Hvernig meðhöndlum við flóttafólk?
Þótt Ísland sé Eyja þá er landið ekki eyland þegar kemur að málefnum hælisleitenda og útlendingamála. Á seinustu árum höfum við séð umtalsverða fjölgun hælisleitenda. Alls voru hælisleitendur 117 árið 2012 (77 karlar, 19 konur og 21 barn). Sennilega eru um 200 hælisleitendur í landinu núna. Málaflokkurinn kostar í heild um 600 milljónir á ári og þar af eru um 330 milljónir beint á liðnum „Hælisleitendur“. Fjölgun hælisleitenda hefur orðið til þess...
...að mikilvægt var að ráðast í gagngera endurskoðun á verkferlum þar að lútandi. Hanna Birna Kristjánsdóttir hafði þor til að ráðast í aðgerðir í málaflokknum. Það kann þó að hafa komið í bakið á henni.
Grettistaki lyft á skömmum tíma
Frá árinu 2012 hefur fjöldi hælisleitenda [leiðrétt hér stóð áður innflytjenda] verið vaxandi verkefni. Svo reyndar mjög að með rökum má tala um það sem „vandamál“. Kerfið, eins og það var byggt upp, réði ekki við þennan mikla fjölda. Afgreiðsla og úrvinnsla mála tók of langan tíma. Mannúðlega var þetta illa gert. Kostnaðarlega var þetta illa gert.
Umsóknir um hæli á Íslandi og samþykkt leyfi. Heimild: Nordic Statistics 2013.
Fyrir hinn venjulega Íslending eins og mig er heimur flóttafólks og hælisleitanda framandi. Ferlið eftir að til lands er komið er í stuttu máli svona. Einstaklingur gefur sig fram við lögreglu og óskar eftir pólitísku hæli hér á landi. Hann er þá tekinn í skýrslutöku af lögreglu og síðar af Útlendingastofnun (ÚTL) sem tekur málið hans til meðferðar. Þar í framhaldi er honum er skipaður talsmaður (lögmaður) og sá kostnaður er alfarið greiddur af Íslenskaríkinu.
Ef ÚTL samþykkir umsóknina er ferlinu lokið. Ef ÚTL hafnar umsókninni er hægt að kæra þann úrskurð til innanríkisráðuneytisins (IRR), sem annað hvort staðfestir úrskurð ÚTL eða snýr honum við. Það er síðan hægt að kæra ákvörðun IRR til dómstóla ef menn vilja, en það er nú ekki alltaf gert.
Talsmaðurinn/lögmaðurinn hefur af verkinu nokkra vinnu. Hann fær greitt fyrir bæði kærustig, 5 klst. á fyrra kærustigi og 20 klst. á seinna stigi. Hver fullorðinn hælisleitandi kostar ríkið hátt í þrjár milljónir króna á ári í heild (til að vera nákvæmur þá er þetta sennilega rúmar 2,8 m.kr.). Málaflokkurinn er í heild að kosta ríkissjóð um 600 m.kr. á ári. Þá er meðtalið kostnaður lögmanna, fæði, uppihald og þjónusta.
Ekki er óeðlilegt að það komi mörgum hér í landi á óvart að fólk sem kemur úr stórum borgum vilji setjast að hér á Íslandi þar sem íbúar eru fáir, veðurfar og menning framandi og fjarlægðin frá samlöndum mikil. Í því samhengi er rétt að hafa hugfast að margir af þeim sem hafa óskað eftir hæli voru hreinlega ekkert á leiðinni til Íslands heldur eru þeir að reyna að komast á fölsuðum skilríkjum til Kanada eða Bandaríkjanna, eru gripnir hér og óska þá eftir hæli. Síðan eru líka margir sem koma frá Norðurlöndunum (aðallega Noregi) eftir að hafa fengið synjun þar. Þeim er í flestum tilvikum vísað til baka á grundvelli Dyflinarreglugerðarinnar. (http://www.utl.is/index.php?option=com_content&view=article&id=92&Itemid=94&lang=is)
Margt lagast á stuttum tíma
Hanna Birna Krisjánsdóttir hefur frá fyrsta degi horft mjög til þessara mála. Hún átti til að mynda fund með Grete Faremo, þáv. dómsmálaraðherra Noregs og norsku útlendingastofnuninni í ágúst í fyrra til að fara yfir þessi mál og læra af reynslu Norðmanna. (http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/08/15/raeddu_malefni_utlendinga/)
Öllum mátti snemma ljóst vera að Hanna Birna myndi láta til sín taka hvað þessi mál varðar. Ábyrgðin á vandanum var enda hennar og ástandið í málaflokknum ekki viðunandi. Alþingi samþykkti frumvarp hennar um breytingar á útlendingamálum fyrir lok þingsins í vor (http://www.althingi.is/altext/143/s/0457.html). Í frumvarpinu var m.a. gert ráð fyrir skipan á sjálfstæðri úrskurðanefnd – sem endurskoðar ákvarðanir ÚTL í stað ráðuneytisins. Það er til marks um þá pólitík sem Hanna Birna stendur fyrir -að hafa vilja til að taka pólitíkina út úr afgreiðslu mála- enda á pólitíkin bara að leggja almennu línuna. Það hefur líka verið gagnrýnt (meðal annars af Flóttamannastofnun SÞ) að IRR endurskoði ákvarðanir ÚTL, þar sem ráðuneytið getur ekki talist óháður og óhlutdrægur aðili. Með frumvarpinu var ma. verið að mæta þeirri réttmætu gagnrýni. Úrskurðanefndin tekur til starfa um næstu áramót. Öll hin Norðurlöndin eru með sjálfstæða úrskurðarnefnd eða úrskurðardómstól vegna mála er varða komu, dvöl eða hælisumsókn útlendinga.
