Við sem þjóð erum að greiða 52.104 krónum minna í fæðingaraðstoð en í niðurgreiðslu á hverja mjólkurkú. Samt á að skerða fæðingaþjónustu á landsbyggðinni.
Þegar rætt er um ríkisstyrki til menninga- og lista verður að öllu jöfnu hávær umræða. Ef rætt er um að forgangsraða í þágu grunnþjónustu svo sem heilbrigðisþjónustu, samgangna, menntunar og löggæslu er því þar með slegið upp að hætta skuli öllum styrkjum til menninga og lista. Öll umræða er í ökla eða eyra. Til að verja listina (sem göfgar jú andann) þykir sjálfsagt að...
...hjóla í persónur þeirra sem draga vilja úr styrkjunum, veitast að heimabyggðum þeirra og jafnvel að ráðast með hæðni á fjölskyldur þeirra.
Eftir stendur sú staðreynd að þó nokkurt opinbert fé er nýtt til að niðurgreiða menningu. Fé sem ég og margir aðrir vildu að hluta til nýta til grunnþjónustu.
Við græðum svo mikið á menningunni
Ég gef afskaplega lítið fyrir þau rök að við græðum svo mikið á menningunni að það þurfi að niðurgreiða hana. Menning og listir eru hverri þjóð mikilvæg. Þar er að finna svör við ákveðnum þáttum í mannlegum eðli sem ekki verða sóttir annað. Samt sem áður á ég erfitt með að sætta mig við að konur fái ekki fæðingaþjónustu á þeim tímum sem ríkið greiðir listamönnum 605,3 milljónir í listamannalaun.
Í hvert skipti sem hjón fara á tónleika hjá Sinfóníunni þá nemur niðurgreiðsla á aðgengi þeirra 32.000 krónum
Fátt er okkur hollara en vönduð tónlist. Við eigum að gera eins vel og við getum til að styðja við bakið á því listformi eins og öðrum. Á tímum þar sem löggæsla dugar ekki til að viðhalda öryggi borgara þykir mér samt rangt að niðurgreiða hvern miða í Sinfóníuna um 16.000 krónur (57.000 gestir og bein framlög til reksturs 930 milljónir). Starfsmannahald hjá þessari ágætu stofnun er athyglisvert. Þar eru 9 starfsmenn fyrir utan rúma 80 hljóðfæraleikara. Rekstur upp á 1160 milljónir. Ef þessir 52 þús gestir sem komu á tónleika í fyrra borga 1000 kr. meira á tónleika er búið að dekka helminginn af rekstrarhalla Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja. Það kostar 8-12 þús kr. á tónleika með Bjögga Halldórs. Af hverju má ekki kosta meira á tónleika Sinfóníuhljómsveitar?
Við niðurgreiðum hverja mjólkurkú meira en hverja barnsfæðingu
Það er þó ekki bara í menningu- og listum sem gæti þurft að hagræða. Þegar ég var barn og fór í sveitina með afa var mér innprentað að virða landbúnað. Það hef ég meðvitað og ómeðvitað gert síðan. Landbúnaður á Íslandi er hinsvegar kostnaðarfrekur á opinbert fé og óvíst að hann sé svo hagkvæmur sem við þurfum á að halda. Á tímum sem nú þarf að fara yfir þessi mál. Höldum því til haga að niðurgreiðslur til mjólkurframleiðslu á landinu eru ráðgerð 6465 milljónir á næsta ári. Á íslandi eru 25.711 mjókurkýr (2011). Ef við ofureinföldum málið og gefum okkur að þessi styrkur sé eingöngu til að standa undir mjókurkúm þá er hver kú niðurgreidd um 251.449 krónur. Árið 2004 kostaði hver barnsfæðing hér á landi 108.000 krónur. Á verðlagi dagsins í dag (meðalvísitala 2004/2013) lætur nærri að kostnaðurinn við hverja fæðingu sé 199.345 krónur. Það merkir að við sem þjóð verjum minna til stuðnings við fæðingar en stuðning við mjólkurkýr. Samt skal nú dregið saman í fæðingaþjónustu.
Hvort eigum við að leggja meiri áherslu á menntun leikara eða hjúkrunarfræðinga?
Menntakerfið á Íslandi stendur á krossgötum og þá ekki síst sá hluti sem snýr að framhaldsmenntun. Kerfið er of dýrt og því skal sameina stofnanir og reyna að draga úr kostnaði á bak við hvern háskólanema. Ekki skal lítið gert úr því að háskólanám er kostnaðarfrekt. Allt nám er þjóðinni mikilvægt. Í stöðu sem nú þarf því að horfa í kostnað á bak við hvern nemanda og vega og meta hvar skal skorið niður. Það er óábyrgt að líta ekki til þess að hver nemandi í leiklist kostar 3.2 milljónir á meðan hver hjúkrunarfræði nemi kostar 977 þúsund. Hver nemandi í hestafræðum kostar 1,6 milljón á meðan hver nemandi í tölvufræði kostar um 780 þúsund.
Dæmin eru mörg
Svona má endalaust nefna dæmi. Rekstur Náttúrufræðistofnunar Íslands kostar í dag 624 milljónir, utanríkisþjónusta tekur til sín 9072 milljónir, styrkir til stjórnmálaflokka 262 milljónir, greiðslur til sauðfjárframleiðslu 4791 milljón, skógrækt 678,5 milljónir.
Það er því ljóst að svigrúm fjármálaráðherra, þingmanna, ríkisstjórnar og allra þeirra sem um þessi mál véla er nokkurt. Hvort þeir þora er svo annað.