofu með svæfingalækni og skurðlækni allan sólahringinn. Svo er ekki.
Aukið álag á fæðandi mæður og skert öryggi
Á seinasta ári hafa búsettum Eyjamönnum sennilega fæðst 50 til 60 börn. Einungis 3 þessara barna fæddust í Vestmannaeyjum það er ömurleg staða. Á bak við þessar tölur er fólk sem þarf að rífa sig upp úr öryggi heimilisins og dvelja lengri eða skemmri tíma annarstaðar á þessari gleðistundu sem barneignir eiga að vera. Oft þarf hluti kjarnafjölskyldunnar að verða eftir, koma þarf börnum í pössun og fl. sem er ekki æskilegt á stundu þegar fjölskyldan þarf að vera saman. Enn er þá ótalið auka álagið sem þetta veldur verðandi foreldrum svo ekki sé nú minnst á þann beina kostnað sem við bætist. Það sem mestu skiptir er svo að öryggisstigið er ekki í samræmi við kröfur fagaðila. Það er í raun allt vont við þetta.
Skýrsla faghóps undir stól ráðherra
Þetta vissi faghópur ráðherra og því lagði hann einróma til að hér í Vestmannaeyjum yrði fæðingaþjónusta eins og verið hefur. Það getur því á engan hátt verið ásættanlegt að niðurstaða þessa starfshóps lendi undir stól ráðherra og í framhaldinu sé farið sé á skjön við niðurstöðu þessara fagaðila. Það getur ekki gengið í nútíma stjórnsýslu að yfirvöld dragi lappirnar í að bjóða uppá þessa þjónustu. Fæðingarþjónusta hefur um áratuga skeið verið öflug í Vestmannaeyjum. Jafnvel sérhæfð fæðingarþjónusta hefur verið veitt hér með góðum árangri. Þannig eru td. ekki nema 14 ár síðan við hjónin eignuðumst dóttur okkar eftir keisaraskurð hér á spítalanum í Vestmannaeyjum.
Sjúkraflug einnig skert
Til að gera vont verra þá er staðreyndin sú að á sama tíma og skurðstofuvakt er ekki til staðar, hefur viðbragðstími sjúkraflugs lengst þar sem að það er gert út frá Akureyri en ekki Vestmannaeyjum líkt og áður. Höfuðið af skömminni er svo af bitið með þeirri staðreynd að yfirvöld í Reykjavík leggja sig fram við að skerða þjónustu við landsbyggðina með þvi að gera tilraun til lokunar á flugbraut sem minnkar enn frekar öryggi fólks sem þarf á bráðaþjónustu að halda á Landsspítalanum.
Ábygðin er þingmanna
Ég vil því enn og aftur taka undir með einróma áskorun bæjarstjórnar Vestmannaeyja og skora á þingmenn suðurlands til að beyta sér fyrir því að heilbrigðisráðherra og heilbrigðisyfirvöld vinni eftir einróma áliti faghóps um heilbrigðismál og tryggi fæðingarþjónustu í Vestmannaeyjum sem C1 fæðingarstaður með bráðaaðgang að skurðstofu með svæfingalækni og skurðlækni allan sólahringinn. Heilbrigðismál í Vestmannaeyjum eiga ekki að standa og falla með geðþóttaákvörðunum einstakra ráðherra.
Það er kjörinna þingmanna að fylgja þessu eftir.