Umhverfistöffaramennska -Herferð umhverfisráðherra gegn sorpbrennslum hefur leitt til 77% hækkunar sorpeyðingargjalda fyrir heimili í Vestmannaeyjum
Sú "umhverfistöffaramennska" (sjá skilgreiningu hér neðst) sem einkenndi seinasta kjörtímabil er að verða Eyjasamönnum og eins og svo mörgum öðrum afar kostnaðarfrekt. Á seinasta fundi bæjarstjórnar lýsti meirihluti sjálfstæðismanna yfir þungum áhyggjum af þeirri miklu kostnaðaraukningu sem orðið hefur í meðferð sorpmála í sveitarfélaginu. Í máli okkar sjálfstæðismanna kom fram að lokun sorpbrennslustöðvar í sveitarfélaginu sem fyrst og fremst má rekja til ákvörðunar fyrrverandi umhverfisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, hafi nú leitt til...
...77% hækkunar sorpeyðingargjalda.
Heimilin í Eyjum borga fyrir umhverfistöffaramennskuna í ráðherrum VG
Öll berum við ábyrgð á umhverfi okkar og sú ábyrgð er rík. Við eigum að umgangast umhverfið af virðingu og tryggja að við skilum því í betra ástandi til komandi kynslóða en við tókum við því. Hluti af þessari ábyrgð er að fara ekki í einhvern vitleysisgang, heldur hafa heildarhagsmuni í huga. Tryggja að samfélög og umhverfi þeirra séu í sátt, enda bæði hluti af sama vistkerfinu. Það er hættulegt samfélagnu ef umhverfissjónarmið eru ekki virt. Á því leikur ekki vafi. Á sama hátt er líka hættulegt umhverfinu þegar umræðan verður öfgakennd og rasað er um ráð fram ýmist af vanþekkingu eða í pólitískumleik. Þegar umræða um sorporkustöðina hér í Eyjum náði sem hæst á vordögum 2011 varaði ég við því að umhverfisyfirvöld færu þá leið slá sig til riddara á kostnað heimila í Eyjum. Ég benti til að mynda á að ef of bratt yrði farið myndi kostnaður fara úr böndum og með einum eða öðrum hætti myndu heimilin hér bera þann bagga. (sjá td. hér)
Ruglið reið ekki við einteyming
Umræða um díoxínmengun náði nýjum hæðum á vordögum og mátti nema móðursýkina og vitleysisganginn á Richterskala þegar verst lét. Svo langt gekk að nauðsynlegt reyndist að halda borgarafund hér í Eyjum þar sem landlæknir sagði til að mynda að erfitt væri að sýna fram á eiturefnaáhrif díoxín á menn og fátt myndi benda til þess að slíku væri fyrir að fara í Vestmannaeyjum (sjá td. hér). Allt var reynt til að verja hagsmuni bæjarbúa. Ótal fundir, bréfaskrif, lögfræðingameldingar og fl. Við bentum á að búið væri að ná tökum á díoxínmengun, hægt að draga um 60% úr brennslu og þar fram eftir götunum. Allt kom þó fyrir ekki. (sjá td. hér)
Ekkert var hlustað
Bent var á að heildar umhverfisáhrifin væru alvarlegri af því að flytja sorpið til förgunar annað og brenna díselolíu til orkuöflunar hér í Eyjum í staðinn. Það skipti ekki máli fyrir þá sem fóru með valdið. Bent var á hversu mikill árangur hefði náðst í að draga úr útblæsti og að stöðin væri orðin langtum betri en hún var þegar hún var ný. Það skipti umhverfistöffarana ekki máli. Bent var á að ef haldið yrði áfram með ofstækið gegn brennslunni í Eyjum þyrfti að flytja allt sorp í burtu með farþegaferju sem illa myndi þola aukið álag. Þau rök máttu sín lítils. Bent var á þann mikla kostnað sem af þessum kröfum myndu hljótast. Það skipti ekki máli fyrir þá sem fóru með valdið. Fleira var dregið fram til að kalla eftir skilningi þáverandi umhverfisyfirvalda. Þau skelltu hinsvegar skollaeyrum við öllum ábendingum.
Eitt af stóru verkefnum næsta kjörtímabils
Nú er skaðin skeður. Heimilin í Eyjum geta því þakkað fyrrum umhverfisráðherra kostnaðaraukningu af sorpeyðingargjöldum upp á 77%. Öllu sorpi í Eyjum eru nú komið í ferþegaferjuna og því síðan trukkað um hundruði kílómetra til förgunar annarstaðar. Í staðin brennum við aukinni díselolíu. Eitt af stóru verkefnum næsta kjörtímabils verður að finna hagkvæmari leiðir í sorpmálum íbúa. Leiða má líkum að því að sérstaklega verði horft til þess að hefja á ný sorpbrennslu til orkuöflunar.
(Umhverfistöffaramennska; Að ráðast gegn almennri skynsemi í nafni umhverfisöfga og eftir láta öðrum að greiða kostnaðinn eða færa fórnirnar. Dæmi: ofstækið gegn sorpbrennslum, herferð gegn umferð á hálendinu, stríð gegn nýtingu vatnsafls og lengi má áfram telja. Sjá stefnu VG til nánari glöggvunar á umhverfistöffaramennsku.)