Nú er manni öllum lokið - Vegagerðin boðar gjaldskrárhækkun í Herjólf í stað þess að takast á við þann bráðavanda sem við nú eigum við að glíma þegar þjóðvegurinn er í sund

Nú fyrir skömmu lauk fundi í bæjarráði.  Meðal þess sem var til umfjöllunar var svohljóðandi tölvupóstur frá Vegagerðinni:

Bæjarráð Vestmannaeyja,

Það tilkynnist hér með að Vegagerðin mun hækka gjaldskrár Herjólfs um 15%  1. nóvember nk.  Hækkunin er í samræmi við kostnaðarhækkanir reksturs frá júlí 2010.

Afgreiðsla okkar var svohljóðandi...

Bæjarráð leggst alfarið gegn fyrirhugaðri 15% hækkun á gjaldskrá Herjólfs og hvetur Vegagerðina til að leggja höfuð áherslu á að sinna skyldu sinni hvað varðar að tryggja viðunandi þjónustu í siglingum milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar. 

Bæjarráð minnir á að skv. upplýsingum frá Vegagerð Íslands er heildarkostnaður við Héðinsfjarðagöng 14,2 milljarðar. Það kostar hinsvegar notendur ekkert að fara þar um. Heildar kostnaður við Bolungarvíkurgöng verða sennilega um 6,5 milljarðar. Það kostar heldur ekkert að fara þar um. Kostnaðurinn við Hvalfjarðargöng var 4,6 milljarðar árið 1996 (uppreikaðnur kostnaður eru tugir milljarða). Það kostar fjögurramanna fjölskyldu 1000 kr. að fara þar um. Kostnaður við Landeyjahöfn er innan við 4 milljarðar. Kostnaður fjögramannafjölskyldu (tveir fullorðnir, einn unglingur og eitt barn) við að fara með sinn einkabíl þessa tæpu 13 kílómetra er hinsvegar 4100 kr. þegar fullt gjald er greitt. Ekki þarf að minna á að engin önnur leið er fyrir bíla milli lands og Eyja.

Bæjarráð vill einnig nota þetta tækifæri til að minna Vegagerðina á að þjóðvegurinn milli lands og Eyja er um þessar mundir rofin og staðan því svipuð því þegar brúin Múlakvísl fór í sundur í sumar.  Eftirtekt og snaggaraleg vinnubrgöð Vegagerðarinnar í tengslum við þá stöðu eru landsmönnum öllum í fersku minni enda vakti það aðdáun hversu hratt og örugglega var komið í veg fyrir að ferðalangar þurftu að keyra lengri og erfiðari leið um Fjallabak. Ráðherra ákvað þá tafarlaust að allt sem í mannleguvaldi stóð yrði gert til að koma eðlilegum samgöngunum á sem fyrst. Á meðan var boðið upp á ferðir fyrir farþega yfir Múlakvísl með rútum og bifreiðar fluttar með sérútbúnum tækjum notendum að kostnaðarlausu. Bæjarráð Vestmannaeyja á bágt með skilja hvers vegna slíku er ekki fyrir að fara nú þegar þjóðvegurinn til Vestmannaeyja rofin.

Previous
Previous

Krafan er að við sitjum við sama borð

Next
Next

Tíðindi kvöldsins eru tilhugalíf ríkisstjórnarflokkanna og Hreyfingarinnar