Stenst ekki skoðun!

Áhugafólki um flutning Reykjavíkurflugvallar úr Vatnsmýri er tíðrætt um hagfelld áhrif breytinganna fyrir íbúa höfuðborgarinnar og er þá jafnan vísað í verðmæti byggingarlands sem myndi losna við brotthvarf flugstarfseminnar. Á hinn bóginn er sá kostnaðarauki sem falla myndi á íbúa landsbyggðarinnar sjaldnast tekinn með í reikninginn. Nú nýverið létu sex sveitarfélög á landsbyggðinni...

...framkvæma ítarlega úttekt á þeim afleiðingum sem flutningur miðstöðvar innanlandsflugs, úr Vatnsmýrinni kæmi til með að hafa í för með sér fyrir íbúa landsbyggðarinnar. 

Árlegur ferðakostnaður myndi aukast um 6 til 7 milljarða
Í stuttu máli benda niðurstöðurnar til þess að árlegur ferðakostnaður þeirra sem sækja þurfa þjónustu til höfuðborgasvæðisins muni aukast um 6 – 7 miljarða króna. Af því má ráða að uppsafnaður kostnaðarauki muni á aðeins fáeinum árum vega upp á móti hagnaði sem kynni að hljótast af nýtingu Vatnsmýrarinnar og gott betur.

Þar við bætast 738 milljónir
Við mat á kostnaði verður að taka tillit til fjölda þátta, m.a. lengri ferðatíma, aukins aksturs og fleiri glataðra vinnustunda. Það gefur auga leið að ferðatími flugfarþega muni að minnsta kosti lengjast um sem nemur aksturstíma frá Keflavíkurflugvelli og til höfðuborgarinnar með tilheyrandi kostnaði. Beinn viðbótarkostnaður flugfarþega vegna þessa er áætlaður 738 milljónir króna á ári.

Ekki undir 7 milljörðum sem lagðar verða á landsbyggðina
Þegar teknar eru saman tapaðar vinnustundir og beinn ferðakostnaður þeirra sem kjósa að aka alla leið í stað þess að fljúga, má gera ráð fyrir að aukinn kostnaður sem fellur á farþega verði á bilinu 5,2 til 6,2 milljarðar króna. Samanlögð áhrif þess að flytja miðstöð innanlandsflugs til Keflavíkur verður því allt að 7 milljarða aukinn kostnaður fyrir farþega á hverju ári.

Er eðlilegt að þjappa allri þjónustu til Reykjavíkur og láta þá svo loka á aðgengið?
Lang stærstur hluti farþega í innanlandsflugi er búsettur á landsbyggðinni og sækir ýmsa nauðsynlega þjónustu til Reykjavíkur, svo sem heilbrigðisþjónstu eða þjónustu stjórnsýslustofnana sem staðsettar eru í höfuðstaðnum. Er sanngjarnt að ætla íbúum landsbyggðarinnar að taka á sig aukinn ferðakostnað vegna þjónustu sem ekki er valkvæð? Þetta er samviskuspurning sem hver og einn ætti að reyna að svara fyrir sig.

Enn þungbærari rök
En í þessu sambandi vakna fleiri spurningar og þungvægari. Árið 2011 voru yfir 500 sjúklingar fluttir með sjúkraflugi til aðhlynningar í Reykjavík. Kostnaður við þessa sjúkraflutninga mun vitaskuld aukast eftir því sem leiðin að sjúkrahúsi lengist. Í ríflega helmingi tilfella er talin þörf á því að læknir fylgi sjúklingi þar til hann kemst í  hendur annars læknis. Læknirinn mun svo þurfa að fara til baka sömu leið, en á meðan getur hann ekki sinnt veikum í héraði.

Líf og dauði
Allt verður þetta þó léttvægt í samanburði ef haft er í huga að á hverju ári koma upp tilfelli þar sem aðeins örfáar mínutur skilja á milli þess hvort sjúklingur lifir eða deyr. Með því að lengja leiðina á tæknivætt sjúkrahús um tæpa klukkustund er stórlega vegið að öryggi landsmanna. Þetta getur verið spurning um líf og dauða.

Sanngirni, öryggi og hagkvæmni

Það kann að vera akkur í því fyrir höfuðborgarbúa að nýta Vatnsmýrina á annan hátt en nú er gert. Sá akkur er hinsvegar eingöngu séður í gegnum nálarauga borgarinnar.   Flutningur miðstöðvar innanlandsflugs vekur alvarlegar spurningar sem snúa bæði að sanngirni, öryggi og hagkvæmni. Breytingunni mun fylgja stóraukinn kostnaður fyrir þjóðarbúið. Byrðin mun hins vegar að mestu lenda á þeim sem þurfa að sækja þjónustu til Reykjavíkur og eiga ekki annarra kosta völ. Aðgengi að nauðsynlegri þjónustu, svo sem heilbrigðisþjónustu, þrengist og öryggi borgaranna jafnvel teflt í tvísýnu.

Höfuðborg allra Íslendinga
Ef málið er skoðað í víðu samhengi með hagsmuni allra landsmanna í huga, má ljóst vera að hugmyndin um að flytja miðstöð innanlandsflugs stenst ekki skoðun, hvorki á efnahagslegum forsendum né frá sanngirnissjónarmiði.  Trú mín er sú að borgaryfirvöld komi til með að sýna það í verki að Reykjavík hefur metnað til að vera höfuðborg allra Íslendinga og meta hagsmuni í samræmi við það.

(unnið úr grein sem ég birti ásamt kollegum í Morgunblaðinu)

Previous
Previous

Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja - Er lausn á vandanum?

Next
Next

Meint vinstrislagsíða á fjölmiðlum og í skemmtanaiðnaðnum