Lögin svo gömul að Svandís þarf ekki að fara eftir þeim!!!

Röksemdafærsla VG í vörn fyrir Svandísi Svavarsdóttur er fráleit. Reyndar svo mjög að velta má því fyrir sér hvort að sú framganga -jafnvel óháð lögbrotunum sjálfum- dugi til stjórnarslita.

Í umræðunni hefur helst verið gripið til þeirrar varnar að lög um hvalveiðar séu svo gömul að hún hafi í raun ekki þurft að horfa til þeirra. Þess vegna hafi verið rétt hjá henni að taka ákvörðun útfrá dýravelferð, þvert á gildandi lög. (hér má td. heyra Orra Pál, þingflokksformann VG halda þessu fram: Sprengi­sandur: Staða Svan­dísar, orkumálin og sendiherrabústaður - Vísir (visir.is)).

Þessu er umboðsmaður alþingis eðlilega ósammála. Hann telur í áliti sínu að mikilvæg lög hafi verið brotin , reglugerðin ekki átt stoð í lögum, samræmist ekki stjórnskipunarrétti um vernd atvinnuréttinda og atvinnufrelsis, samræmist ekki kröfu um meðalhóf, og fl. (Skjal_24010509460 (stjornarradid.is))


Óneitanlega veltir maður því þá fyrir sér hvort það sé almennt viðhorf VG til laga að óþarfi sé að fara eftir lögum sem komin eru til ára sinna ef þau falla ekki að pólitískri afstöðu þeirra, sérstaklega ef lögin eru ekki ný. Því fer fjarri að lög um hvalveiðar séu elstu lögin í lagasafni okkar. Þess eru jafvel dæmi að lagasafnið geymi tilvísanir í lög frá 1281.

Sé vörn VG varðandi lögbrot Svandísar Svavarsdóttur tekin góð og gild þá þarf til dæmis að horfa til þess að eftirfarandi lög verða væntanlega léttvæg fundin:

Hegningarlögin – 1940

Landskiptalög - 1941

Stjórnarskráin – 1944

Lög um menntun kennara - 1947

Innleiðing sáttmála sameinuðu þjóðanna - 1946

Lög um hvalveiðar – 1949

 

Ef til vill er þó frekar ástæða til að sjá þessa vörn VG sem aumt yfirklór yfir þá staðreynd að Svandís Svavarsdóttir valdi vísvitandi að brjóta lög þar sem þau samræmdust ekki pólitískri afstöðu hennar. Allt annað er aumt yfirklór.

Þetta sama gerði hún 2010 sem umhverfisráðherra þegar hún neitaði að staðfesta skipulag um Urriðafossvirkjun (Dómur (haestirettur.is)) og 2021 þegar reglugerð hennar um skylduvistun á sóttkvíarhóteli var úrskurðuð ólögmæt. (sjá td. Dómur (heradsdomstolar.is)).


Í stóra samhenginu er eðlilegt að deilt sé um það hvort hvalveiðar séu næg ástæða til að sprengja ríkisstjórn. Sú afstaða samstarfsflokks að hann þurfi ekki að fara að lögum er þó ef til vill ríkari ástæða til að ljúka samstarfi eða í öllu falli að huga vandlega að því hvort að slíkur flokkur hafi of mikið vægi innan samstarfsins.

Previous
Previous

Enn fjölgum við íbúðarhúsnæði - sérstaklega vandað til við hönnun og útlit.

Next
Next

Stefnt að byggingu nýrrar hafnar við græna iðngarða í Ölfusi.