Þrettándinnn í Eyjum - Merkilegri saga en marga grunar

Í dag höldum við Eyjamenn Þrettándagleði okkar þótt enn séu nokkrir dagar í að Þrettándi dagur jóla renni upp.  Þrettándinn í Eyjum er í alla staði sérstakur.  Ekki einunigs er meira lagt í hann hér í Eyjum en annarstaðar heldur á hann sér verulega merkilega sögu og skírskotun í ...


...siði og venjur bæði í miðevrópu og skandinavíu.

Þettánda dagskráin þetta árið er að venju vönduð.  Eins og seinustu ár er í raun um þriggja daga bæjarhátíð að ræða með fjölbreyttri dagskrá þar sem finna má allt frá risa tónleikum með landsfrægu tónlistafólki og yfir í fjölskyldudagskrá í íþróttamiðstöðinni.  Allir finna eitthvað við sitt hæfi.  Dagskrá helgarinnar má finna hér (Þrettándinn í Eyjum 2014).

Athyglisverð skrif eftir Eyjakonu
Ég tók mig til fyrir nokkru og las feikilega skemmtilega BA rigerð í Þjóðfræði eftir Eyjakonuna Hrefnu Díönu Viðarsdóttur (dóttir Viðars og Láru Emils).  Nafn ritgerðarinnar er: „Maður bíður meira eftir þrettándanum en eftir jólunum – Form, hlutverk og þróun þrettándans í Vestmannaeyjum“.  Ekki eingöngu er ritgerðin listavel skrifuð heldur er innihald hennar slíkt að það heldur manni við lestur líkt og um skáldsögu væri að ræða.  Slíkt er sjaldgæft með BA ritgerðir og ég fullyrði að fáir hafi lesið mína ritgerð (sem hét „Tölfræðileg og aðferðafræðileg stöðlun á gátlista DuPaul) af áhuga.

Rætur Þrettándans í Eyjum liggja víða
Það er magnað að lesa um sögu Þrettándans og hugsa til þess hvernig sá siður að grímuklæðast og fara á milli húsa í litlu sjávarþorpi upp úr 1900 blandast við blysfarir skáta og síðar Týrara og verður síðar að 3 daga bæjarhátíð með almennri þátttöku.  Það er einnig stórkostlegt að sjá hvernig tröllin okkar og púkarnir eiga sér nánast fullkomna tilsvörun í td. verunni „Krampus“ í Austurríki og „nuuttipukki“ og „julebukk“ í skandinavíu. Margt annað afar athyglisvert er að finna  í ritgerð Hrefnu Díönu.

Enn sannast mikilvægi ÍBV íþróttafélags fyrir mannlíf í Vestmannaeyjum
Ekkert verður til úr engu.  Á bakvið Þrettándann í Eyjum liggur mikil vinna og óhætt að fullyrða að sjálfboðaliðar telja í hundruðum.   Ég er óendanlega þakklátur okkar öfluga íþróttafélagi að hafa viðhaldið Þrettándanum öll þessi ár. Ég er afar stoltur af því að búa í bæjarfélagi þar sem hundruðir einstaklinga eru tilbúnir til að gefa tíma sinn og vinnu til að við getum staðið undir fögnuði á borð við Þrettándagleðina okkar.  Ég er líka verulega glaður yfir því hversu almenn þátttaka okkar Eyjamanna er í því sem í boði er þessa daga.  Gangan, gleðin á malavellinum, fjölskylduskemmtunin í íþróttamiðstöðinni, listasýningar, söfnin og allt annað er ætíð mjög fjölsótt.  Fjölskyldur nýta sé þessi tækifæri og það er fyrir miklu.

Er komið að heimildarmynd um Þrettándann?

Við Eyjamenn eigum á að skipa öflugu kvikmyndagerðarfólki sem hefur sýnt og sannað að það hefur getuna til að takast á við erfið og flókin verkefni.  Skemmst er að minnast útgáfu á heimildarmynd Sighvats Jónssonar og Jóhönnu Ýrar um Heimaeyjagosið.   Nú veltir maður því fyrir sér hvort að eitthvað þessa öfluga fólks taki sig til og geri heimildarmynd um Þrettándann.  Ég er viss um að innlendar sem erlendar sjónvarpsstöðvar hafa áhuga á þessari sérstöku hefð okkar Eyjamanna og þá ekki síst þar sem hún á sér langa sögu hér í Eyjum og er með tilsvörun í siðum annarra þjóða sem í fyrstu kunna að virðast framandi. Ritgerð Hrefnu Díönu er sannarlega efni í slíka mynd.

Enn og aftur, djúpar þakkir til ÍBV íþróttafélags og þeirra sjálfboðaliða sem gerðu Þrettándann að veruleika.

ps.

(Við skrif á þessum pistli komst ég að þeirri mögnuðu uppgötvun að kvennmannsnafnið "Ýr" beygist sem "Ýri" í þolfalli og þágufalli.  Það eru mér tíðindi sem ég verð að koma á hana Jóhönnu Ýri kvikmyndagerðakonu og og allt múgligt manneskju sem fyrst).

Previous
Previous

Þrettándinn - myndband af fyrsta degi

Next
Next

Umhverfistöffaramennska -Herferð umhverfisráðherra gegn sorpbrennslum hefur leitt til 77% hækkunar sorpeyðingargjalda fyrir heimili í Vestmannaeyjum