Litbrigði náttúrunar, samkynhneigð og sálfræðilegar vangaveltur
Í hádeginu fór fram afar áhugaverð framsaga undir heitinu litbrigði regnbogans þar sem Sólveig Rós fræðslufulltrúi Samtakanna ´78 fjallaði um fjölbreytileika í samfélaginu og þá ekki síst með tilliti til samkynhneigðar.
Ég hef um langa hríð haft mikinn og einlægan áhuga á réttindamálum samkynhneigðra. Bæði ræður þar að fólk mér nákomið hefur komið úr skápnum og blessunarlega valið að lifa lífi sínu eins og þau eru frekar en hvernig aðrir vildu að þau væru. Þar við bættist að þegar ég stundaði mastersnám í sálfræði við Kaupmannahafnarháskóla deildum við hjónin íbúð með hommum sem fljótt urðu okkar bestu vinir og í gegnum þá kynntumst við „litbrigðum regnbogans“ sem einnig varð til þess að ég fékk enn aukinn áhuga á því hversu erfitt sálfræðin hefur átt með útskýringar á þessum fjölbreytileika í mennlegu eðli.
Sálfræðin hefur átt í vandræðum rétt eins og trúin
Flestum er kunnug sú vandræðasaga sem verið hefur viðloðandi trúarkenningar gagnvart samkynhneigð sem leitt hefur hörmungar yfir fjölda sem er stærri en að maður þekkir. Nú er það þó svo að trúvísindin eru ekki eina vísindagreinin, sem komið hefur ranglega og af vanþekkingu fram við þennan minnihlutahóp, sem við í daglegu tali köllum homma og lesbíur. Ein af þeim vísindagreinum, sem svipað er statt fyrir, er sú grein er undirritaður varði hátt í áratug í að læra, sálfræðin.
Ekki vegna mannvonsku heldur vanþekkingar
Rétt er að ítreka, að eins og innan trúvísindinna þá hefur afstaða sálfræðinnar í gegnum tíðina grundvallast af þeim gögnum og þeim hugmyndafræðilega grunni sem greinin hvílir á, en ekki af mannvonsku eða geðþóttaákvörðunum. Á seinustu tugum ára hafa samkynhneigðir hlotið verulega uppreisn æru innan sálfræðinnar rétt eins og innan lögfræðinnar, trúfræðinnar og fleiri greina.
Allt fram að áttunda áratugnum flokkaði greiningarkerfi það er sálfræðin styðst við (Diagnostic and statistical manual of mental illnesses, skammstafað DSM) samkynhneigð með meiriháttar klínískum truflunum (röskunum), svo sem geðklofa. Þetta þýddi að kapp var lagt á að bera sem fyrst kennsl á röskunina og breyta henni með öllum tiltækum ráðum, þótt oftast hefðist ekki árangur sem erfiði.
Við endurskoðun DSM 1980 var hins vegar horfið frá þessu viðhorfi og ekki lengur litið á samkynhneigð sem sjúklegt ástand á neinn hátt. Þess í stað var farið að líta á samkynhneigð meira sem lífsstíl sem réðist af hneigðum, jafngildan lífsstíl gagnkynhneigðra.
Af hverju
Eins og gefur að skilja þá hafa hugmyndir um hvað það er sem veldur því að einstaklingar hneigjast að sama kyni (verða samkynhneigðir) breyst samfara almennum breyttum hugsunarhætti um samkynhneigð. Lengi vel var sú hugmynd ríkjandi að einstaklingar lærðu slíkt athæfi eða að bernskusamband þeirra við foreldra hafi á einhvern hátt ekki verið ákjósanlegt. Sú leið til skýringa virkaði skammt. Margt annað hefur verið reynt og margt án árangurs.
Ráðgáta
Eins og með svo margt innan vísindanna eru menn enn ekki á eitt sáttir hvað varðar hugmyndir um orsakir samkynhneigðar. Það virðist þó ríkja nokkur eining um það að grunnurinn að samkynhneigð sé lagður mjög snemma, sumir vilja jafnvel leita að grunninum á meðgöngunni. Einnig berast stöðugt sterkari vísbendingar úr rannsóknum sem benda til að hér sé um erfðaþátt að ræða, en enn sem komið er eru þessar rannsóknir ekki það langt komnar að þær taki af vafa. Hið eina sem virðist óhætt að fullyrða er að ekki sé hægt að læra samkynhneigð, svo sem á unglingsárum, en þá kemur hún –eins og kynhneigð almennt- hins vegar oftast í ljós.
