Miðhverfir staðir - Heiðurslaun listamanna, ljóð Hannesar Péturssonar og umræða um að leggja af byggð í Eyjum
Í gær birtist frétt um heiðurslaun listamanna sem hafa verið greidd á fjárlögum allt frá árinu 1967. Í fréttinni kemur réttilega fram að launin voru upphaflega nátengd starfslaunum listamanna sem veitt voru fyrst sama ár en síðan hefur verið gerður meiri greinarmunur á milli launanna. Heiðurslaunin eru ákveðin af þingmönnum sjálfum sem veita fé til greiðslu þeirra á fjárlögum árlega samkvæmt tillögu menntamálanefndar þingsins. Í raun er veiting þeirra því...
...pólitísk ákvörðun hverju sinni.
Eitt skáld fengið 72 milljónir
Í fréttinni kemur einnig fram að sjötíu og einn listamaður hafi fengið greidd heiðurslaun frá því að launin voru fyrst greidd. Sérstaklega er síðan fjallað um framlög til Hannesar Péturssonar ljóðskálds. Hann hefur samkvæmt fréttinni verið í 31 ár á heiðurslaunum og fengið greiddar tæplega 72 milljónir úr þessum sjóði.
Frá tölvunni og upp í bókaskáp
Við lestur fréttarinnar kviknaði hjá mér þörf. Ekki til að fjalla sérstaklega um þá aðferðarfræði að greiða listamönnum úr sameiginlegum sjóðum okkar allra á þann máta sem gert er. Sú skoðun mín er þekkt og ég hef litlu við að bæta. Mig fór hinsvegar að langa að lesa á ný ljóð Hannesar Péturssonar sem ég hafði eitt sinn mikið dálæti á. Fyrst þegar ég kynntist ljóðum hans í menntaskóla og síðar þegar núverandi kona mín –þáverandi unnusta- kynnti mig fyrir bókum hans þegar hún stundaði nám í íslensku og bókmenntafræði í HÍ. Svo vel vildi til að leiðin að nokkrum bóka hans voru ekki nema um 11 skref í burtu. Frá tölvunni og upp í bókaskáp.
Minnir um sumt á Eyjalögin
Það varð því úr að ég varði lunganu úr þeim tíma sem ég ætlaði til svefns í lestur ljóðabóka Hannesar Péturssonar í lestur. Að þeim lestri loknum hef ég þetta um málið að segja:
Hannes Pétursson er án efa einhver fremsti listamaður sem þjóðin hefur átt. Staðarljóð hans minna mig í sumu á textann í Eyjalögunum. Ljóðin fanga anda tiltekins staðar og tvinna þau við minningarbrot, tilfinningar og vitundarlif skáldsins. Ljóð Hannesar–líkt og textinn í Eyjalögunum eru byggð upp með ríkumyndmáli en án orðaleginga og óþarfa skrúðs . Eyjalögin reyndar oftast rímuð ættjarðarljóð en Hannes óbundnari af því enda modernisti og því með knappari og óhefðbundnari stíl.
Dæmi um þetta má sjá strax í fyrsta ljóði sem Hannes birti undir nafninu „Bláir eru dalir þínir“:
Bláir eru dalir þínir
byggð mín í norðrinu
heiður er þinn vorhiminn
hljóðar eru nætur þínar
létt falla öldurnar
að innskerjum
– hvít eru tröf þeirra.
Þöglar eru heiðar þínar
byggð mín í norðrinu.
Huldur býr í fossgljúfri
saumar sólargull
í silfurfestar vatnsdropanna.
Sæl verður gleymskan
undir grasi þínu
byggð mín í norðrinu
því sælt er að gleyma
í fangi þess
maður elskar.
Ó bláir eru dalir þínir
byggð mín í norðrinu.
...og á sambærilegan máta koma þessi staðarljóðaeinkenni fram td. í ljóðinu „Heima“ eftir Ása í bæ.
Heima
Hún rís úr sumar sænum
í silkimjúkum blænum
með fjöll í feldi grænum,
mín fagra Heimaey.
Við lífsins fögnuð fundum
á fyrstu bernskustundum,
er sólin hló á sundum
og sigldu himinfley.
Hér réri hann afi á árabát
og undi sér best á sjó,
en amma hafði á öldunni gát
og aflann úr fjörunni dró.
Er vindur lék í voðum
og vængir lyftu gnoðum,
þeir þutu beint hjá boðum
á blíðvinafund.
Og enn þeir fiskinn fanga
við Flúðir, Svið og Dranga,
þótt stormur strjúki vanga,
það stælir karlmanns lund.
Og allt var skini skartað
og skjól við móðurhjartað,
hér leið mín bernskan bjarta
við bjargfuglaklið.
Er vorið lagði að landi,
var líf í fjörusandi,
þá ríkti unaðsandi
í ætt við bárunið.
Þegar í fjarskann mig báturinn ber
og boðinn úr djúpi rís.
Eyjan mín kæra, ég óska hjá þér
að eigi ég faðmlögin vís.
Þótt löngum beri af leiðum
á lífsins vegi breiðum,
Þá finnst á fornum eiðum
margt falið hjartamein.
En okkar æskufuna
við ættum þó að muna
á meðan öldur una
í ást við fjörustein.
Svo skemmtileg vill einmitt til að bæði þessi ljóð eru samin árið 1951. Fróðlegt væri að vita hvort að þeir Hannes og Ási hafi vitað hvor á öðrum og lesið ljóð hvors annars.
