Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja - Er lausn á vandanum?

Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja er ein mikilvægasta þjónustustofnun ríkisins í Vestmannaeyjum.  Hún fellur í hóp með framhaldsskóla, samgöngum og sýslumannsembætti.  Enn eitt árið megum við Eyjamenn nú glíma við rekstrarvanda þessarar stofnunar sem er jú ekkert annað en spegilmynd af heildarvanda ríkisins.  Tekjur duga ekki fyrir rekstri.  Okkar skylda er að...

...gera allt sem við getum til að verja þessa mikilvægu þjónustu.

Samstarf við ráðherra

Á seinustu dögum hef ég verið í góðu samstarfi við ráðherra heilbrigðismála Kristján Þór Júlíusson.  Hann er núna í þeirri erfiðu stöðu að þurfa að hagræða í rekstri þar sem endar ná ekki saman og á því hef ég skilning.  Á sama hátt geri ég þá skýru og ófrávíkjanlegu kröfu að heilbrigðisþjónusta okkar Eyjamanna verði varin og þá ekki síst sá hluti sem snýr að inngripum eða aðkomu sérhæfðrar þjónustu svo sem vegna slysa, bráðra sjúkdóma og fæðinga. 

Lausnarmiðuð nálgun – velferðarstofnun Vestmannaeyja
Á þessum grunni er nú stefnt að því að mynda samstarfshóp sem fær það hlutverk að fara lausnamiðað yfir stöðuna og leggja í framhaldi fram tillögur sem leiða til eflingar grunnheilbrigðisþjónustu og tryggi sem best öryggi okkar Eyjamanna.  Ég hef varpað fram þeirri hugmynd að kannað verði til þrautar hvort að hægt sé að sameina alla velferðaþjónustu í Vestmannaeyjum í eina stofnun og ná þannig hagræðingu sem varið getur þjónustu. 

Heildstæð þjónusta við fólk
Í þessu felst sú von að yfirferð og tillögur samstarfshóps muni leiða til aukinnar hagkvæmni í rekstri.  Auk þess tel ég að núverandi fyrirkomulag taki mið af aðstæðum sem ekki eru lengur fyrir hendi.  Í dag er velferðaþjónusta orðin víðtækari en áður og ekki þjónustuþegum í hag að kljúfa þá þjónustu of mikið niður.  Í öllum vandamálum eru fólgin tækifæri.  Því þarf að snúa þessu vandamáli í verkefni og nýta þá þröngu stöðu sem nú er uppi til að fá fram sérsniðna og skýra stefnumörkun með tilliti til hlutverks og samhæfingar velferðaþjónustu í Vestmannaeyjum. 

Ekki lokað á neinar lausnir
Enn hefur ekki verið neitt ákveðið en sannarlega hef ég rætt við ráðherra um að Vestmannaeyjabær taki þennan mikilvæga þjónustuþátt yfir.  Það kann enda ekki góðri lukku að stýra að loka á hugsanlegar lausnir.  Það er hinsvegar aukaatriði hver veitir þjónustuna.  Aðalatriðið er að verja hana.  Um það erum sjálfsagt flestir sammála.

Ræður Vestmannaeyjabær við þennan rekstur
Vestmannaeyjabær er á hverjum venjulegum degi með um 250 til 300 manns í vinnu.  Veltan á ári er um 4 milljarðar.  Á seinustu árum hefur allra leiða verið leitað til að straumlínulaga rekstur og lágmarka kostnað við hámarksþjónustu.   Fjárveitingar til Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja voru í fyrra 664 milljónir.   Í skýrslu Velferðaráðuneytisins frá 2012 segir að stofnunin sé lítil, með 15 sjúkrarými og 7 hjúkrunarrými.  Það sem gerir reksturinn hinsvegar umfangsmikinn er okkar landfræðilega lega sem kallar m.a. á starfsemi skurðstofu og stoðþjónustu þar að lútandi.  Til samanburðar er Vestmannaeyjabær með um 27 hjúkrunarrými undir sínum hatti á Hraunbúðum auk dvalarrýma. 

Ríkið er ábyrgt fyrir þessari þjónustu

Öllum er ljóst að ríkið er ábyrgt fyrir heilbrigðisþjónustu , ekki sveitarfélögin.  Það er nú samt svo hér í Vestmannaeyjum að gerð er skýr krafa á að bæjaryfirvöld séu allt um lykjandi í opinberri þjónustu.  Það er sama hvort að það eru samgöngumál, heilbrigðisþjónusta eða annað.  Eyjamenn vilja að bæjaryfirvöld tryggi að þessir hlutir séu í lagi.  Sjálfur hef ég bara tekið þessu fagnandi og er óhræddur við að taka þetta skrefi lengra.  Það er hinsvegar óþolandi að lenda í þeirri stöðu að bæjaryfirvöld séu gerð ábyrg án þess að ráða í raun nokkru um framvindu eins og dæmið er til að mynda hvað samgöngurnar varðar.  Ef við eigum að bera ábyrgð og tryggja þessa þjónustu er langtum eðlilegra að við sjáum þá um þetta.  Hvað heilbrigðisþjónustu varðar þá finnst mér það óviðunandi að ár eftir ár skulum við heyja sömu baráttuna og á meðan bara dregst þjónustan saman.  Við skulum einnig hafa það hugfast að þótt þjónustuþegarnir skipti mestu þá er það er algerlega óþolandi fyrir okkar góða starfsfólk á Heilbrigðisstofnunni að vera í stöðugri óvissu með vinnuna sína.  Þessu verður að linna.

Og hver er þá lausnin
Því miður á ég enga töfralausn um hvað skuli gera þegar fjármagn dugar ekki til að standa undir þjónustu.  Í þau bráðum 8 ár sem ég hef verið bæjarstjóri hefur mér fundist best að vera óhrædd við að hugsa út fyrir boxið og gera breytingar og reyna ætíð að veita sem mesta þjónustu með sem minnstum tilkostnaði.  Það var umdeilt þegar við sameinuðum svið fræðslumála og félagsmála.  Bæjarfélagið lék á reiðiskjálfi þegar við sameinuðum skólana tvo og aldursskiptum þeim.  Það var umdeilt þegar við lögðum niður stöðu leikskólafulltrúa, íþrótta- og æskulýðsfulltrúa, hafnarstjóra, forstöðumanns í safnahúsi og margt fleira.  Það hefur hinsvegar skilað tugum milljóna í hagræðingu sem fer beint í þjónustu.  Vonir mínar standa til að með því að nálgast málið á þann máta sem ráðherra hefur nú hug á að gera verði hægt að finna leiðir til að verja þjónustuna og tryggja framtíðarrekstur þessarar mikilvægu þjónustu.

Ef að hægt er að tala um einhverja töfralausn þá nefni ég samstöðu Eyjamanna.  Í málum sem þessum verðum við að standa saman í vörn fyrir Vestmannaeyjar.  Annars næst ekki árangur.

Previous
Previous

Slökkvilið Vestmannaeyja 100 ára

Next
Next

Stenst ekki skoðun!