Vonbrigði á sunnudagsmorgni
Ég kom því í verk seint í gær að horfa á þátt Gísla Marteins „sunnudagsmorgun“. Þar kenndi eins og endranær ýmissa grasa. Umræðan er nánast eins og stuttur facebookþráður. Ekki ætlast til að efnið sem spannað er sé nema í samræmi við þetta form. Knöpp umgjörð þar sem leitað er eftir kjarnanum án mikils hismis. Heilt yfir er niðurstaðan léttleikandi þáttur þar sem málin eru rædd á þann knappa máta sem einkennir samtímann. Í gær varð ég hinsvegar fyrir vonbrigðum með...
...þann viðmælanda sem ég bar mestar væntingar til
Í sjálfhverfu minni hafði ég nokkurn áhuga á viðtali við Benedikt Erlingsson listamann sem kominn var til að ræða menningarpólitík. Efni sem ég hef mikinn áhuga á og hef reynt að taka þátt í að ræða á málefnalegan máta.
Nakinn keisari
Ég hef lengi haft nokkrar mætur á Benedikti. Fundist hann hafa ákveðna dýpt sem mér hefur þótt heillandi. Vissi svo sem vel að við værum fullkomlega ósammála þegar kemur að stjórnmálum. Hann til vinstri og ég til hægri. Það hefur aldrei truflað mig í mati á fólki og þess vegna hlakkaði ég til að hlusta á hann og gaumgæfa skoðanir hans. Vonir stóðu jafnvel til þess að ég gæti nýtt mér hugsanir hans til að þróa og bæta mínar eigin. Til að gæta sanngirni verður að viðurkennast að mér þótti margt ágætt í tali hans. Hvernig hann lýsti mikilvægi menningar og áherslu á ákveðið jafnvægi í umræðu. Um flest slíkt var ég honum sammála. Menning er okkur nauðsynleg, um það þarf ekki að efast. Annað varð hinsvegar til að minna á nakinn keisara spígspora um eigin hugmyndakerfi, þess fullviss að lýðurinn væri jafn uppnuminn af skoðanamúnderingunni og hann sjálfur. Það urðu mér vonbrigði.
Ritskoðun listamanna á RÚV
Eins og ég átti von á varði Benedikt fjárframlög til lista og þar með talið til reksturs RÚV. Meðal sterkra raka sem hann setti fram var að þar færi fram gagnrýnin umræða. Djúp umfjöllun þar sem tekið væri á samfélagsmeinum og mál rædd og reifuð í þeim tilgangi að þróa umræðuna. Snerta á sem flestum flötum. Síðan allt í einu skipti hann um gír og lýsti undrun sinni á því að ég (og þar með skoðanir mínar) fengju "plattform" í þætti Gísla. Þar með stóð Benedikt -illu heilli- eftir sem berskjaldaður hagsmunatengdur aðili sem vill nýta RÚV sér og sínum til framdráttar. Þeir sem hafa andstæða skoðun hafa ekkert þangað að gera og nánast tímasóun að vera að ræða slíkt. Um leið var maður minntur á þær 600 milljónir sem varið er í listamannalaun. Allt í einu sat ekki þessi djúptþenkjandi brekka í stólnum heldur maður sem hefur meðal annars afkomu af ríkisstyrkjum til kvikmyndagerðar (kvikmyndasjóður) sem koma til með að nema 625 milljónum á næsta ári. Maður sem ef til vill finnur það á eigin buddu ef framlögin til Þjóðleikhússins lækka. Mig satt að segja langaði meira að hlusta á hann án þess að hann væri að minna mig á þessar hliðar.
Listamaður með 5.bekkjar húmor
Við ýmis tækifæri hef ég bent á þá leið sem listamenn fara í vörn sinni. Að nota háð og spott um ummælendur. Að gera lítið úr persónum, útliti þeirra eða öðru, í stað þess að ræða málefnin. Það þykir mér ætíð lítilmannlegt og þá sérstaklega ef viðkomandi eru ekki á staðnum til að svara fyrir sig. Benedikt er góður húmoristi. Ég sem unnandi margs af því sem hann hefur gert átti því von á að hann myndi þá að minnsta kosti hafa þá dýpt til að bera að þegar hann beitti þessari klassísku hæðni þá yrði það vel gert. En nei takk. Hann notaði uppnefni um mig sem ég heyrði síðast í 5. bekk barnaskóla þar sem snúið var út úr nafni mínu. Reyndar dugði það til að vekja aðhlátur þáttastjórnandans og þannig að til einhvers var unnið hjá listamanninum.
Framlög til lista réttlæt með tilvísun í skattafslátt til sjómanna sem búið er að afnema
Listamaðurinn fór einng víða í leita að réttlætingu fyrir óbreyttum og jafnvel auknum framlögum til menninga og lista. Eitt af þeim hálmstráum sem seilst var eftir var tilvísun í skattafslátt til sjómanna sem dvelja, eins og alþjóð þekkir, oft langdvölum frá fjölskyldum sínum. Það hefur sjálfsagt farið framhjá listamanningum að það er búið að afnema þennan skattafslátt og kemur slíkt til framkvæmda nú strax á nýju ári. Sú ákvörðun virðist hafa farið framhjá bæði listamanninum og þáttastjórnandanum enda var ekki boðað til funda í Háskólabíó né slíkt rætt ítarlega í fréttaskýringum.
Öflugur maður sem getur betur
Eftir sem áður verður Benedikt í ákveðnu uppáhaldi hjá mér. Djúpthugsandi listamaður, góður leikari og án efa ein bjartasta von okkar Íslendinga í leikstjórn. Næst nær hann ef til vill að ræða mál í samræmi við það. Hver veit. Ég held að minnsta kosti að það yrði betra fyrir þann málstað sem hann er að reyna að verja.