Samkynheigð sem betur fer ekki lengur sjúkdæmisvædd
I dag er svo komið að innan sálfræðinnar telst samkynhneigð sem slík ekki vera á neinn hátt sjúklegt ástand nema í þeim örfáu tilfellum þar sem viðkomandi einstaklingur elur með sér þá ósk að verða gagnkynhneigður og jafnvel í þeim tilfellum er yfirleitt lögð ríkari áhersla á að fá einstaklinginn til að líta á sig og kynhneigð sína jákvæðari augum en ekki að breyta kynhneigðinni.
Staðan er samt en ekki nægilega sterk
Þrátt fyrir þessar tiltölulega hröðu breytingar sem undanfarið hafa orðið á viðhorfum vísindanna til samkynhneigðra, þá er staða þeirra í þjóðfélaginu enn langt frá því að vera viðunandi.
Vissulega hefur orðið bragarbót á, en enn lifir andúðin og hatrið í garð þessara einstaklinga og enn dafna hindurvitnin og fordómarnir. Viðhorf svo sem þau að: hommar séu kynlífsfíklar, hommar girnist helst gangkynhneigða og reyni að "snúa þeim", lesbíur séu síður fallnar til móðurhlutverks, hommar misnoti börn, lesbíur langi að vera karlmenn, að fólk verði sjálft samkynhneigt ef það umgengst samkynhneigða og svo framvegis, eru á engan hátt studdar rannsóknum heldur hrein hindurvitni sem ekki eru í tengslum við raunveruleikann. Á sama máta eru tilfinningar og hugarheimur samkynhneigðra nánast markvisst fjarlægðir úr menningarvitund stórs parts heimsins. Við sjáum jú ekki samkynhneigða í teiknimyndum, heyrum sjaldnast af lesbískum fegurðardrottningum og enn man ég ekki eftir því að hommi væri í framboði til foseta.
Vandinn er ekki samkynhneigðin heldur viðhorfið
Í raun og veru þá benda allflestar rannsóknir til þess að helsta vandamál þessa hóps sé einmitt viðhorf samfélagsins, sú angist og kvöl sem því fylgir að vera álitinn sjúkur og afbrigðilegur af því þjóðfélagi sem einstaklingur lifir í. Veruleikinn er sá að samkynhneigðir eru nákvæmlega eins og annað fólk ef frá er skilin sú staðreynd að þeir hneigjast til elskhuga af sama kyni.
Hversu margir væru grænir og hvar í samfélaginu eru þau.
Andstætt þeirri vinsælu staðalmynd sem fólk hefur í huga af samkynhneigðum þá þekkist þetta fólk yfirleitt ekki úr og er á engan hátt öðruvísi í hátterni en heildin. Ef almættinu myndi nú detta í hug að láta alla þá sem hafa haft reynslu af samkynhneigðu kynlífi vakna græna á lit einn daginn, kæmi það sennilega mörgum okkar á óvart hversu stór hluti af heildinni þetta er.
Milljónir samkynhneigðra foreldra
Þá kemur það sennilega mörgum á óvart hversu algengt það er að samkynhneigðir (bæði hommar og lesbíur) eigi og ali upp börn, en áætlað er að í Bandaríkjunum búi nú um a.m.k. 5 milljónir lesbískra mæðra ásamt 6 -14 milljón börnum sínum og ekki er ástæða til að ætla annað en að hlutföllin séu mjög svipuð í Evrópu.
Enn fleiri börn
Megnið af þessum barnaskara er getið í gagnkynhneigðu hjónabandi áður en foreldri hóf að lifa opinberlega samkynhneigðu lífi (kom úr skápnum), en það færist nú stöðugt í vöxt að samkynhneigðir ættleiði og að lesbíur eigi barn eftir tæknifrjóvgun. Rétt er að taka fram að allar viðurkenndar athuganir á þessum börnum sýna að ekkert er athugavert við þroska þessara barna og í sumum athugunum koma þau meira að segja betur út en börn sem alast upp hjá gagnkynhneigðum.
Hvaðan kemur andúðin?
Ástæðurnar fyrir hinni rótgrónu andúð á samkynhneigðum er lengra mál en svo að hægt sé að gera henni skil í stuttum pistli sem þessum. Sú staðreynd, að rannsóknir sýna að yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem bera slíka andúð með sér hefur aldrei haft persónuleg kynni af samkynhneigðum, segir meira en mörg orð.
Ekkert að því að hafa haft á röngu að standa
Ég hvet því alla, sem á einn eða annan hátt hafa andúð á samkynhneigðum, til að skoða hug sinn og finna ástæður þessa ótta. Tökum hugsunum okkar með varúð sérstaklega þeim sem hafa með tilfiningar annarra að gera, og munum að það er sama hvort það er kirkjan, sálfræðin, almúginn eða annað, það er ekkert athugavert við það að hafa haft rangt fyrir sér svo framarlega sem við erum tilbúin að endurskoða afstöðu okkar og breyta henni til betri vegar.