Lægsta álagningarhlutfall utan höfðuborgarsvæðisins er í Ölfusi.
Í nýrri skýrslu Byggðastofnunar segir á bls. 38: „Lægsta álagningarhlutfall fasteignaskatts utan höfuðborgarsvæðisins er í Ölfusi 0,220%“.
Hvergi utan höfuðborgarsvæðisins er lægra álagningarhlutfall fasteignaskatts.
Fátt skiptir meira máli fyrir íbúa en að gjöld sveitarfélagsins séu sanngjörn og helst að þeim sé hagað þannig að þau séu sem lægst. Með þetta að leiðarljósi hefur bæjarstjórn Ölfus stöðugt unnið að því að haga sínum rekstri þannig svigrúm sé til að lækka fasteignagjöld og auka þannig kaupmátt fjölskyldna.
Árið 2018 voru fasteignagjöld 0,38% í Ölfusi. Núna eru þau 0,22%. Þau hafa því verið lækkuð um 42% á þessum stutta tíma.
Álagning fasteignagjalda hefur lækkað um 42% síðan 2018.
Það er áhugavert að bera fasteignagjöld í Þorlákshöfn saman við nokkra aðra þéttbýlisstaði á Suðurlandi, ekki hvað síst þegar horft er til allra þeirra gjalda sem mynda heildarfasteignagjöld. Þegar það er gert kemur í ljós að heildarfasteignagjöld í Þorlákshöfn eru þau lægstu þessara sveitarfélaga. (Reyndar held ég að sambærileg staða sé á Hellu en ég hafði þau gögn ekki við höndina.)
Talsverðu munar á fasteignagjöldum milli matssvæða.
Þess ber að geta að í þessum samanburði er notast við svokallaða viðmiðunareignin sem er einbýlishús sem er 161,1 m2 að grunnfleti og 476 m3 . Stærð lóðar er 808 m2 . Síðan er reiknað út hver gjöldin á viðkomandi eign væru miðað við ólík matssvæði. Innan sveitarfélaga geta verið ólík matssvæði eins og til dæmis hvað varðar Selfoss, Eyrarbakka og Stokkseyri.
Skattar og gjöld hins opinbera á íbúa eru stærstu útgjaldaliðir hverrar fjölskyldu. Þess vegna skiptir alla máli að hófs sé gætt. Lægri skattar og gjöld gera það að verkum að hver fjölskylda hefur meira á milli handanna til að skapa sín lífsgæði. Bara sú ákvörðun bæjarstjórnar í Ölfusi að lækka fasteignarálagninguna úr 0,38% í 0,22% hefur haft þau áhrif að fjölskyldur í Þorlákshöfn hafa núna rúmlega 109 milljónir meira af sínu sjálfsaflafé en annars væri.