Höfuðborgarsvæðið fær 58 milljarða skattaívilnun á næsta ári

Íslensk stjórnvöld hafa hagað sínum málum þannig að stjórnsýslan hefur verið byggð upp í Reykjavík. Megnið af þeim rúmlega 5000 milljörðum sem ríkið hefur í tekjur er notað þar.

Fyrst þurfti að skemm ímynd sjávarútvegsfyrirtækja og nú er hægt að skattleggja
Nú kreppir að. Stjórnvöld sem ráða ekki við vandann fara þá leið að auka skattheimtu í stað þess að hvetja til aukinnar fjárfestingar í atvinnulífinu og fjölgun starfa. Illu heilli er það... 

...enn og aftur landsbyggðin sem greiða skal þyngstu byrðarnar.  Eftir ótrúlega herferð hefur Íslendingum (sem í fyrra fluttu út sjávarafurðir fyrir rúmar 220 milljarða í erlendum gjaldeyri) verið talin trú um að þeir hafi ekki arð af auðlindinni.  Þau ginningarkaup á ímynd skulu nú nýtt til að skattleggja sjávarútveginn og þar með landsbyggðina í drep. Fyrst þurfti að níða greinina niður og þá fyrst er hægt að skattleggja hana án þess að hún geti hönd fyrir höfuð sé borið.

Atvinnulífið í Eyjum greiðir um 1240 milljónum meira í skatt en atvinnulífið á höfuðborgarsvæðinu
Með auknum skatti á atvinnulíf okkar Eyjamanna verður okkur gert að greiða 1240 milljónir í sértækan skatt af því að við veiðum fisk en seljum ekki skó eða stundum verðbréfaviðskipti.  Þetta greiðum við í viðbót við allan þann skatt sem við greiðum til jafns á við aðra.  Þetta samsvarar því að hver Eyjamaður skuli nú greiða tæpar 300 þúsund krónur á næsta ári í sértækan landsbyggðarskatt.  Hver íbúi í Reykjavík greiðir um 9600 krónur í þennnan skatt.  Munurinn er 290.400.

Ívilnun um 58 milljarða fyrir atvinnulífið í Reykjavík
Ef við heimfærum þetta á höfuðborgarsvæðið þá lætur nærri að fyrirtæki á því svæði þyrftu að greiða rúmlega 58 milljarða í viðbót við þá skatta sem þeir greiða í dag.  Með öðrum orðum þá er atvinnulífið á höfuðborgarsvæðinu með um 58 milljarða skattívilnun samanborið við atvinnulífið í Vestmannaeyjum.

Nýlendustefna

Þetta er nýlendustefna sem ekki má láta viðgangast.  Sé þetta hluti af hinu sanngjarna samfélagi þá er ekki laust við að manni detti í hug orð Kiljans „Vont er þeirra ránglæti, en verra þeirra réttlæti“. 

(þótt hér séu Vestmannaeyjar notaðar sem viðmið þá á hið sama við um önnur bæjarfélög víðast hvar um landið.  Þannig greiðir hver íbúi á Rifi 1.3 milljón í þennan landsbyggðarskatt, hver íbúi á Grenivík 758 þúsund, hver íbúi á Skagaströnd 393 þúsund en hver íbúi í Reykjavík greiðir um 9600 krónur.  Sanngjarnt?)

Previous
Previous

Eyjamenn eru vinnusamir og hafa nú tækifæri til að vinna mikið

Next
Next

Hvort er mikilvægara skógrækt eða heilbrigðissþjónusta, tré eða veikt fólk?