Jón og ambisjón - Afhverju hræðast stjórnmálamenn að ræða framlög til menningamála?

Í morgun ræddu þær Lóa Pind og Jóhanna Vigdís fréttir vikunnar í þættinum „Ísland í bítið“.  Þar komu þær meðal annars inn á orð mín um að í því árferði sem nú ríkir þurfi að hagræða betur í þágu grunnþjónustu.  Þótt ég hafi kappkostað að horfa til sem flestra liða í rekstri ríkisins (svo sem umhverfismála, utanríkisþjónustu, styrki til stjórnmálaflokka og landbúnaðarstyrkja) þá var eingöngu horft til...

...þeirrar spurningar minnar um það hvort að við höfum efni á að reka menningarmál á þeim forsendum sem við nú gerum.  Hvort við sem 320.000 manna þjóð höfum fé til að leggja rúmlega 900 milljónir til Sinfóníuhljómsveitar, 700 milljónir til þjóðleikhúss, 600 milljónir í listamannalaun og áfram má telja.

Viðkvæmt málefni
Eftir umræður vikunnar veltir maður því óneitanlega fyrir sér hvers vegna vangaveltur mínar um kostnað ríkisins vegna menninga og lista sé svona mikið heitari og viðkvæmari umræða en nánast allir aðrir þættir í ríkisrekstri.  Svo viðkvæmt er málefnið að engu er líkara en stjórnmálamenn forðist umræðuna.  Ætli það sé ástæða til?

Amisjónir
Lóa Pind sagði orðrétt:

Það eiginlega sló mig dálítið að hann [Elliði] skyldi vera að viðra svona skoðanir, maður sem ég reikna með að hafi „ambisjónir“ í landspólitík“

Hvað fellst í þessum orðum þessarar virtu fjölmiðlakonu.  Ég efast ekki um að fjölmiðlakona sem stýrir þætti undir heitinu „Stóru málin“ þekkir hvað það er sem skiptir máli ef fólk ætlar að komast af í stjórnmálum í Íslandi í dag.  Hverjum þarf að halda góðum og hvar nær er að beita hinum breiðu spjótum.

Ambisjónarnir og boðorðið
Það skyldi engin halda að ég sé með þessu að hnýta í Lóu Pind fyrir að hafa orð á þessu.  Hún er hin ágætasta fjölmiðlakona.  Ágætis greinandi og fundvís á púlsinn.  Það slær mann hins vegar að fá þarna innsýn í hugarheim sem maður þekkir ekki.  Hugarheim þeirra sem hafa „ambisjónir“ í landspólitík.  Hugarheim ambisjónanna.  Fyrsta boðorð þeirra virðist sannarlega vera „Þér skulið ekki hafa skoðun á því hvernig farið er með fé skattborgara þegar kemur að menningu og listum“. 

Rasskelltir apar
Staðreyndin er enda sú að fátt fer verr með ambisjónanna en átök við listamenn.  Aðkoma Jóns Gnarr að borgarmálum sýndi það svo ekki varð um villst.  Sannast sagna held ég að eftir hans yfirreið yfir hið pólitíska svið hugsi ambisjónarnir sig tvisvar um áður en þeir þora að gagnrýna.  Sá lét þá finna til tevatnsins.  Stundum fór svo að andstæðingar hans litu út eins og rasskelltir apar ef þeir fóru of bratt að honum.  Fólk sem á allt sitt undir atkvæðaveiðum kærir sig lítt um slíkt.  Verða svo skotspónn Spaugstofunnar, fá um sig samda limru af Hallgrími Helgasyni eða heyra að nýjasti gjörningur Sjón sé beint gegn sér.   Það vilja ambisjónarnir ekki.

Munurinn á Jóni og ambisjóni
Þá er nú gott að vera bara stór fiskur í lítilli laug.  Geta haft sínar skoðanir og spurt þeirra spurninga sem maður vill.  Lagt á borðið að hlutirnir séu á ákveðinn  máta og velt því upp hvort að við viljum hafa þá þannig áfram.  Það er nú sennilega munurinn á því að vera Jón og ambisjón.

Beturvitrarnir
Mig langar að enda þennan pistil á orðum til þeirra sam lagt hafa mér orð í munn.  Þeirra sem hafa haldið því fram að ég skilji ekki gildi menningar og telji Ísland eingöngu eiga að vera verstöð.  Þeirra sem halda því fram að ég vilji leggja niður alla styrki til menningarmála og mála torgin rauð með blóði listamanna.  Til allra þeirra fjölmörgu sem valið hafa að hnjóða í Vestmannaeyjar vegna minna skoðanna.  Þeirra sem telja sig vitrari og betri en aðra menn.  Án þess að ég eigi nokkuð sameiginlegt með meistara Þórbergi né geri orð hans að mínum þá tel ég hann í þessari tilvittnun tala til þessa fólks:  

 „Flestir eru sælir í þeirri leyndu hugsun, að þeir séu vitrari og betri en aðrir menn. Það kalla þeir fágaða siðmenningu. Ég kalla það siðmenningu varanna. Þótt ég tali margt um ágæti verka minna, hefi ég alltaf skoðað mig aumasta smælingjann meðal hinna smæstu, mesta heimskingjann meðal hinna heimsku, versta syndarann meðal hinna breysku. Það kalla ég siðmenningu hjartans.“ Þórbergur Þórðarson , Bréf til Láru

Previous
Previous

Vonbrigði á sunnudagsmorgni

Next
Next

Við sem þjóð erum að greiða 52.104 krónum minna í fæðingaraðstoð en í niðurgreiðslu á hverja mjólkurkú. Samt á að skerða fæðingaþjónustu á landsbyggðinni.