Núgilding – að dæma fortíðina með gildum samtímans

Ítrekað gerist það að fólk eða atburðir í fortíðinni séu dæmdir út frá gildum samtímans. Upp á útlenskuna kallast slík „Presentism“. Hér kýs ég að kalla þetta „núgildingu“. Illu heilli er núgilding að verða plagsiður í íslenskum stjórnmálum. Nýjasta dæmið er umræða um fráfarandi barnamálaráðherra.

Fortíð barnamálaráðherra er nú metin á forsendum núgildingar.

 Núgilding felur í sér þá tilhneigingu að meta atburði og hegðun í fortíðinni út frá siðferðilegum, félagslegum eða menningarlegum viðmiðum nútímans. Þetta getur leitt til þess að fólk dæmir einstaklinga eða samfélög í sögunni harðlega fyrir gjörðir sem þó voru taldar eðlilegar á sínum tíma eða í það minnsta ekki fordæmt af samfélaginu. Með því er hætta á að við missum sjónar á félagslegu samhengi og dæmum hegðun sem þó var í samræmi við tíðarandann á þeim tíma.

Það getur verið erfitt fyrir fólk að setja sig í þær félagslegu aðstæður sem réðu fyrir áratugum eða öldum. Í þeirri stöðu er hætt við núgildingu.

Dæmi um núgildingu

Erlendis er algengt að kjörnir fulltrúar eða frambjóðendur hafi þurft að útskýra eða biðjast afsökunar á ummælum sem þeir létu falla fyrir árum eða áratugum. Í sumum tilvikum voru þessar skoðanir endurspeglun á ríkjandi viðhorfum samfélagsins á þeim tíma, en eru nú taldar óásættanlegar. Þannig er þekkt þegar Joe Biden baðst afsökunar á samstarfi við aðskilnaðarsinna í öldungadeildinni á áttunda áratugnum.

Stjórnmálamenn eru oft settir í þá stöðu að biðjast afsökunar á orðum eða gjörðum sem voru fullkomalega innan félagslegra viðmiða í því samhengi sem atburðurinn gerðist í.

Í fersku minni er einnig þegar Ralph Northam ríkisstjóri í Virginíu baðst afsökunar því að hafa komið klæddur sem Ku Klux Klan meðlimur á grímuball með orðunum: „"Ég biðst einlæglega afsökunar á þeirri ákvörðun og fyrir þann sársauka sem sú ákvörðun olli þá og nú." Sem sagt: Afsakið að ég hafi áður verið hluti af tíðaranda fortíðarinnar sem þá var samtíminn.

Hér á Íslandi hefur stjórnmálafólk ekki farið varhluta af þessu. Þannig hefur Þorgerði Katrínu verið ítrekað velt upp úr ummælum sínum fyrir hrun, þar sem hún lýsti yfir trausti á íslenska bankakerfið. Í því samhengi baðst hún afsökunar á opnum borgarafundi í Háskólabíói í nóvember 2008. Þar skipti svo sem litlu að tíðarandinn fyrri hrun var almennt sá hinn sami og enduspegglaðist í orðum Þorgerðar.  Nýlega sagði svo Þórður Snær Júlíusson sig frá þingmennsku vegna gamallar og óviðeignadi bloggfærslu og lengi má áfram telja.

 

Mál barnamálaráðherra

Nýjasta dæmið um núgildingu er umfjöllun um þá staðreynd að barnamálaráðherra eignaðist fyrir áratugum barn með barni. Hún þá 22 ára og hann 16 ára. Hér verður slíku ekki mælt bót en á það þó bent að núgilding þessara atburða getur leitt til ósanngjarnrar dómhörku og mistúlkunar á því samhengi sem liggur til grundvallar atburðunum. Sjálfur var ég unglingur og ungur maður á þessum tíma. Eins og jafnaldrar mínir veit ég því sem er að hið félagslega viðmið þegar kom að samskiptum kynja var allt annað þá en nú. Það á ekki hvað síst við um viðhorfið til aldursmunar og í raun og veru til þess hvenær þótti við hæfi að nálgast börn sem fullorðin væru.

Í samtíma umræðu um slík mál er mikilvægt að greina á milli þess að réttlæta fortíðarverk og skilja þau – markmiðið er ekki að verja, heldur að varpa ljósi á samhengi og skýra hvers vegna ákveðnir atburðir eða hegðun átti sér stað.

 

 Persónulegt mál

Málefni barnamálaráðherra er persónulegt og sá hluti á ekki endilega erindi á hvers manns tungu þótt eðlilegt sé að málið sé rætt og reifað. Ég hef verið mjög gagnrýnin á framgöngu ráðherrans í ýmsum málum, ekki hvað síst fordæmalausa aðkomu hennar að kjarasamningum og orðum um dómstóla. Ég tel ríkisstjórn betur skipaða eftir brotthvarf hennar. Það breytir því ekki að mér þykir umræða um þessa fjölskyldusögu og núgilding umræðunnar ósanngjörn. Ég held að fólk þurfi að fara varlega í alla dóma og gæta að núgildingu. Að sama skapi þarf að muna eftir þeirri mannlegu hlið í þessu máli að fráfarandi barnamálaráðherra var á þessum tíma ung einstæð móðir og viðbrögð hennar gagnvart barnsföður þarf að skilja í því ljósi. Aðgát skal höfð í nærveru sálar.

 Tímarnir breytast og mennirnir með

Núgilding dregur úr getu okkar til að skilja hvernig samfélög þróast. Hún getur einnig gert lítið úr möguleika fólks á að vaxa, breytast og taka ábyrgð. Ef við heimtum fullkomleika frá fyrri tíma – þegar samfélagið sjálft var ófullkomið – endum við í viðhorfi sem útilokar mannlega reynslu og þróun. Ef við höfum ekki svigrúm til að læra og breytast, hver er þá tilgangurinn með þroska?

 

Fylgt úr hlaði

Hitt svo annað, og í mínum huga mögulega alvarlegra. Hvernig var þessum málum hagað í  forsætisráðuneytinu? Láku aðstoðarmenn trúnaðarupplýsingum? Sýndi forsætisráðherra tómlæti í málinu þar til það komst í hámæli í fjölmiðlum?

Next
Next

Viðbrögð lítils samfélags við harmleik