Viðbrögð lítils samfélags við harmleik
Þegar harmleikur á sér stað í litlu samfélagi, losna úr læðingi flóknar tilfinningar og sterkar. Slíkir atburðir hafa djúpstæð áhrif á allt samfélagið. Fólk getur fundið fyrir ótta, reiði, samúð, sorg og svo margs annars sem einkennir mennskuna. Í slíkum aðstæðum er mikilvægt að samfélagið sýni samstöðu, styðji þá sem eiga um sárt að binda og gæti þess að virða einkalíf þeirra sem standa nærri atburðinum.
Virðing og stuðningur
Ísland er lítið land þar sem fólk þekkir vel til hvers annars. Það getur ekki eingöngu leitt til sterkra tilfinningaviðbragða heldur einnig hættu á sögusögnum og óþarfa ágiskunum. Að mörgu leyti er það leiðin til að reyna að skilja harmleikinn og eðlilegt sem slíkt. Engu að síður er það lykilatriði að sýna virðingu fyrir þeim sem eru í sorg og gefa þeim rými til að vinna úr áfallinu á sínum hraða. Félagslegur stuðningur, eins og að veita huggunarorð, bjóða fram aðstoð eða einfaldlega vera til staðar, getur skipt sköpum fyrir syrgjendur.
Öll samfélög á Íslandi þekkja það að takast á við sorg og jafnvel harmleik.
Ábyrgð fjölmiðla og samfélagsmiðla
Við almenningur gerum miklar kröfur til fjölmiðla og stólum á þá þegar kemur að útskýringum og skilningi á atburðum og atburðarás. Þeim mun mikilvægara er að fjölmiðlar gæti hófs í umfjöllun sinni og sérstaklega þegar kemur að hálfkveðnum vísum sem geta leitt til rangra ályktana. Sérstaklega ber að forðast að ýta undir getgátur sem geta aukið vanlíðan þeirra sem standa nærri atburðinum. Á sama hátt er nær samfélagið óöruggt og vill frið til að vinna úr áfallinu og sína þeim sem nær standa stuðning .
Hlutverk lögreglu og réttarkerfisins
Á meðan lögreglan rannsakar málið er mikilvægt að samfélagið styðji vinnu hennar og virði ferlið. Óstaðfestar getgátur eða óþolinmæði gagnvart framgangi rannsóknarinnar geta valdið aðstandenum sárum og jafnvel spillt fyrir réttarferlinu. Samfélagið ætti því að halda aftur af getgátum og leyfa yfirvöldum að vinna sína vinnu. Hluti af þeirri vinnu er að upplýsa um framgang málsins og forsendur. Hér er ekki dregið úr mikilvægi þess að lögregla standi þar skjótt og vel að málum.
Að standa saman í sorginni
Eftir voveifilegan atburð getur samfélagið fundið leiðir til að standa saman og leitað stuðnings hjá hvert öðru. Best að nálgast hann með yfirvegun, virðingu og samhug. Með því að styðja aðstandendur, leyfa lögreglunni að vinna sína vinnu og gæta ábyrgðar í upplýsingamiðlun getur samfélagið hjálpað sér sjálfu og þeim sem eru hvað mest að þjást.