Krafan er að við sitjum við sama borð

Í morgunblaðinu í dag er að finna ágætis úttekt á samgönguvanda okkar Eyjamanna.  Þar er ma. að finna við tal við mig og Hrein Haraldsson Vegamálastjóra.

Viðtaið við mig er svo hljóðandi:...

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, segir að staðan í Vestmannaeyjum sé nú svipuð og þegar Múlakvísl tók brúna þar yfir í sundur í sumar. Samgöngur eftir þjóðveginum milli lands og Eyja frá Landeyjahöfn séu rofnar. Þegar þjóðvegurinn hafi rofnað í sumar hafi vegfarendur þurft að fara lengri og erfiðari leið, um Fjallabaksveg, og nú þurfi Eyjamenn að sigla lengri og erfiðari leið, til Þorlákshafnar. Samgönguyfirvöld hafi brugðist skjótt við í sumar og Eyjamenn krefjist þess að þeir sitji við sama borð. 

Skipið helsta vandamálið

Siglingar Herjólfs milli Landeyjahafnar og Eyja hafa vægast sagt gengið illa. Meðan Herjólfur var í slipp í Danmörku var Breiðafjarðarferjan Baldur fengin í staðinn og þá gekk mun betur. „Vandamálið í kringum þessa siglingu er fyrst og fremst skipið,“ segir Elliði. Hann leggur áherslu á að Herjólfur, sem sé um 2.000 tonn, sé mjög óhentugur til siglinga í Landeyjahöfn, bæði í höfninni og fyrir framan hana. Kjölurinn sé tiltölulega flatur, sérstaklega við skutinn, sem geri það að verkum að stjórnhæfni hans sé verulega skert, þegar aldan komi á aftanvert hornið. Baldur sé um 600 tonn og með skipslegri skrokk. Djúprista Herjólfs sé um 5 metrar en Baldurs rúmlega 3 metrar. Hægt sé að nota Baldur í allt að 3,5 m ölduhæð í Landeyjahöfn enfari ölduhæð yfir 2,5 m sé ekki hægt að nota Herjólf. Frátafir á skipi eins og Baldri séu innan við 10% á ári en erfiðustu fimm mánuði ársins séu frátafir Herjólfs 20-40%. „Það þýðir að í fimm mánuði á ári þurfum við að fara Fjallabaksleið syðri, til Þorlákshafnar,“ segir hann. Elliði áréttar að ekki hvarfli að Eyjamönnum að bæta samgöngur til Vestmannaeyja á kostnað annarra á landsbyggðinni. Tveir kostir séu í stöðunni. Annars vegar að fundið verði annað skip erlendis sem svipi til Baldurs eða annað skip sem geti komið í stað Baldurs á Breiðafirði og Baldur sigli þá milli Landeyjahafnar og Eyja. 

Aukinn kostnaður 225 milljónir og 15% hækkun

Mun dýrara er að sigla Herjólfi til Þorlákshafnar en Baldri til Landeyjahafnar. „Það munar um milljón til einni og  álfri milljón á dag,“ segir Elliði. Miðað við fimm mánuði getur munurinn því verið um 225 milljónir. Það muni um minna og því sé mikilvægt að skoða málið af alvöru. „Við höfum engan tíma til að bíða. Þetta þarf að gerast hratt.“ Vegna stöðunnar ríkir hálfgert neyðarástand í Eyjum. Elliði bendir á að menn hafi lagt í miklar fjárfestingar og samfélagið hafi lagað sig að nýjum samgöngum. „Þegar þjóðvegurinn rofnar notar Vegagerðin tækifærið og hækkar gjaldskrána á okkur um 15%. Ferjusiglingar milli lands og Eyja er þjóðvegurinn milli lands og Eyja. Það kostar Íslendinga ekkert að nota þjóðvegakerfið nema þegar siglt er til Vestmannaeyja.“ Í þessu sambandi áréttar Elliði að ekkert kosti að fara um Héðinsfjarðargöng, sem hafi kostað um 14,2 milljarða, og Bolungarvíkurgöng, sem hafi kostað um 6,5 milljarða. Hann minnir á að samgöngurnar séu á hendi Vegagerðarinnar og krafa Eyjamanna sé að farið verði í að kanna möguleika á nýju skipi. Rekstur sanddæluskips í Landeyjahöfn hefur kostað sitt en Elliði segir að líkja  megi því við snjómokstur. Snjóruðningstæki haldi þjóðvegi númer 1 opnum á veturna og sá kostnaður falli ekki á vegfarendur. 

Tvöfalt fleiri um Landeyjahöfn

Landeyjahöfn hefur skipt sköpum fyrir ferðaþjónustu í Eyjum. Elliði segir að síðasta heila árið sem Herjólfur hafi siglt til Þorlákshafnar hafi um 127 þúsund manns ferðast með skipinu milli lands og Eyja, en í ár stefni í að fjöldinn verði um 270 þúsund. „Þetta er gríðarleg breyting fyrir samfélagið í Vestmannaeyjum,“ segir hann. „Það er algjör skylda samgönguyfirvalda að tryggja að þjóðveginum milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja sé haldið opnum svo að við þurfum ekki að fara Fjallabaksleið syðri.“ 

Previous
Previous

Grynnst hefur við höfnina en þó er dýpið nægjanlegt fyrir ferju sambærilega Baldri að stærð og djúpristu

Next
Next

Nú er manni öllum lokið - Vegagerðin boðar gjaldskrárhækkun í Herjólf í stað þess að takast á við þann bráðavanda sem við nú eigum við að glíma þegar þjóðvegurinn er í sund