Staðarljóðin frábær en en ekki það besta.
Þótt ég hrífist afar mikið af hreinræktuðum staðarljóðum Hannesar og dundi mér ítrekað við samanburðinn við þau fjölmörgu staðarljóð sem ég hef alist upp við hér í Eyjum þá kann ég enn betur að meta þegar Hannes fer dýpra eins og í þessu ljóði:
Sem dropi tindrandi
tæki sig út úr regni
hætti við að falla
héldist í loftinu kyrr —
þannig fer unaðssömum
augnablikum hins liðna.
Þau taka sig út úr
tímanum og ljóma
kyrrstæð, meðan hrynur
gegnum hjartað stund eftir stund.
Vandséð er að að í annan tíma hafi verið ort af meira næmi um mikilvægi þess að skapa fallegar minningar –stöðva nokkra regndropa- í stað þess að horfa á regnið í kringum sig í flatneskju þeirra polla sem annars byggja upp minningar.
Umræðan seinustu misseri
Eftir átök seinustu ára þar sem umræðan hefur verið pólaríseruð með og á móti hefur mér oft orðið hugsað til þeirra víggirðinga sem við byggjum upp. Ýmist um okkur sjálf eða aðra. Hvernig einfaldar spurningar um tilveruna eða rekstur (svo sem um það hvort við höfum efni á að nota 900 milljónir í sinfóníu og 6500 milljónir í niðurgreiðslu til mjólkurframleiðslu ) setja mann í miðhverfan stað þar sem lítið tækifæri er til röksemda og umræðna. Þeir sem verða manni ósammála draga síðan um sig aðra víggirðingu. Búa sér til sinn eigin miðhverfa stað og leggja meintum andstæðingi sínum orð í munn. Hugtök eins og „annað“ og „öðruvísi“ hætta að fá súrefni og drukkna í „allt eða ekkert“ hugsun. Með og á móti. Ef þú vilt minna, viltu ekkert. Ef þú vilt meira, viltu allt. Við lestur á ljóðum Hannesar datt ég svo um ljóð þar sem skáldið skýrir að mínu viti þessa hugsun svo mikið betur en mér væri nokkursinni mögulegt:
Af sjálfbirgingshyggju
menn settust í miðhverfan stað.
Allt varð þeim snemma umgjörð mann-dýrsins.
Ef til vill skynjar þó auga hestsins í túninu mig og þig:
manninn á jörðu – sem lífheim utar sinni óskoruðu miðju.
Árásir á Eyjar
Í umræðunni hef ég líka fundið hvernig minn heimabær hefur orðið að sérstökum skótspón í árásum milli miðhverfu staðanna. Milli manndýranna í túninu falla Eyjar í sérstakan miðhverfan stað. „Réttast væri að taka af þeim allan kvótann“, „Menningarsnauðu Eyjamenn“, „Leggja ætti niður byggð í Eyjum“, „Þeim vantar bara kammersveit“, „Við veiðum bara þennan fisk annarstaðar“. Allt skoðanir sem ef til vill eiga rétt á sér innan miðhverfu þess staðar þar sem orðin eru látin falla en vekja undrun utan þeirrar miðju. Svo mikið er amk. víst að Vestmananeyjar eiga sér sína galla eins og aðrir minni staðir. Sínar sorgir en líka sína gleði. Íbúar eiga sér rætur sem um leið verða þeim viðspyrna gegn því sem þeir upplifa sem ógn.
Hannes orðaði þetta reyndar einnig á ágætan máta þegar hann sagði:
Minn staður er hér,
þar sem Evrópa endar
og auðnir hnattarins taka við.
Eldgröf í sæ, með ísbláan múrinn á aðra hlið.
Örlagastaður sem stundirnar marka.
Hér stendur rótum í gleði og sorg
mitt sveitamannslíf,
mín hálfgildings hugsun
í hálfgildings borg
og er viðspyrna, farg;
það fellur hér saman – flækjuleg reynsla.
Hvort nýtist hún mér til fullnaðarsöngva?
Útmörk.
Evrópa endar hér.
(NB! Auðvitað virkar þetta í báðar áttir þótt hér setji sjálfbirgingshyggjan mig í minn eign miðhverfa stað)
Niðurstaðan
Niðurstaða mín eftir þessar vangaveltur eru þessar: Hannes Pétursson er eitt af mínum eftirlætisskáldum. Að lesa sum ljóð hans er eins og að tjalda á fallegum stað í góðum félagsskap. Mann langar að koma þangað aftur og aftur. Skoða betur og njóta á ný. Endalaust finnur maður svörun milli eigin hugrenninga og hugarheims skáldsins. Áfram vill maður kjamsa á góðgætinu. Eftir sem áður er ég ekki fylgjandi því að greiða listamönnum laun á þann máta sem nú er gert. Hvorki Hannesi, þótt ég dáist að ljóðum hans, né örðum. Ég vil sjálfur geiða fyrir aðgengi mitt að menningu og kaup mín á verkum á að vera stuðningur minn við listamennina. Á sama hátt vil ég endurskoða framlög til svo margs í samfélaginu. Ég vil forgangsraða í þágu grunnþjónustu á borð við menntun, samgöngur, löggæslu, heilbrigðisþjónustu og almannatrygginga. Allt annað er undir.
Að sinni verður þessi skoðun áfram minn miðhverfi staður.