Hanna Birna Kristjánsdóttir hefur með sínu fólki einnig fylgt dyggilega eftir átaki sem hófst í byrjun árs 2013, sem felur í sér að hraða úrvinnslu mála. Nú er verið að klára mál sem hafa verið til meðferðar hjá stjórnvöldum í 2-3 ár (sem er auðvitað alltof langur tími). Að láta fólk bíða svo lengi er bæði ómannúðlegt og kostnaðarsamt.
Um miðjan júní gerði ráðherra samning við Rauða krossinn á Íslandi sem kemur til framkvæmda í næstu viku (25. ágúst). RK mun þar eftir gæta hagsmuna hælisleitenda, þeir eru búnir að ráða lögfræðinga til að sinna talsmannaþjónustu, meta reglulega aðbúnað hælisleitenda, sinna heimsóknarþjónustu, félagsstarfi og halda úti alþjóðlegri leitarþjónustu til þess að hafa uppi á týndum ættingjum og endurvekja samband innan fjölskyldna þegar slíkt er mögulegt.
Eftir að samningurinn tekur gildi er gert ráð fyrir að málsmeðferðartími taki að meðaltali ekki lengur en 90 daga (á hvoru stjórnsýslustigi) í stað tveggja til þriggja ára. Stefnt er að því að stytta þann tíma enn frekar, t.d. niður í 60 daga.
Með aukinni sérfræðiþekkingu innan málaflokksins, bæði hjá Rauða krossinum og stjórnvöldum, verða verkferlar skýrari og hægt verður að afgreiða mál með skjótari og skilvirkari hætti án þess að það komi niður á gæðum málanna.
Þá hefur líka verið skipuð þverpólitísk þingmannanefnd, undir forystu Óttars Proppé, til að framkvæmda heildarendurskoðun á útlendingalögum. Sú vinna gengur vel og það má búast við frumvarpi jafnvel fyrir áramót. (http://www.ruv.is/frett/malsmedferd-haelisleitenda-stytt-i-90-daga)
Loks hefur ríkisstjórnin samþykkt að taka á móti kvótaflóttafólki frá Sýrlandi (http://www.innanrikisraduneyti.is/frettir/nr/28940). Ákvörðun Hönnu Birnu var að Ísland legði höfuð áherslu á að taka á móti svokölluð „medical cases“, eða fólk sem hefur særst í stríðsátökum eða glímir við alvarleg veikindi. Það er líka stefnt að því að taka við fleira kvótaflóttafólki, enda má segja að það sé fólkið sem þarf hvað mest á hjálp að halda, sé það sem er fast í flóttamannabúðum og kemst hvergi (oftast konur og börn).
Ýmislegt er enn eftir
Það sem vantar, en unnið hefur verið að, er að búa til einhvers konar móttökumiðstöð fyrir þá sem óska eftir hæli. Þar þarf að fara fram samvinna ýmissa aðila, s.s. ÚTL, lögreglu, félagssamtaka, barnaverndaryfirvalda, félagsþjónustu og heilbrigðisyfirvalda.
Í raun ætti þetta að vera þannig að þegar einstaklingur óskar eftir hæli geta heilbrigðisyfirvöld skoðað viðkomandi strax, t.d. til að sjá hvort viðkomandi hafi sætt pyntingum, athuga hvort að konur hafi orðið fyrir ofbeldi svo sem umskurði o.s.frv. [viðbót: af gefnu tilefni er rétt að geta þess að slík skoðun á konum væri af sjálfsögðu gerð til þess að veita fórnarlömbum slíkrar limlestingar aukna aðstoð. Svo ótúrlegt sem það er þá virðist sumt fólk vilja gera mér upp þá skoðun að með þessu sé ég að leggja til aukið ofbeldi á fórnarlömbum þessara hræðilegu limlestinga].
Lögreglan gæti líka skoðað um leið hvort viðkomandi sé sá sem hann eða hún segist vera, hvort að viðkomandi sé með dóm á bakinu o.s.frv. Það má ekkert horfa framhjá því að margir nýta sér þetta kerfi eða þessa stöðu í annarlegum tilgangi, t.d. einstaklingar sem eru að flýja réttvísina úr eigin landi (og eru jafnvel taldir hættulegir glæpamenn), auk þess sem menn, konur og börn eru seld í mansali í gegnum flóttamannakerfin. Þessi málaflokkur er ekki bara stór og kostnaðarfrekur. Hann fjallar einnig um afar viðkvæm mál. Innan hans mengis rúmast margt af því ljótasta sem viðgengst í heiminum í dag. Þess vegna þurfa verkferlar og vera einfaldir, almennir og vandaðir.
Niðurstaða
Hanna Birna Kristjánsdóttir hefur látið til sín taka í málefnum innflytjenda á margvíslegan máta. Enn á hún eftir að halda í sömu átt. Það er sárt að fylgjast með jákvæðri mótun hennar á málaflokknum og þurfa svo að horfa á pólitískakrossfestingu hennar vegna stormviðris í kringum það að fjölmiðlar hafi komist á snoður um upplýsingar sem tengjast Tony Omos. Staðreyndin er sú að málefni innflytjenda eru vandamál. Enn sér hvergi fyrir endann á þeim vanda. Á árinu 2013 voru fleiri vegalausir innan eða utan eigin landamæra en nokkru sinni síðan seinni heimsstyrjöldinni lauk. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna telur að um ríflega 51,2 milljónir manna séu á flótta og hafði þeim fjölgað um sex milljónir frá árinu á undan. Ég hef þá von og trú að Hanna Birna ljúki því verki sem hún var byrjuð á.