Hjartsláttur Ölfus, Hamingjan við hafið tekur yfir bæinn.
Núna um komandi helgi mun bæjarhátíðin „Hamingjan við hafið“ sem hófst á þriðjudaginn ná hámarki. Þessi einstaka hátíð hefur á undanförnum árum orðið órjúfanlegur hluti af menningu og samfélagi Ölfuss. Hún er ekki aðeins hátíð heldur sameiningartákn, þar sem íbúar, gestir og fjölskyldur koma saman til að fagna, njóta og styrkja tengsl sín við staðinn og hvert annað.
Bæjarhátíðin „Hamingjan við hafið“ skapar tækifæri fyrir okkur, sem íbúa, og samfélag, til að sýna það besta sem við höfum upp á að bjóða; hamingju, samstöðu, dugnað og virðingu. Hér fáum við líka tækifæri til að vekja athygli á okkar einstöku staðsetningu við hafið og samspili samveru, náttúru og menningararfs.
Dagskráin í ár er afar metnaðarfull. Gleðin hófst á þriðjudaginn þegar leikhópurinn Lotta hélt leiksýningu, á miðvikudaginn var svo sundlaugarpartý og í gær var m.a. Harmonikkuball á 9-unni og hljómsveitaæfing [lesist: stórtónleikar] í garðinum hjá Robba Dan og Guðlaugu.
Gleði og stemming gærdagsina sést ágætlega í þessu myndbandi:
Núna inn í helgina er bætt hressilega í, skrúðganga, kvöldvaka í skrúðgarðinum (Emilía Hugrún, KK, Hr. Hnetusmjör, Væb) og svo ball með Babies í hátíðartjaldnu. Á laugardag er svo m.a. dagskrá fyrir börn og ungmenni í Skrúðgarðinum (söngvakeppni barna, íþróttaálfurinn, Emmsjé Gauti og fl.). Um kvöldið nær hátíðin svo hámarki með stórtónleikum (GDRN, Jón Jónsson, Sigga og Grétar og Aron Can) og flugeldasýningu og Hamingjuballinu (Matti Matt, Helgi Björns, Unnur Birna og fl.).
„Hamingjan við hafið“ er ekki aðeins viðburður á dagatalinu – hún er spegilmynd af Ölfusi sjálfu: opnu, hlýlegu og kraftmiklu samfélagi við sjávarsíðuna. Fyrir ungt fólk og fjölskyldur verður hún oft til marks um að hér er gott að búa – hér ríkir lífsgleði og framtíðarsýn.
Við sem störfum að málefnum samfélagsins erum staðráðin í að hlúa að þessari hátíð og gera hana að ómissandi hluta af framtíð Ölfuss, í áframhaldandi samstarfi við íbúa, félagasamtök og fyrirtæki.
Góða skemmtun.